Hefur misst 67 kílógrömm – Fékk gigt í kjölfar matareitrunar

Andrea Ingvarsdóttir er 28 ára gömul kona sem hefur heldur betur breytt lífi sínu á undanförnum árum. Við tókum spjall við Andreu og fengum að heyra hennar sögu.photo (1)

Andrea var tágrönn og liðug sem barn en fór að bæta á sig á unglingsárunum. „Alla mína skólagöngu varð ég fyrir mjög miklu einelti bæði frá kennara og nemendum og heimilisaðstæður voru mjög erfiðar. Þetta gerði það að verkum að ég varð félagslega einangruð,“ segir Andrea en um þetta leyti fór hún að leita sér huggunar í mat og dró úr hreyfingu. Þegar hún lauk svo skyldunáminu vildi hún svo standa á eigin fótum og fór að vinna. Stuttu síðar löguðust svo aðstæðurnar á heimilinu og lífið varð betra.

Fékk alvarlega matareitrun 

„Á þessum tíma var ég laus við einelti og mér var farið að líða betur.

Árið 2004 þá 19 ára gömul var ég í fullri vinnu og leigði ein íbúð og leið vel. Þá gerðist það sem breytti mínu lífi að ég fékk mjög alvarlega matareitrun (kamfílóbakteríu) sem varð til þess að mér var vart hugað líf á tímabili,“ segir Andrea en upp frá þessu hófst baráttan við sjúkdóminn fylgigigt. „Ég var orðin mikill gigtarsjúklingur, það tók langan tíma í að finna réttu lyfin svo ég fæti fúnkerað í lífinu. Upp úr þessu fóru meiri veikindi að koma uppá sem tvinnuðust út frá gigtinni svo sem í ristli, helilahimnubólga, ég missti hárið, neglur og ég gæti haldið áfram. Ég varð að hætta vinnu, því ég varð að leggjast inn á sjúkrahús í margar vikur þar sem læknar hófu vinnu í að hjálpa mér og finna rétta meðhöndlun en þarna var ég komin í hjólastól.“

photoEftir að sjúkrahúsdvölinni lauk þá lá leið Andreu inn á Reykjalund í endurhæfingu  þar sem hún varð að læra allt upp á nýtt alveg frá því að borða sjálf, klæða sig og ganga án aðstoðar.

„Veikindin höfðu þær afleiðingar að hreyfigetan var engin, andlega líðan fór hratt niðurá við og upp úr þessu hrönnuðust á mig kílóin bæði út af lyfjum, hreyfingaleysi og öðru,“ segir Andrea en þegar hún var þyngst var hún um 130 kg og segir að henni hafi liðið alveg hræðilega. Hún var komin í algjöran vítahring.

„Ég gat ekki hreyft mig mikið án þess að kveljast mjög og þetta var orðið of mikið álag á gigtina svo þetta var eins og að vera fastur í álögum og geta ekkert gert. Ég var að gefast upp.“

Andrea leitaði sér aðstoðar hjá læknum á Reykjalundi og sótti þá um að fara í offitumeðferð til þess að reyna að ná einhverjum tökum á þessum kílóum: „Gigtin var að drepa mig, þyngdin gerði það að verkum að gigtin varð miklu verri,  ég gat ekki hreyft mig sökum verkja og bólgum í líkama og liðum og lyfin virkuðu ekki eins og þau áttu að gera. Ég gat ekki leikið við son minn án þess að erfiða, gat ekki sest á gólfið hjá honum að leika, farið út í göngutúra með hann og fleira. Ég svaf hræðilega og þegar ég fór að hreyfa mig á þeim dögum sem ég var góð að þá versnaði ég í líkamanum svo hratt að ég var oft rúmliggjandi í marga daga á eftir þó svo að ég hafi farið rólega,“ segir Andrea og það má segja að móðurástin hafi bjargað lífi hennar því hún vildi ekki deyja frá barninu sínu. „Ég vildi vera hans fyrirmynd, sjá hann dafna, geta leikið við hann og haft gaman, og verðið „eðlileg“.“

Gigtin versnaði eftir aðgerðina

Eftir að eldmóðurinn hafði komið í líf Andreu fóru hlutirnir að gerast. Hún fór í offitumeðferð á Reykjalundi en þar varð hún að losna við ákveðna prósentu af þyngd sinni sem hún gerði, en hún segir að það hafi tekið góðan tíma. Hreyfigetan var mjög takmörkuð og kílóin hafi farið hægt en með réttu mataræði hafi það tekist.

photo (6)

„Ég fór að læra nýtt mataræði, nýjar skammtastærðir, hreyfingu, breyta mínu viðhorfi og fleira. Þessi ákvörðun um að senda mig í hjáveituaðgerð var tekin í samráði lækna, þar sem að aðgerðin sem slík var það eina sem var í raun og veru í boði til þess að ná tökum á mínum sjukdómi. Ég ákvað að láta til skarar skríða,“  segir Andrea en hún fór svo í aðgerðina 10. apríl 2012 og hóf þá nýjan kafla í lífinu.

„Maður byrjar í raun á byrjunarreit, en þetta var langt og strembið ferðalag en mjög skemmtilegt,“ segir Andrea. Kílóin fóru eitt af öðru, hægt og rólega en gigtin snarversnaði og hún var meira og minna á spítala fyrsta árið því svona stórt inngrip fór ekki vel í gigtina. „En ég ákvað að gefast ekki upp enda hef ég barist við að halda mér á lífi og stór partur af því er með jákvæðu hugafari. Það er full vinna að takast á við svona breytingar.“

Hefur misst 67 kíló og þorir að vera skvísa

Síðan Andrea fór í aðgerðina hefur ótal margt breyst en hún hefur misst tæplega 67 kílógrömm. „Ég get hreyft mig miklu meira, ég kemst í föt sem mig langar í, get leikið við son minn, get sest í flugvélasætin án þess að þurfa framlengingu og þurfa að skammast mín. Ég get setið í stólum með arma á þess að lærin flæði út til hliðar og ég þori að vera „skvísa“ og ganga Laugarveginn eða í Kringlunni án þess að verða niðurlút,“ segir þessi öfluga kona og segist geta talið endalaust upp það sem hefur breyst til batnaðar í lífi sínu. Hún segir að hún líti á aðgerðina sem hjálpartæki sem er mjög vand með farið og ef spilað sé rétt úr spilunum þá geti fólk unnið stóran sigur en svona aðgerðir séu alls engin skyndilausn.

photo (2)

Hún er í dag í strangri lyfjameðferð gegn sínum gigtarsjúkdómi og það gengur upp og niður, en segist fagna öllum verkjalausum dögum sem hún fær að upplifa. „Ég er mjög jákvæð og bjartýn um framhald mitt í lífinu og ég horfi á lífið þannig að við erum öll sköpuð í ákveðin hlutverki í lífinu, bankamaðurinn, bifvélavirkinn og fleira og ég fékk það hlutverk að takast á við mjög erfið og ströng veikindi sem hafa dúkkað uppá og tek þeim bara eins og hverju öðru verkefni fyrir mig til að leysa úr. Ég tek á móti þeim með opnu hugafari og jákvæðu viðmóti, afgreiði þau og held svo áfram með lífið. Þú kemst í raun og veru ekkert áfram í lífinu nema að hafa jákvætt hugarfar og vera tilbúin að takast á við lífið með opnum örmum og standa trúr sjálfum þér. Þú berð ábyrgð á þér og þínum gjörðum og engin annar. Og mundu að: Everything happens for a reason!“ segir Andrea að lokum.

photo (4)

 

photo (5)

SHARE