Hádegismatur – Hvað eigum við að forðast?

Ekki er allt sem sýnist!
Það er nú ekki allt hollt sem okkur dettur í hug að fá okkur þegar kemur að hádegishléinu. Margt af því sem valið stendur um veitir  okkur ekki heldur nægilega orku til þess að komast í gegnum daginn. Hér ætla ég að birta skrá yfir tíu máltíðir sem sumir telja vera óhagstæðasta mat sem maður getur fengið  í hádeginu. Ef til vill kemur upptalningin þér á óvart en lestu þetta samt og spáðu í það!

1. Hamborgari og franskar á skyndibitastað
Hamborgari af  eðlilegri stærð er í sjálfu sér ekki slæmur, þá sérstaklega ef þú notar öðruvísi brauð en hveitibrauð, setur helling af grænmeti og sleppir hamborgarasósunni.  Ef maður hins vegar bætir við einu lagi af brauði og pantar yfirstærð af kjöti, beikon og ýmislegt meðlæti, ost og  franskar ertu að auka líkurnar á allskyns vandamálum bæði nú og seinna meir. Þú ert einfaldlega að innbyrða of margar  hitaeiningar.  Auk þess getur verið erfitt að melta franskar kartöflur og þær draga úr þér kraftinn og skemma fyrir þér virknina það sem eftir er dagsins. Svo ég tali nú ekki um hvað unninn og DJÚPSTEIKTUR matur er slæmur fyrir þig, það er eitt það versta sem þú getur látið ofan í þig.

2. Tilbúnar samlokur
Á mörgum stöðum getur maður fengið einhverskonar samlokur, samlokur sem eru tilbúnar, í hveitibrauði með allskyns óhollum sósum og lítilli næringu. Gríptu þær bara, hitaðu þær og borðaðu! En flestar samlokur sem maður kaupir svona eru með óhollum rotvarnarefnum svo að samlokan skemmist ekki þar sem hún liggur í hillunni.  Auk þess eru í þessu óhollar  fitur,  sykur og önnur viðbótarefni. Ef þú ætlar að fá þér samloku skaltu fara þangað sem samlokur eru gerðar á staðnum eða þangað sem þær komu inn nýjar um morguninn. Það getur vel verið að það taki þig lengri tíma en það er miklu hollara en hitt. Svo er líka bara lang best að borða sem minnst af hveiti.

3. Múffur
Það hefur lengið verið álitið að múffur væru mjög hollar í morgunmat og margir borða múffur og fá sér kaffi líka í hádeginu en flestar múffur eru gerðar úr viðbættu hveiti, sykri og smjöri sem er nú ekki hollt fyrir mann og það endar með því að líðanin verður alls ekki upp á það besta.
4. Bökuð kartafla
Maður hugsar með sér að bakað sé hollt og að bökuð kartafla sé örugglega hollari en frænka hennar – sú steikta. En í kartöflum er mikið sykurgildi. Þegar líkaminn fer að melta bökuðu kartöfluna eykst  blóðsykurinn snögglega en þegar áhrifin eru búin verður maður þreyttur og daufur bæði andlega og líkamlega.
5. Ostur og kex
Maður heldur að osturinn sé yfirleitt hollur fyrir mann en kexið er það nú ekki nema maður borði ákveðnar tegundir. Oftast er kex  uppfullt af sykri, rotvarnarefnum, fitu og hveiti.  Ritz kex sem er mjög vinsælt er aðallega hveiti.  Það er búið að riðla  eðlilegu innihaldi hveitis sem maður fær í dag.  Þegar svo búið er að taka úr því flest efni sem náttúran setti í það er ýmsum efnum svo sem járni og vítamínum bætt í það.  Marktækir eftirlitsaðilar  matvælastofnana vara við þessari þróun og segja að sumt af því sem bætt er í hveitið sé hreinlega eitrað.   Þeir segja  að járnið sem sett er í hveitið  sé ekki næringarefni en heldur sé það járn sem líkaminn getur ekki unnið úr og ekki ætlað til neyslu.  Maður ætti að fá sér hollari, grófar kexkökur  t.d.  úr bókhveiti eða spelti, hrískexin frá Sollu eru líka ágæt.

6. Tilbúnir bakkar með osti og kjöti
Tibúnir bakkar með osti, kexi, kjöti og samlokum eru svo þægilegir og svo óhollir! Fyrst og fremst er þarna fullt af rotvarnarefnum svo að maturinn endist lengur í hillunum. Í öðru lagi er þetta fullt af salti til þess að það smakkist nú betur. Í þriðja lagi er þetta sett í plastbakka. Það er vitað mál að plast bakkar sem eru notaðir undir mat eru búnir til úr  vínyl og kemísku efnin fara úr plastinu  í matinn.   Vitað er þessi kemísku efni geta verið fólki hættuleg, m.a. valdið  skemmdum á erfðaefninu, skaðað starfsemi lunganna og stuðlað að þyngdaraukningu. Þess vegna ætti maður að forðast að kaupa sér máltíðir sem þessar, við könnumst öll við örbylgjuréttina íslensku sem fást í flestum búðum, þeir eru sjaldan hollir og næringarríkir.

7. Tilbúin pizza
Það finnst öllum gott að fá sér eina eða tvær sneiðar af pizzu í hádegismatinn. En í þessum skammti eru líklegast einar 500 hitaeiningar og 20 gr. af fitu. Ef með þessu er svo drukkinn gosdrykkur  bætist vel við hitaeiningarnar. Auk þessa er pizzan búin til úr viðbættu hveiti sem er ekki gott fyrir líkamann.  Ef okkur langar í pizzu er málið að búa hana  til heima og hafa heilhveiti í botninum.  Það er mun betra val en pizzan sem maður kaupir tilbúna.

 

8. Beyglur

Beyglur eru líklegar til að  auka blóðsykurinn mjög snarlega líkt og lýst var þegar bakaðar kartöflur eru borðaðar.  Auk þess eru beyglurnar  yfirleitt allt of stórar. Ef mann langar í beyglu í hádegismatinn er einfalt að baka þær heima og þá  úr heilhveiti.

9. Orkustangir

Flestir tengja orkustangir við heilsu eða hollustu. Þær eiga að gefa okkur orku og  næringarefni en flestar þeirra eru bara dulbúnar sælgætisstengur. Þær eru að mestu leyti búnir til úr viðbættu hvítu hveiti, miklum sykri og sýrópi. Allt þetta eykur blóðsykurinn snarlega og það líður heldur ekki á löngu þar til hann hrynur aftur. Í orkustöngum er oft mjög mikil mettuð fita.  Þó að fullyrt  sé að hver orkustöng sé heil máltíð verður maður hungraður aftur eftir nokkrar klukkustundir af því að orkan sem maður ætti að fá úr þeim hverfur fljótlega og maður verður svangur aftur. Í staðinn fyrir að fá sér orkustöng er ráð að fá sér heilhveitistöng sem er með miklum trefjum og engum hvítum sykri.

10. Boozt drykkir.
Ég varð að taka þetta með því að mjög víða eru Boozt barir  og sagt að það sé miklu hollara að velja sér Boozt í hádeginu heldur en eitthvað annað. Það er ekki hægt að bera á móti því að þeir eru hollari en pizza eða hamborgari og franskar en maður fær ekki trefjarnar í Boozt sem maður þarf til þess að vera hress allan daginn. En maður fær heilmikið af hitaeiningum.  Þetta getur valdið því að maður verður fljótt svangur aftur og borðar meira í eftirmiðdaginn en ella. Þess vegna er ráðlegt að fá sér bara hollan og góðan hádegismat og athuga vel hvað maður er að borða.

 

Þessir tíu hádegisverðir sem hér eru tilteknir eru vinsælir en ekki gott val.

Gott er að borða til dæmis, eggjaommeletuu með grænmeti, fisk,kjúkling, grænmeti og ávexti í hádegismat. Þú kemst að því að ef þú gerir það verður orkan meiri og þér líður vel allan eftirmiðdaginn.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here