Ók á móti umferð og mætti lögreglunni

Karl Ágúst Úlfsson er einn af okkar ástsælustu leikurum en hann er líka leikstjóri, þýðandi, rithöfundur og leikskáld. Það þekkja hann flestir úr Spaugstofunni, en Spaugstofan hefur verið í gangi frá því árið 1989 þegar þættirnir hófu göngu sína á RÚV.

Karl er í Yfirheyrslunni í dag

 

Fullt nafn: Karl Ágúst Úlfsson

Aldur:  55 ár og nokkrir mánuðir

Hjúskaparstaða:  Einhleypur

Atvinna: Leiklistamaður

… 

Hver var fyrsta atvinna þín?  Þegar unglingavinnunni sleppti var ég lagermaður á röralager í nokkur sumur.

Mannstu eftir einhverju ákveðnu tískuslysi frá unglingsárunum?  Það eru helst þykkbotna skórnir sem strákar fóru að ganga í á tímabili. Þetta var reyndar fagnaðarefni fyrir lágvaxna drengi eins og mig, því ég gat hækkað mig um 10-12 sentimetra með því að ganga í svona skóm. Meinið var bara að stelpurnar gengu í þeim líka, svo þetta kom á endanum út á eitt.

Áttu leyndarmál sem mun fylgja þér til grafar? Nei, ég held ég sé búinn að blaðra öllu sem ég hef hugsað og upplifað um dagana.

Hefurðu farið hundóánægður úr klippingu og sagt ekki neitt við klipparann? Nei. En ég er heldur ekki mjög kröfuharður á stíl.

Kíkirðu í baðskápana hjá fólki sem þú ert í heimsókn hjá?  Nei. Er það almennt gert?

Vandræðalegasta atvik sem þú hefur lent í? Þau eru svo mörg, en ég gæti nefnt atvikið þegar ég hélt ég hefði fengið óborganlega hugmynd að leikriti og eyddi mörgum orðum í að lýsa henni fyrir þáverandi þjóðleikhússtjóra. Þegar hann komst loksins að benti hann mér kurteislega á að þetta leikrit hefði verið skrifað áður.

Í hvernig klæðnaði líður þér best? Vinnufötum.

Hefurðu komplexa? Já.

Hver er besta setning eða orðtak sem þú hefur heyrt?  Hamingjan er óþrjótandi auðlind.

Vefsíðan sem þú skoðar oftast? Facebook síðan mín.

Seinasta sms sem þú fékkst? Takk pabbi. Elska tig

Hundur eða köttur?  Köttur eins og er.

Ertu ástfanginn? Já, alltaf.

Hefurðu brotið lög?  Já. Einu sinni ók ég einstefnugötu í öfuga átt. Eini bíllinn sem ég mætti var löggubíll.

Hefurðu grátið í brúðkaupi?  Já já, oft. En ég hef líka grátið yfir Tomma og Jenna

Hefurðu stolið einhverju? Þegar ég var ca. tíu ára stal ég Nivea kremi úr kaupfélaginu í Mosfellssveit. Ég man ekkert hvað ég ætlaði að gera við það, eða hvað ég gerði við það. Líklega þurfti ég bar að prófa þetta.

Ef þú gætir breytt einu úr fortíðinni hvað væri það?  Þá hefði ég sleppt því að byrja að reykja 23ja ára gamall. Þá hefði ég líka sloppið við að hætta að reykja 18 árum síðar.

Hvernig sérðu þig fyrir þér þegar þú ert komin á eftirlaun? Bara sem mjög sáttan og brosmildan eldri mann sem furðar sig mest á því hvaðan þessi eftirlaun komi.

SHARE