Hún var valin ljótasti hundur Englands – MYNDIR

Þeir sem þekkja mig vita að ég er mikil hundamanneskja. Ég er bara á því að hundar geri alla að betri manneskjum. Mér finnst mjög „furðulegt“ þegar ég hitti manneskju sem er ekki hrifin af hundum og mér finnst það hljóti að vera tómlegt líf. Auðvitað er það bara af því ég er alin upp með hund á heimilinu og það er eitthvað við þá skilyrðislaus ást og hlýju sem þú færð frá hundinum þínum sem er ómetanlegt. Í dag er Sóley litla hundastelpan mín, enskur bolabítur, og hún fær mig til að brosa og mýkjast að innan oft á dag.

En já nóg um það. Ég rakst á frétt í dag um litla tík sem heitir Peggy. Hún var valin LJÓTASTI hundur Englands. Elsku litla Peggy.

Eigendur hennar gætu ekki verið ánægðari með hana og segja að þau myndu ekki skipta henni út fyrir neinn annan hund. Peggy er einhverskonar Pug-blanda og var seinasti hvolpurinn úr gotinu til að fá heimili.

Þegar Holly, eigandi hennar (mamma hennar), sá hana í fyrsta sinn segist hún hafa fallið fyrir henni. „Við elskuðum hana strax og við sáum hana. Ég vorkenndi henni þar sem hún sat þarna, eiginlega hárlaus með tunguna lafandi. Mér fannst eins og enginn myndi vilja hana,“ sagði Holly. Peggy getur alveg borðað og drukkið þrátt fyrir tunguna.

Holly segir að eldra barnið hennar hafi skammast sín smá fyrir Peggy til að byrja með en það hafi hinsvegar gleymst alveg þegar Peggy vann í keppninni og varð stjarna. Fjölskyldan skráði Peggy eftir hvatningu frá vinum og viti menn, hún vann. Skipuleggjendur keppninnar segjast hafa byrjað með keppnina til að fagna fjölbreytileikanum og þeim hundum sem oft verða útundan útaf útliti sínu.

„Þó Peggy hafi verið valinn „ljótasti hundurinn“ finnst okkur hún vera gullfalleg að innan og utan og myndum ekki vilja breyta neinu varðandi hana,“ sagði Holly.

Heimildir: Brightside.me

SHARE