„Hann á við mikið drykkjuvandamál að stríða“

Justin Timberlake var handtekinn snemma í morgun vegna ölvunaraksturs og hafa fjölmiðlar birt fréttir af þessu í allan dag. Heimildarmaður Page Six hefur nú stigið fram og sagt að drykkjuvandamál Justin sé ekkert nýtt af nálinni: „Þetta er ekkert leyndarmál, það vita þetta allir. Hann á við mikið drykkjuvandamál að stríða og reykir mikið gras, en á samt í mestu vandræðunum með áfengi og hefur verið að reyna að fela það í mörg ár,“ segir heimildarmaðurinn.

Hinsvegar segir annar heimildarmaður að Justin hafi ekki drukkið mikið seinustu mánuði og hafi lifað heilbrigðara lífi í nokkurn tíma áður en hann fór á tónleikaferðalag í apríl. Hann hafi meira að segja losnað við nokkur kíló með þessum breytta lífsstíl.

Justin var tekinn við ölvunarakstur eftir að hafa verið úti að borða með vinum á American Hotel í Sag Harbor á Long Island. Hann var stoppaður eftir að hafa ekki virt stöðvunarskyldu og keyrði hann, að sögn lögreglu, mjög ógætilega. Hann neitaði svo að blása þegar lögreglan hafði stöðvað hann og var hann þá handtekinn.

Fyrri heimildarmaðurinn segir að það sé augljóst að hann eigi við áfengisvanda að stríða en allir í kringum hann séu alltof meðvirkir með honum.

SHARE