Hvað er astmi?

Astmi er langvinnur bólgusjúkdómur í berkjum.

Vöðvasamdráttur og bólgubreytingar í berkju leiða til þrengsla í öndunarvegi. Astmasjúklingur finnur fyrir andþyngslum, mæði, hósta og surgi eða ýli sem heyrist við útöndun. Öll þessi einkenni þurfa ekki að vera til staðar samtímis. Sumir astmasjúklingar finna t.d. bara fyrir hósta en fá aldrei dæmigert „astmakast”. Þrengslin í öndunarvegi stafa af flóknu samspili frumna og boðefna sem leiðir til bólgu, bjúgs og slímmyndunar. Bólgan veldur berkjuteppu og astmasjúklingurinn verður næmari fyrir ýmsum ofnæmisvökum og áreiti. Dæmi um áreiti eru kuldi, áreynsla, mengun, tóbaksreykur, ilmefni, breytingar á hitastigi og geðshræring. Auk þess versnar astmi við að fá veirusýkingar í efri loftvegi (kvef) og bakteríusýkingar í afhol nefs (skúta, sinusa). Því meira sem bólgusvarið og þekjurofið er, því minni ertingu þarf til að valda samdrætti í öndunarvegi og þar með astmaeinkennum. Langvarandi astmameðferð, t.d. í formi innúðastera, minnkar ertanleika í öndunarvegi með því að draga úr bólgu og græða yfirborð berkjunnar. Afleiðingin er að sjúklingur þolir meira áreiti án þess að fá astmaeinkenni.

Hvað veldur astma?

Sjúklingar sem hafa tilhneigingu til ofnæmis, mynda sérstakt ofnæmismótefni (IgE) á yfirborði mastfrumna. Þegar astmasjúklingur kemst í snertingu við ofnæmisvaka, t.d. rykmaur, kattahár eða frjókorn, ræsir vakinn ofnæmisfrumur. Við þetta losa frumurnar frá sér boðefni sem valda á svipstundu þeim einkennum sem við sjáum við bráða ofnæmissvörun, eins og astma og einkenna frá nefi, s.s. kláða, hnerra og nefstíflu. Histamin og önnur efni kalla að fleiri tegundir bólgufrumna og smám saman fyllist berkjuveggurinn af bólgufrumum, slími og bjúg.

Er astmi óafturkræfur sjúkdómur?

Þrálátar bólgubreytingar í lungum við astma virðast geta valdið langtímabreytingum á lungnavef með óafturkræfum berkjuþrengingum. Bólgufrumur í berkjuveggnum geta losað boðefni sem valda brjóskmyndun í berkju. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt hversu mikilvægt er að fyrirbyggja þessa örvefsmyndun með réttri meðferð snemma í sjúkdómnum. Þannig virðast innúðasterar geta hindrað þessar óafturkræfu breytingar. Bornir voru samar hópar sjúklinga sem fengu innúðastera og aðrir sem fengu einungis berkjuvíkkandi lyf. Þeir sem ekki fengu innúðastera voru með verri lungnapróf og meiri einkenni þegar á leið. Eftir þriggja ára meðferð fékk svo hópurinn sem var einungis á berkjuvíkkandi meðferð innúðastera. Þessar niðurstöður vöktu mesta athygli, því þó að lungnaprófin þeirra væru betri, náðu þeir aldrei því marki sem hópurinn sem fékk innúðastera strax hafði.

Sjá einnig: Verkur fyrir brjósti getur verið af ýmsum toga

Meðferð á astma

Val og notkun á réttri astmameðferð byggist á því að læknir og sjúklingur hafi innsæi í sjúkdóminn og þekki hvaða þættir valda auknum einkennum. Þetta getur verið mjög breytilegt frá einum einstaklingi til annars. Auk þess er mikilvægt að vita um helstu lyfjaflokka sem notaðir eru og þekkja verkun og mögulegar aukaverkanir hinna ýmsu lyfja. Takmark meðferðar er að halda sjúklingi einkennalausum á lágmarks lyfjameðferð.

Sjúklingafræðsla

Fræðsla sjúklinga með langvinna sjúkdóma eins og astma er lykilþáttur í meðferðinni. Gott er að kenna sjúkdóminn smám saman, í hvert sinn sem sjúklingur kemur til læknis og fara þá yfir nokkra afmarkaða þætti í einu. Í mörgum löndum eru starfræktir „astmaskólar“ þar sem hópfræðsla fer fram. Þar hitta sjúklingar aðra einstaklinga með svipuð vandamál og fá svör við spurningum sem þeim annars hafði ekki hugkvæmst. Þar er farið yfir tækni við notkun lyfjanna með sýnikennslu og reglulegir fyrirlestrar um tiltekin efni haldnir.

Astmi er þrálátur sjúkdómur, þótt einkenni séu misjöfn frá degi til dags. Sjúkdómurinn getur jafnvel horfið, en algengara er að hann hörfi um skeið og skjóti af og til upp kollinum, t.d. samfara sýkingum í efri öndunarvegi. Sjúklingurinn verður því að þekkja sjúkdóminn til hlítar og læra hvenær og hvernig eigi að bregðast við hverju sinni, hvað eigi að forðast og hvenær leita þurfi læknis.

Mikilvægt er að sjúklingurinn læri að þekkja hvaða áreiti eða ofnæmisvakar koma einkennum af stað og hvernig best sé að forðast þá (Tafla 1).

Þættir sem geta komið af stað astmakasti
Tegund áreitis Dæmi
Ofnæmi Frjókorn, dýrahár, rykmaur
Geðshræring Reiði/leiði
Áreynsla Hlaup í kulda
Ertiefni Mengun, gufur, reykur, prentsverta
Lyf Magnyl og skyld lyf
Atvinnutengt ofnæmi Plastvinnsla, lím
Umhverfisþættir Breyting á hita- og rakastigi
Veirusýking (kvef) eða skútabólga Veirusýkingar, bakteríur

Margir sjúklingar þurfa á daglegri meðferð að halda. Ýmiss konar úðarar og staukar eru til og því mikilvægt að kenna sjúklingi rétta notkun hvers lyfs fyrir sig. Auk þess er nauðsynlegt að skilja hvernig lyfin verka og hverjar aukaverkanir eru. Þá þarf að athuga að um tvenns konar verkunarmáta er að ræða. Annars vegar berkjuvíkkandi lyf sem nota á eftir þörfum fyrir áreynslu og sem „bráða“meðferð. Hins vegar fyrirbyggjandi meðferð sem nota þarf að staðaldri. Margir kvíða mjög fyrir því að nota innúðastera daglega og hætta því fljótlega að taka lyfin eða ná aldrei í lyfin úr apóteki. Mikilvægt er að vita að um langvarandi, þrálátan sjúkdóm er að ræða þar sem skyndilausnir eiga ekki við. Auk þess að það að seinka notkun innúðastera geti leitt af sér óafturkræfan lungnasjúkdóm.

Astmi og ofnæmi

Mikilvægt er að ganga úr skugga um hvort astmasjúklingar séu með ofnæmi. Í kjölfar ofnæmisrannsóknar er síðan hægt að ráðleggja sjúklingi og fjölskyldu hans hvernig best sé að losna við ofnæmisvaldinn úr umhverfinu. Aðgerðir til að draga úr ofnæmisvöldum í umhverfi sjúklings ættu alltaf að hafa forgang í meðferð astmasjúklinga, þar sem þær eru alltaf án aukaverkana og yfirleitt ódýr og rökrétt leið til að minnka bólgusvar í öndunarvegi.

Sjá einnig: 7 hlutir sem flýta fyrir öldrun húðarinnar

Meðferð á astma

Í upphafi er mikilvægt að greina hversu alvarlegur astminn er. Á Íslandi er farið eftir samantekt og áliti norrænnar samráðsnefndar við meðferð á astma. Þar er astma skipt í fjóra flokka, í nokkurs konar tröppugang eftir einkennum og lungnastarfsemi í vægan, meðalslæman, viðvarandi slæman og slæman astma. Með þessa skiptingu í huga er auðveldara að ákvarða fyrstu meðferð sjúklingsins.

Mikilvægt er að hafa í huga að sjúkdómurinn getur breyst, jafnvel frá einum degi til annars, og því getur meðferð sjúklingsins breyst eftir þessum tröppugangi.

Aðrir þættir sem hafa áhrif á astma

Ef sjúklingur svarar ekki meðferð, er hugsanlegt að sjúkdómsgreiningin sé röng. Þó geta aðrir þættir komið til. Sjúkdómar í vélinda og magaopi, t.d. vélindabakflæði og brjóstsviði geta magnað astmaeinkenni og bólgu í öndunarvegi. Þessi vandamál geta tafið bata og eru oft erfið í greiningu þar sem sjúklingur hefur jafnvel lítil eða engin einkenni frá meltingarfærum.

Þrálát sýking í nef, ennis og kinnholum (sinusum) eða ofnæmiskvef er algengt hjá astmasjúklingum. Sé ekki tekið á þessu, næst ekki tilskilinn árangur með notkun astmalyfjanna.

Fleiri heilsutengdar greinar eru á doktor.is logo

 

SHARE