Helstu einkenni ofsakvíða: Hefur þú þörf fyrir meðferð?

Ofsakvíði er óþægilegur sjúkdómur, bæði fyrir hinn sjúka og aðstandendur hans. Talið er að um 2% mannkyns þjáist af honum einhvern tíma á lífsleiðinni en á hverjum tíma í kringum 1%. Ofsakvíði er talinn tvöfalt til þrefalt algengari meðal kvenna en karla.

Algengast er að einkenna sjúkdómsins verði fyrst vart á aldrinum 18-35 ára en þau geta byrjað á hvaða aldri sem er.  Sjúkdómurinn er þó fátíður meðal aldraðra.

Í þessari grein er leitast við að lýsa helstu orsökum, einkennum og gangi ofsakvíða og einnig þeirri meðhöndlun sem beita má við honum.

Hvað er kvíðakast?

Það gerist eitthvað skyndilega þegar maður á sér einskis ills von – í stórmarkaðnum eða við sjónvarpstækið. Það hellist yfir mann slæm kvíðatilfinning, ásamt líkamlegum hræðslueinkennum, við aðstæður sem setja fólk almennt ekki úr jafnvægi. Við vitum ekki hvers vegna óttinn brýst fram eða hvað það er sem við óttumst. Þess vegna valda kvíðaeinkennin áhyggjum.

Maður dettur á götu og heyrir bílflaut og bremsuhljóð! Það veldur líka ofsahræðslu; einkennin eru hin sömu en orsökin er augljós. Hræðslan beinist að bílnum.

Enda þótt við upplifum þetta tvennt á mjög ólíkan hátt þá gerist í báðum tilvikum nákvæmlega það sama í heila og líkama.

Sjá einnig: Fæðingarþunglyndi og fæðingarsturlun

Helstu einkenni ofsakvíða.

Að minnsta kosti fjögur eftirfarandi einkenna verða að koma fram á meðan kastið varir:

  • Hraður hjartsláttur
  • Sviti
  • Skjálfti
  • Munnþurkur
  • Andþyngsli
  • Köfnunartilfinning
  • Verkir eða þyngsli fyrir brjósti
  • Ógleði eða óróleiki í maga
  • Svimi
  • Óraunveruleikatilfinning
  • Ótti við að missa stjórn á sér
  • Hita- eða kuldatilfinning
  • Ótti við að deyja

Jafnframt hefur einstaklingurinn sterkaþörf fyrir að ,,komast í burtu”  (flóttaþörf).

Oft fylgja einnig þunglyndiseinkenni.

Helstu einkenni þunglyndis:

  • Áhugaleysi
  • Dapurleiki
  • Kvíði
  • Úthaldsleysi
  • Sektarkennd
  • Einbeitingarskortur
  • Minnisbrenglun
  • Viðkvæmni
  • Þreyta og máttleysi
  • Breytingar á matarlyst
  • Svefntruflanir
  • Reiði
  • Líkamleg einkenni (höfuðverkur, gigt, bakverkur og meltingartruflanir).
  • Ímyndunarveiki
  • Minnkaður áhugi á kynlífi

Hvers vegna ofsahræðsla?

Hún er hluti af varnartækjum okkar, gerir okkur hæfari til skyndilegra átaka eða flótta og hefur bjargað ófáum mannslífum í gegnum tíðina.

Andlega skerpir óttinn athygli okkar gagnvart skyndilegri hættu (t.d. bílum).

Líkamlega eru hræðslueinkennin til marks um að líkaminn muni gefa okkur hámarks kraft til átaka (t.d. að spretta á fætur og forða okkur af götunni).

Óttinn er því hluti af eðlilegri líkamsstarfsemi sem hefur þann tilgang að vernda okkur og er þess vegna hættulaus!

Hvernig vernda hræðslueinkennin?

  • Hraðari hjartsláttur: Hækkar blóðþrýsitinginn örlítið og hraðar þannig flutningi súrefnis og blóðsykurs til vöðvanna.
  • Hraðari öndun: Aukinn súrefnisflutningur til vinnandi vöðva og útöndun á koltvísýringi sem myndast við áreynsluna.
  • Breyting á blóðrás: Blóðrás til vöðva örvast en minnkar til innyfla og húðar (við fölnum af skelfingu – verðum ísköld).
  • Vöðvar spennast: Tryggir skjót og viðbrögð þeirra (við skjálfum ef við notum þá ekki).
  • Svitinn sprettur fram: Til að kæla líkamann svo að hitastig hans hækki ekki vegna aukinnar áreynslu.
  • Ógleði eða óróleiki í maga: Melting stöðvast.  Þannig getur líkaminn nýtt orku, sem annars færi til starfsemi meltingarfæra, til átaka.

Fjölmargar aðrar breytingar eiga sér stað í líffærakerfinu sem hafa þann tilgang að verja okkur.

Sönn viðvörun:

Ofsahræðsla verður við lífshættulegar aðstæður (t.d. yfirvofandi umferðarslys).

Fölsk viðvörun:

Sumir einstaklingar hafa rangt stilltan hræðslu-,,þröskuld”.  Þeir geta því fengið hræðslukast algerlega að ástæðulausu (líkt og reykskynjari sem alltaf fer í gang þegar verið er að elda).

Af hverju koma falskar viðvaranir?

Persónuleiki:
  Sumir hafa, m.a. vegna erfðafræðilegra þátta, tilhneigingu til ,,falskra viðvarana”, a.m.k. á ákveðnum tímabilum lífsins.
Þetta fólk hefur auk þess oft áhyggjur af öllu mögulegu og óttast jafnframt líkamleg streitueinkenni eða þau einkenni sem fylgja oföndun. (Óttaviðkvæmni = ótti við hræðslueinkenni).

Streita:  Fyrsta kvíðakastið verður oft á tímabili aukinnar streitu. Þetta getur verið sálræn streita eins og árekstrar heima við eða á vinnustað, auknar kröfur, dauðsfall eða sjúkdómur innan fjölskyldu. Einnig getur verið um líkamlega streitu að ræða sem fram kemur t.d. vegna líkamlegra veikinda hjá einstaklingnum sjálfum, misnotkunar áfengis eða annarra vímuefna, svefnleysis, örmögnunar o.fl.

Hjá sumum leiðir streita til kvíðaeinkennia sem geta leyst kvíðaköst úr læðingi.

Hvað er ofsakvíði?

Um fimmti hver Íslendingur upplifir eitt eða fleiri kvíðaköst um ævina. Hjá nærri 2% fólks koma þau svo oft, að hægt er að tala um sjúklegt ástand: Ofsakvíða

Vegna kvíðakastanna þróa þeir sem haldnir eru ofsakvíða tvær nýjar tegundir kvíða: væntingakvíða og aðstæðnakvíða.

Væntingakvíði

Eftir fyrstu kvíðaköstin fá flestir meira eða minna viðvarandi kvíða eða áhyggjur af næsta kvíðakasti. Ef einstaklingur er viðkvæmur getur þessi væntingakvíði stuðlað að nýju kasti. Oft er væntingakvíði viðvarandi og getur hann verið alvarlegra vandamál í daglegu starfi einstaklingsins en sjálf kvíðaköstin.

Aðstæðnakvíði (víðáttufælni)

Kallast líka Agorafobi (agora = markaðstorgið í hinni fornu borg Aþenu, þar sem mikill mannfjöldi safnaðist saman).

Þær aðstæður sem einstaklingur upplifir eitt af sínum fyrstu óvæntu kvíðaköstum við, valda honum eðlilega áhyggjum um nýtt kvíðakast. Því óttast hann sambærilegar aðstæður og reynir að forðast að lenda í þeim.

Hvaða aðstæður eru sniðgengnar?

  • Mannfjöldi – t.d. stórmarkaðurinn á fostudagskvöldi, knattspyrnuleikir eða kvikmyndahús.
  • Aðstæður þar sem einstaklingurinn kemst ekki auðveldlega í burtu – biðraðir, umferðarteppur eða strætisvagnar.
  • Að verða ,,aleinn” – t.d. heima.
  • Að vera fjarri heimilinu – ferðalög – jafnvel í næsta bæjarfélag.

Þessar aðstæður eiga það sameiginlegt að einstaklingurinn hefur ekki fulla stjórn á þeim, hjálp berst ekki strax líði honum illa.  Það blundar líka í honum óttinn við að ,,verða sér til skammar”.

Sumir sniðganga t.d. lyf og áfengi af ótta við að verða undir áhrifum og missa stjórn á sjálfum sér. Sumir forðast að reyna mikið á sig eða láta reita sig til reiði; horfa ekki á áhrifamiklar kvikmyndir né eru úti á heitum dögum því við slíkar aðstæður getur kvíðatilfinningin brotist út.

Enn aðrir nota eitthvað sem leiðir hugann frá kvíðanum t.d. lesefni eða vasadiskó úti á götu eða þeir fá einhvern til að ganga með sér.

Sjá einnig: Skammdegisþunglyndi

Hvað er oföndun?

Oföndun er of djúp og hröð loftskipti í hlutfalli við raunverulegar þarfir líffærakerfisins. Þeir sem haldnir eru kvíða hafa tilhneigingu til að anda of hratt eða of djúpt. Þar sem blóðið er undir venjulegum kringumstæðum fullmettað af súrefni, tekur líkaminn ekki meira súrefni upp við oföndun. Aftur á móti tapast meira af koltvísýringi við útöndun, þannig að blóðið missir sýru. Of lágt sýrustig í blóðinu hefur m.a. í för með sér að æðar í heila dragast örlítið saman og hemóglóbín í blóðinu verður tregara til að gefa heilavefnum súrefni. Útkoman er því sú að við oföndun fær heilinn minna súrefni.

Ákveðin einkenni fylgja þessu: Oföndunareinkenni (við þekkjum þau úr barnaafmælum, þegar við þurfum að blása upp margar blöðrur):

  • Köfnunartilfinning
  • Örleiki
  • Svimi
  • Óraunveruleikatilfinning
  • Mikill hjartsláttur
  • Þvalar hendur
  • Doðatilfinning
  • Óskýr sjón
  • Stirðleiki í handleggjum

Einkennin eru óþægileg en alveg hættulaus. Ef einsataklingur er viðkvæmur fyrir, skapa oföndunareinkennin aukin óþægindi sem geta vakið ótta og leitt til kvíðakasts. Því er æskilegt að draga úr oföndun með því að stjórna önduninni.

Þegar þú finnur fyrir einkennum:

  1. Sestu niður eða hallaðu þér aftur.
  2. Andaðu gegnum nefið og með þindinni.
  3. Haltu niðri í þér andanum í 10 sekúndur.
  4. Hafðu stjórn á önduninni með 6 sekúndna takti:
    1. 3 sek. ÚT (slap-pa-af),
    2. 3 sek. INN (slap-pa-af),  ekki anda djúpt.

Ef einkenni oföndunar eru enn fyrir hendi (einkum andþyngsli og örleiki) skal endurtaka ferlið.

Oföndun er ein helsta orsök kvíðakasta en jafnframt afleiðing þeirra. Margir ofsakvíðasjúklingar ofanda ómeðvitað og lenda þannig í vítahring. Þar sem oföndun gerist oftast við brjóstkassaöndun getur hún leitt til langvinnrar þreytu, spennu yfir brjóstkassa og jafnvel sárra vöðvahnúta í brjóst- og rifbeinsvöðvum. Þessir verkir geta verið ranglega túlkaðir sem hjartverkir og gefið ástæðu til ótta og þar með leitt til nýrra kvíðakasta.

Hvernig þróast ofsakvíði?

Kvíðasjúkdómurinn byrjar á þeim mínútum sem það tekur fyrsta kvíðakastið að þróast. Hann kemur óvænt. Margir þróa fljótt kvíða fyrir nýjum köstum (væntingakvíði) og fara að forðast aðstæður sem þeir hafa fengið kvíðakast við, eða finnst líklegt að það geti gerst (víðáttufælni). Þetta takmarkar þátttöku í daglegu lífi og í erfiðustu tilfellum er sjúklingurinn bundinn heima við, án þess þó að geta verið einn.

Sumir fá áfram óvænt kvíðaköst en aðrir fá fyrirsjáanleg köst við aðstæður sem þeir nú óttast.

Sumir fá vægan væntingakvíða og hjá um 20% sjúklinga þróast hvorki víðáttufælni né ótti við ákveðnar aðstæður.

Þar sem orsaka ofsakvíða er að leita bæði í persónuleika viðkomandi, innbyggðri tilhneigingu (m.a. vegna erfðaþátta) og fjölda ólíkra streituvalda, munu koma tímabil þegar hætta er á að kvíðaeinkenni taki sig upp.

Þannig getur orsakasamhengið verið mjög flókið og því þjónar oftast litlum tilgangi að leita eftir ,,orsökinni” sem sjúklingur telur oft vera falið áfall í fortíðinni. Kraftana ætti frekar að nota til að læra að þekkja eðli kvíðasjúkdómsins og skilja meðferðina, ekki síst hvernig maður sjálfur getur lært að halda einkennunum í skefjun. Þannig er hægt að vera viss um að þessi óþægindi raski ekki lífsmynstrinu í sama mæli og fyrst þegar þau birtust.

Hvaða meðferð er við ofsakvíða?

Tvenns konar árangursrík meðhöndlun stendur nú til boða, sálræn meðferð og lyfjameðferð.

Hugræn atferlismeðferð.
Hugrænt þýðir ,,skilningsbundið” – þ.e.a.s. að hugsa rétt.
Atferli þýðir ,,aðgerðabundið” – þ.e.a.s. að framkvæma rétt.

Hvernig er hugræn meðferð notuð við kvíðaköstum:

  • Ég finn að ég er að fá kvíðakast, (ég ætti að þekkja einkennin!)
  • Þetta er varnarverkfæri mitt; en þetta er fölsk viðvörun (það er enginn bíll að koma!)
  • Ég dey ekki og verð ekki geðveikur; það líður ekki yfir mig (þetta er óþægilegt, en algerlega hættulaust)
  • Aðrir sjá þetta ekki á mér (svo þetta verður ekki neyðarlegt)
  • Þetta getur liðið hjá eftir nokkrar mínútur (ef ég óttast þetta ekki)
  • Ég á að reyna að ofanda ekki (þá fæ ég bara fleiri einkenni)
  • Ég á að reyna að halda áfram með verkefni mín (ef ég flý læt ég kvíðann taka völdin)

Hvernig er atferlismeðferð notuð við aðstæðnakvíða:

  • Leitaðu uppi aðstæður sem vekja ótta (t.d. stórmarkaðinn á föstudagssíðdegi).
  • Farðu inn í stórmarkaðinn og láttu óttann bara koma.
  • Vertu inni – þar til óttinn líður hjá. (Ef óttinn grípur þig í röðinni við kassann – þá skaltu fara aftur inn í búðina. Náðu tökum á óttanum og farður í röðina á ný).
  • Við oföndunareinkennum:  Stjórnaðu önduninni.
  • Endurtaktu ögrunina – helst daglega.

Með því að nota hugræna meðferð rétt, er mögulegt að vinna bug á kvíðakastinu. Með reglulegri atferlismeðferð er hægt að yfirvinna aðstæðnakvíða ótrúlega fljótt.

Lyf við ofsakvíða.

Auðveldum tilvikum ofsakvíða er hægt að stjórna eingöngu með hugrænni atferlismeðferð. Þegar kvíðasjúkdómurinn hefur áhrif á daglegt líf einstaklingsins er oft nauðsynlegt að beita lyfjum. Lyfin ,,hindra” kvíðaköstin með því að auka viðnám einstaklingsins gegn ,,fölskum viðvörunum”.

Hvaða tegund lyfja?

Um þessar mundir eru serótónín-aukandi lyf oftast valin. Þetta eru lyf sem auka virkni serótóníns – eins af taugaboðefnum líkamans. Fjölmiðlar kalla þessi lyf oft ranglega gleðipillur.

Aukaverkanir:

Serótónín-aukandi lyf geta valdið aukaverkunum eins og ógleði, óþægindum í meltingarfærum, vægum höfuðverk og e.t.v. erfiðleikum með svefn. Þessar aukaverkanir koma þá í byrjun meðferðar og hverfa yfirleitt eftir nokkra daga. Sjúklingar haldnir ofsakvíða eru oft sérlega viðkvæmir fyrir nýjum lyfjum og margir þjást af lyfjafælni. Kvíðinn getur því aukist í byrjun eða þar til lyfin fara að hafa áhrif en það gerist eftir tvær til fjórar vikur.

ATHUGIÐ:  Lyfin breyta ekki einstaklingnum þannig að hann verði ólíkur sjálfum sér. Þvert á móti kemur persónuleiki hans betur í ljós þegar lyfin fara að hafa stjórn á kvíðanum. Með því að byrja á litlum skammti fyrstu vikuna og auka hann smám saman má draga úr og koma í veg fyrir aukaverkanir. Áhrifaríkur skammtur getur orðið jafnhár eða hærri en skammtur notaður við þunglyndi. Aukning dagskammts ræðst af sjúkdómseinkennum og aukaverkunum ef um þær er að ræða.

Hve lengi þarf að taka lyfin?

Æskilegt er að halda lyfjatöku áfram þar til sjúklingur hefur verið einkennalaus í 12 – 18 mánuði, stundum lengur, jafnvel ævilangt.

Hvernig er hætt á lyfjunum?

Lyfin ætti að minnka hægt og hægt. Þegar lyfjatöku er hætt, veita þau ekki lengur vörn gegn nýju kvíðakasti. Gera má ráð fyrir að það sem lærðist við hugrænu atferlismeðferðina nýtist til að halda kvíðaköstunum í skefjum. Geri þau enn vart við sig, getur verið nauðsynlegt að byrja lyfjatöku á ný.

Er hægt að verða háður lyfjunum?

Það er ekki hægt að selja serótónín-aukandi töflu niðri á Hlemmi!  Þessi lyf eru ekki ávanabindandi vímuefni líkt og áfengi og önnur fíkniefni. Þó geta komið fram ákveðin ,,frákvarfseinkenni” sé hætt snögglega að taka lyfin. Þessi einkenni eru hættulaus en óþægileg og geta stuðlað að kvíða á ný. Því ætti sem fyrr segir að minnka lyfjaskammtinn smám saman, á tveggja mánaða tímabili.

Einhver hluti kvíðasjúklinga hefur þörf fyrir langtímameðferð serótónín-aukandi lyfja – líkt og sykursýkissjúklingar geta verið háðir stöðugri insúlínmeðferð.

Kvíðastillandi lyf og ofsakvíði.

Margir kvíðasjúklingar fá í upphafi meðferðar uppáskrift læknis fyrir venjulegum kvíðastillandi lyfjum (benzodíasepín) sem sumir kunna að álíta nauðsynleg til að halda kvíðanum í skefjum. Benzódíazepín-skammtinum um leið og áhrifa hugrænnar meðferðar og sérótónínaukandi lyfja á kvíðann fer að gæta.

Áfengi og ofsakvíði.

Sumir kvíðasjúklingar leita sér hjálpar í áfengi. Áfengi virkar kvíðastillandi fljótt en áhrifin vara stutt og þegar miklu alkóhóli er brennt í líkamanum, eykst kvíðastuðullinn og þörfin fyrir meira alkóhól eykst. Útkoman er því mikil og tíð áfengisnotkun, meiri kvíði en ef áfengis væri ekki neytt og hætta á áfengismisnotkun. Fráhvarfseinkenni alkóhóls eru kvíðahvetjandi. Til að ná tökum á kvíðaástandinu er grundvallarskilyrði að hafa hemil á drykkjunni.

Hef ég þörf fyrir sálræna meðferð?

Margir hafa tilhneigingu til að tengja þessi óskiljanlegu og skelfilegu kvíðaköst ómeðvituð áföll í fortíðinni.  Fái þeir aðstoð til að greina þessi áföll og vinna úr þeim muni ofsakvíðinn hverfa. Hugsunin er skiljanleg en því miður er hún sjaldan raunhæf. Eins og áður hefur verið nefnt eru ástæður ofsakvíða flókið samspil margra ólíkra þátta – þar á meðal erfðaþátta. Jafnvel þótt mögulegt væri að greina þær allar er ekki það með sagt að kvíðasjúkdómurinn hverfi.

Stundum koma þó þau tímabil þegar ákveðin tegund streituvaldandi atburða virðist valda kvíðaköstum. Hér gæti verið æskilegt að fá aukna innsýn í þau tilfinninga- og atferlismynstur sem fram koma og leitt geta til kvíðakasta undir streitu og kvíðaálagi.

Samtalsmeðferð gæti nýst við að draga fram í dagsljósið það sem gera má ráð fyrir að leysi ofsahræðslu úr læðingi.

Að lokum gæti einnig verið árangursríkt að aðstandendur sjúklingsins fræðist um eðli sjúkdómsins og fái ráðgjöf um hvernig best sé að taka á vandamálinu.

Hver er árangur meðferðar?

Í flestum tilvikum kemur hugræn atferlismeðferð ásamt serótónín-aukandi lyfjameðferð í veg fyrir kvíðaköst og tryggir fulla þátttöku einstaklingsins í daglegu lífi á ný.

Þessi grein er unnin upp úr bæklingnum ,,Ofsakvíði“,  sem gefinn var út af Pfizer í þýðingu Soffíu Eiríksdóttur.

Lestu fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo

SHARE