Húðflúruðustu eldri borgarar heims

Charles „Chuck“ Helmke (81) og Charlotte Guttenberg (74) eru í Heimsmetabók Guinnes fyrir að vera húðflúruðustu eldri borgarar heims. Þau hafa samtals eytt 2000 klukkustundum í að láta setja á sig húðflúr.

Hinn litríki Chuck er með flúr á 97,5% af líkama sínum en hans ástkæra Charlotte gerir enn betur og er með flúr á 98,75% af líkama sínum. Chuck getur þó enn bætt á sig húðflúrum en Charlotte segist vera hætt og muni ekki fá sér fleiri húðflúr. Parið er frá Melbourne í Florida og eiga bæði hjónaband að baki en þau kynntust á húðflúrstofu en Chuck bauðst til að halda í hönd hennar á meðan hún var í húðflúri og ástin fór að blómstra.

Charlotte var 57 ára þegar hún fékk sitt fyrsta húðflúr, eftir andlát seinni eiginmanns hennar, en hann hafði lagt blátt bann við því að hún væri að fá sér húðflúr. Chuck byrjaði að fá sér húðflúr árið 1959 þegar hann var 18 ára gamall og var í þjálfun í hernum. Hann fékk sér tvö húðflúr sama daginn og fékk sér svo ekki fleiri fyrr en 41 ári seinna, en þá fékk hann sér húðflúr til að hylja ör eftir brunasár.

SHARE