Heilariti – almennar upplýsingar

Heilarit, eða EEG er upptaka af rafvirkni heilans. Frumur í heilanum senda frá sér rafboð. Með heilarita er hægt að nema þessi boð og margfalda þau með magnara. Þau boð eru síðan notuð til greiningar sjúkdóma eða einkenna. Heili okkar er virkur allan sólarhringinn. Heilariti getur því greint og tekið upp heilavirkni hvort sem viðkomandi er vakandi eða sofandi. Kostir EEG mælinga eru að ekki er um inngrip í líkamann að ræða en þó er hægt að fá miklar upplýsingar út úr ritinu. Helsta notkunarsvið heilarits hefur hingað til verið greining á flogaveiki.

Þróun EEG

Árið 1929 tilkynnti Hans Berger, þýskur læknir, þá uppgötvun sína að hægt væri að taka upp rafboð sem heilinn gæfi frá sér og sýna þau myndrænt á pappír. Hann fann einnig út að þessi rafvirkni breyttist samfara virkni heilans svo sem í svefni, svæfingu, við súrefnisskort og í vissum tegundum taugasjúkdóma, til dæmis flogaveiki. Berger lagði þarna grunn að því sem í dag kallast klínísk taugalífeðlisfræði.

Hvað sést í heilalínuriti?

Hver bylgja í ritinu gefur til kynna starfsemi í ákveðnum hluta heilans. Mynstrið sem kemur fram á skjáinn í EEG upptöku getur einnig breyst vegna eðlilegra áhrifa, ekki bara vegna sjúkdóma. Það er einungis á færi reyndra sérfræðinga að lesa út úr niðurstöðum EEG. EEG mynstrið breytist ef virkni heilans breytist, annars konar mynstur sést í svefni en í vökuástandi til dæmis. Mynstrið getur sagt til um hvort viðkomandi er í léttum eða djúpum svefni. Hægt er að greina milli eðlilegrar virkni heilans og óeðlilegrar.

Hvernig fer EEG rannsókn fram?

Þú liggur á bekk eða rúmi meðan 20-24 elektróðum er komið fyrir á höfði þínu með sérstöku kremi. Þú ert beðin um að slaka á og liggja kyrr ýmist með augun opin eða lokuð. Þú getur verið beðin um að anda djúpt og hratt eða horfa beint í blikkandi ljós en hvorutveggja framkallar breytingar í EEG ritinu. Oftast stendur hver upptaka yfir í um 20-30 mínútur en stundum þarf að taka upp í lengri tíma, svo sem heilan dag eða lengur. Ef verið er að meta svefnvandamál þá er EEG upptaka gerð samfellt yfir nótt meðan þú sefur og aðrar mælingar gerðar samhliða. Að láta taka af sér EEG rit er á engan hátt óþægilegt og engin hætta fylgir þessari rannsókn.  Flog er ein helsta ábending á að EEG rannsókn er gerð. En fái einhver eitt flog er hann þó ekki endinlega kominn með flogaveiki.

Hvað er flogaveiki?

Flogaveiki er algeng truflun á taugaboðum í heila, um það bil 5 af hverjum 1000 einstaklingum fá eitt flog einhvern tímann á ævinni. Þrátt fyrir algengi er flogaveiki oft misskilið ástand og fordómar gagnvart flogaveiki eru til staðar enn þann dag í dag. Flogaveiki er í raun ekki sjúkdómur sem slíkur heldur fremur einkenni margra sjúkdóma sem hafa mismunandi orsakir. Stundum finnst þó engin sérstök orsök eða undirliggjandi sjúkdómur. Flogaveiki getur komið fram á hvaða aldri sem er en þó er þetta ástand algengast í börnum og eldra fólki. Helmingur þeirra sem greinast með flogaveiki eru börn. Við eðlilegar aðstæður eiga frumur heilans samskipti sín á milli með því að mynda örlitla rafspennu sem þær senda frá sér á mjög lágri tíðni. Við flog flyst meiri raforka milli frumna en eðlilegt er. Þessi truflun á rafvirkni getur verið bundin við lítið afmarkað svæði heilans en getur líka haft áhrif á heilbrigðar frumur og þá verður truflun yfir allan heilann. Til eru meira en 20 gerðir floga og ráðast þær af því hvar í heilanum truflunin er og hvers eðlis. Þar sem tegundir floga eru margvíslegar eru einkennin einnig mismunandi. Flog getur verið allt frá því að vera störuflog, sem lýsir sér sem starandi augnarráð sem varir aðeins í örfáar sekúndur, í það að vera altækt krampaflog sem er krampi sem getur staðið yfir í tvær til fimm mínútur. Sértæk flog valda ósjálfráðum hreyfingum í hand og/eða fótleggjum, truflun á skynjun eða tímabundinni ósjálfráðri hegðun. Mismunandi er hvort viðkomandi heldur meðvitund eða missir hana.

Frekari upplýsingar um eðli flogaveiki er hægt að fá hjá Landssamtökum áhugafólks um flogaveiki. LAUF,

EEG kemur að gagni við:

 • að greina flogavirkni, eðli, orsök og upptök floga
 • að greina svefnvandamál
 • að finna og staðsetja heilaæxli, ígerðir (sýkingu) eða áverka á heila
 • að greina og meta alvarleika heilablóðfalls (stroke)
 • að greina vissar tegundir heila og mænu sýkinga og heilabólgu
 • að greina blæðingu inn á heila
 • að greina og meta eðli hrörnunarsjúkdóma, s.s. Alzheimer sjúkdóm
 • að fylgjast með heilavirkni í skurðaðgerð og meta stig svæfingar
 • að greina dauðadá (coma)
 • að greina geðræn vandamál frá ýmsum taugasjúkdómum
 • að segja til um hvort einstaklingur er líklegur til að fá krampa eftir höfuðáverka
 • til að staðfesta heiladauða í einstaklingi í dauðadái Það skal þó tekið fram að þessar greiningar eru alltaf gerðar samhliða öðrum rannsóknum og staðfestar af sérfræðingi.

EEG getur EKKI:

 • Lesið hugsanir
 • Mælt dómgreind

 

SHARE