Hafðu yfirsýn yfir minnismiðunum

Þegar ég segi skipulag, ferð þú að hlusta? Hvað með ef ég bæti við flott útlit, ódýrt og mjög auðvelt að útbúa?

Þetta föndur var svo auðvelt að ég tók bara mynd í upphafi og þegar ég var búin. Það eina sem ég þurfti var rammi og svona svona spýtur sem læknirinn notar til að skoða hálsinn (mínar voru í pínu yfirstærð, pantaðar að utan), smá málning, penslar og nokkrar klemmur (þær voru aftur á móti í minni kantinum…… þannig að þetta gæti minnt á mig og manninn minn, ég er lítil (klemmurnar) og hann stór (spýturnar)).

 

Ég byrjaði á því að fjarlægja glerið úr rammanum. Svo notaði ég bakið til að mæla út hvað spýturnar þurftu að vera langar og klippti þær til og pússaði endana til (ég gaf manninum mínum rafmangspússara fyrir nokkrum árum, hingað til hef ég notað pússarann töluvert meira en hann). Þegar ég var komin með nóg af spýtum til að þekja bakið þá sótti ég elsku límbyssuna mína og límdi spíturnar á bakið. Svo málaði ég allt grátt. Ég elska gamalt útlit þannig að ég notaði gamlan pínu harðan pensil til að þurrbursta yfir spýturnar með smá hvítri málingu. Ég notaði sömu aðferð á rammann sjálfan nema öfugt, málaði fyrst með hvítri málingu og fór svo yfir með grárri. Svo setti ég bakið í rammann, fann út hvar ég vildi hafa klemmurnar, límdi þær niður og málaði.

Ég veit ekki um þig en mér finnst þetta koma ótrúlega vel út.

 

 

SHARE