Hundasnagi handa hundaóðum dreng

Í einum af ferðunum mínum í Hjálpræðisherinn þá fann ég þennan viðarplatta. Ég vissi strax að ég gæti notað hann, ég vissi bara ekki hvernig. En svo tók ég eftir því að hundaóði sonur minn á fullt af derhúfum, sem þurftu heimili, og hugmyndin fæddist.

Ég byrjaði á því að mála plattann fjólubláan. Ég átti líka þessa viðarstafi, fannst alveg tilvalið að bæta þeim við og með því að sveifla pensli þá urðu þeir líka fjólubláir. Ég bar svo undraefnið mitt (Crackle medium) á, beið aðeins, og málaði yfir með þessari hvítri málingu. Það er ótrúlega gaman að horfa á þessa málingu þorna (já ég virkilega sagði þessa setningu) og sjá sprungurnar myndast.  Ég passaði mig á því að setja efnið ekki á stærsta flötinn á platanum vegna þess að þar ætlaði ég að mála hunda (þið munið, hundaóður sonur), ég vildi ekki sprungur þar.

Ég fór á hið almáttuga internet, fann baksvip af hundi og prentaði út. Ég fór yfir með blýanti yfir rönguna á myndinni, mældi hvar ég vildi hafa hundana á plattanum, snéri myndinni við og færði hana yfir á plattann með því að fara eftir útlínunum með blýanti (svipað eins og að nota kalkipappír).

Svo var einfaldlega málað. Ég hafði viljandi sleppt skottinu á hundunum þegar ég málaði þá á platann. Ég fann svo þessa snaga, bætti þeim við og hundarnir voru komnir með skott og derhúfunar komnar með heimili.

SHARE