Hjálpið þessu fólki áður en fleiri missa lífið – Gurra biðlar til borgaryfirvalda

Gurra skrifaði pistil á facebookvegg sinn og biðlar til borgaryfirvalda að bregðast við strax. Ég hafði samband við hana og bað um leyfi til þess að deila pistlinum og fjalla um hann hér  -hún samþykkti.

Gurra skrifar:

,,Ég er heppin að vera nokkuð heilsuhraust.
Ég get flest allt. Stundað vinnuna mína, verið með börnunum mínum og barnabörnum, fjölskyldunni minni, verið í sambandi við vini mína, farið á tónleika, mætt í veislur, ferðast, ég á hlýjan fatnað og einnig sumarfatnað, ég get farið á ströndina, hlustað á fréttir.
Eg á hlýtt rúm sem er hreint, ég á hlýtt herbergi, ég á nógan mat, ég á tölvu og ég get verið í sambandi við vini og kunningja um allan heim. 
Ég get farið til læknis og tannlæknis þegar á þarf að halda.
Ég fylli líf mitt þakklæti fyrir allt þetta.

Fólkið okkar á götunni á nánast ekkert af þessu.
Þau þrá hlýtt heimili, Þau þrá faðmlag, þau þrá að geta talað við þá sem þeim þykir vænt um.
Þetta fólk er mjög einmanna.
Við skulum muna að gefa fólkinu á götunni smá tíma þegar pláss er til þess. Það er ómetanlegt fyrir þau og gerir þann dag meira virði en okkur grunar.
Ég veit ekki hvort einhver hefur misst lífið í kuldakastinu a Íslandi undanfarið. Ég veit bara að lögreglan bjargaði einum einstaklingi frá því að missa lífið í nótt. Maður sem var við að frjósa í hel og átti ekki í neitt hús að venda.

Sonur minn er dáinn, hjálpin barst aldrei.

Hvað er að ykkur hjá borginni?
Opnið augu, eyru og skinsemi ykkar upp á gátt.
Hjálpið þessu blessaða fólki inn í hlýtt hús áður en fleiri missa lífið.
Þetta er hluti af unga fólkinu okkar sem geta orðið nýtir þjóðfélagsþegnar ef þið bara hjálpið til þess.

Ég krefst þess að borgin taki sig saman og opni hús fyrir þessa einstaklinga sem bíða annars bara dauða síns á götunni.

Stöndum saman kringum þetta verkefni og deilið.”


Gurra missti son sinn, Þorbjörn Hauk Liljarsson í Október 2018. Hann var einn af þeim sem þurfti aðstoðina sem kom ekki.

Hún Gurra hefur barist ákaft fyrir aðstæðum útigangsmanna og stóð hún meðal annars fyrir minningarveggnum á Lækjargötunni þar sem fólk gat skilið eftir föt, mat og það sem fólk vildi gefa. Þar mátti fólk sem þurfti, sækja það sem það vildi.

Ég spurði Gurru út í vegginn sem að reis rétt fyrir síðustu jól, hvernig viðbrögðin væru búin að vera og hvort fólk væri duglegt að gefa.

Gurra ásamt Guðnýju sem átti upprunalega hugmyndina af veggnum.


,,Veggurinn er reyndar niður lagður eins og er vegna bygginga a hótelinu. En ég er að fá úthlutaðan annan vegg á vegum borgarinnar.

-Já svo sannarlega hefur veggurinn verið að gera góða hluti.
Ég hef talað við allt mögulegt fólk og fólk skrifað til mín og þakkað mér fyrir.
Veit að heimilislaust fólk hefur verið að sækja a vegginn. Ég hlakka mikið til þess að taka á móti nýjum fínum vegg sem heldur öllu þurru, en hinn var ekki yfirbyggður. Fyrirtæki hafa verið að gefa og margir haft samband til að fa upplýsingar hvar hann er og hvort megi setja allt a vegginn. Fyrir jólin voru jólapakkar, matur ásamt hlýjum fatnaði. Bara yndislegt. Hann er sko svo sannarlega að virka vel.”

 

Gefðu hlýju sem hlýjar öðrum

 

Gurra hefur einnig orð á því að hana langi mikið að finna einhverskonar úrræði fyrir til dæmis fólk sem er að koma úr fangelsi, fólk sem er að koma úr meðferð eða á erfitt uppdráttar -svo bætir hún við:

,,í okkar flókna samfélagi er af nógu að taka” 

Guðrún er kona sem við megum öll taka okkur til fyrirmyndar og vera þakklát fyrir. Þakklát fyrir bæði hana og alla þá sem að láta sig málin varða, standa upp og gera eitthvað eins stórkostlegt og hún gerir.
Þetta er mikilvægt málefni sem allir ættu að huga að, þetta eru líf sem eru alveg jafn mikilvæg og okkar eigin og fólk sem hefur sömu grunnþarfir og ég og þú. Pössum upp á hvort annað.

SHARE