Hittust aftur eftir 32 ár

Gunnar Gunnarsson og Hallbjörn Valgeir Rúnarsson hittust á dögunum í fyrsta skipti í 32 ár, þegar þeir fóru og fengu sér hádegismat. Seinast höfðu þeir verið saman á barnadeild Landspítalans árið 1985 og eiga báðir minningar frá því að hafa leikið sér saman. Hallbjörn var á fjórða ári en Gunnar var á fimmta ári.

16122140_10210672736842053_933528119_o

„Ég fór í aðgerð á mjöðm í nóvember 1984 og var þarna á þessum tíma að láta taka gifsið af mér sem ég var í, í um það bil 2 mánuði,“ segir Gunnar í samtali við Hún.is en hann er hægra meginn á myndinni. Gunnar er með sjúkdóm sem heitir Pertes og lýsir sér þannig að blóðstreymi í mjaðmalið minnkar svo mikið að liðurinn deyr og verður linur. „Það þurfti að taka hluta af lærleggnum, efsta hlutann og rúna nýjan sem var svo sett inn í mjaðmaskálina. Það var svo lagað aftur í Október 2014 þegar ég, ásamt öðrum gamalmennum, fékk gervilið,“ segir Gunnar.

Hallbjörn var inni á spítala vegna alvarlegra brunasára á andliti: „Ég man ekki mikið eftir þessu en það sem ég hef er mest af frásögnum foreldra minna,“ segir Hallbjörn og bætir við að fjölskyldunni þyki erfitt að rifja þetta atvik upp. „Ég hafði sett á mig heimatilbúið jólasveinaskegg og ætlaði að blása kerti á sófaborðinu. Þegar ég hallaði mér yfir þá náði kertið í skeggið sem fuðraði upp í andlitið á mér.“

Hallbjörn segir að hann hafi á þessari mynd verið bundinn niður til að hann myndi ekki klóra sér í andlitinu í sárin.  Hann var í einangrun fyrst um sinn en augnlokin voru brunnin saman og hann var blindur í mánuð.

 

Endurfundir drengjanna

 

„Málið var að um jólin þá var ég að vara börnin mín við að fikta í kertaskreytingunni heima því það gæti verið hættulegt,“ segir Gunnar aðspurður um tildrög þess að þeir hefðu hist aftur eftir svona mörg ár. „Ég sagði þeim sögu frá því þegar ég var á spítalanum, þá hafi verið strákur með mér á stofu sem hafi brennst illa í andliti því hann hafi farið of nálægt kerti. Börnin trúðu þessu tæplega en stuttu seinna rakst ég á þessa mynd á háaloftinu og sýndi þeim hana. Í framhaldi af því fór ég að pæla hvar hann væri í dag og hvort ég myndi finna hann ef ég myndi setja þessa mynd af okkur á Facebook. Fólkið brást vel við og var ég búin að finna hann á um það bil 30 mínútum.“

Gunnar setti sig í samband við Hallbjörn og þeir ákváðu að kíkja saman í hádegisverð. Þeir segjast hafa spjallað um spítaladvölina og fleira og eru staðráðnir í að halda áfram að vera vinir.

 

 

SHARE