Hvað er eyrnabólga?

Hvað er miðeyrnabólga?

Miðeyrnabólga er bólga í slímhimnu miðeyrans af völdum bakteríu- og/eða veirusýkingar. Hún er mun algengari hjá börnum en fullorðnum og er oftast  kölluð eyrnabólga í daglegu tali. Miðeyrað er loftfyllt holrúm á milli hljóðhimnunnar og innra eyrans. Kokhlustin er loftrás sem liggur á milli miðeyrans og nefkoksins og sér til þess að þrýstingur í miðeyranu sé með eðlilegum hætti og að vökvi úr miðeyranu komist niður í kok. Stíflist kokhlustin eykst hættan á vökvasöfnun í miðeyranu og þá myndast kjöraðstæður fyrir bakteríur til að valda sýkingu. Kokhlustin stíflast oft vegna kvefs eða ofnæmis.

Hver er orsökin?

Miðeyrnabólga kemur þegar bakteríur berast með kokhlust frá nefkoki upp í miðeyra. Hættan á eyrnabólgu er mest þegar kokhlustin er stífluð vegna kvefs. Ekki er vitað hvort það eykur líkur á miðeyrnabólgu að láta barn sofa úti í vagni. Engar rannsóknir liggja fyrir um hvort ungbarnasund eykur líkur á miðeyrnabólgu.

Eftirfarandi sjúkdómar auka líkur á miðeyrnabólgu:

  • kvef
  • bólgnir separ (polypar) í nefi/nefkoki eða stórir nefkirtlar
  • bólga í afholum nefs(skútum) eins og t. d. kinnholubólga.
  • Meðfætt skarð í góm
  • Veiklað ónæmiskerfi

Hver eru einkenni miðeyrnabólgu?

  • Verkur og þrýstingur í eyra
  • Minnkuð heyrn.
  • Pirringur (getur verið eina sjáanlega einkennið hjá ungbörnum þar sem þau geta ekki tjáð sig).
  • Oft hiti en eyrnabólga getur verið til staðar án hita
  • Ef útferð kemur úr eyra er það merki um um að hljóðhimnan hefur sprungið. Hún grær hins vegar fljótt og enginn skaði hlýst af.

Fylgist með heyrninni

Ef ungabörn fá tíðar eyrnabólgur er mikilvægt að fylgjast með heyrninni.

Hvernig er hægt að minnka líkur á miðeyrnabólgu?

  • Mikilvægt er að ekki sé reykt á heimilum því reykingar auka líkur á miðeyrnabólgu hjá börnum.
  • Hópvistun barna t.d. á leikskólum eykur líkur á miðeyrnabólgu vegna þess að þar eru kvefpestar algengar. Miðeyrnabólga smitast hins vegar ekki milli barna. Stöku sinnum þarf að ráðleggja foreldrum barna sem eru með tíðar miðeyrnabólgur að taka börnin úr hópvistun.
  • Sumar bólusetningar geta dregið úr hættunni á miðeyrnabólgu eins og bólusetning gegn pneumókokkabakteríum og inflúensu.

Ráðleggingar

  • Ef barn fær tíðar miðeyrnabólgur er ráðlagt að foreldrar ráðfæri sig við sinn lækni um hvað sé til ráða til að koma í veg fyrir sýkingarnar.
  • Ráðlagt er að börn verðir heima þar til þau eru orðin hitalaus og þeim líður betur.

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

Ekki er hægt að greina miðeyrnabólgu nema með skoðun í eyra með sérstökum tækjum.

Mögulegir fylgikvillar

Bólga getur komið í beinið bak við eyrað og getur það verið hættulegt. Í örfáum tilfellum getur eyrnabólga valdið heilahimnubólgu. Heyrnartap vegna miðeyrnabólgu er yfirleitt  tímabundið, en getur orðið langvinnt ef miðeyrnabólgan er alvarleg og langvinn. Langvinn vökvasöfnun í miðeyranu án sýkingar veldur ekki seinkuðum málþroska hjá börnum.

Hvernig er miðeyrnabólga meðhöndluð?

  • Ekki þarf alltaf að gefa sýklalyf við miðeyrnabólgu. Læknir metur þörfina á sýklalyfjagjöf eftir skoðun.
  • Sjálfsagt er að gefa barni verkjalyf ef það er þjáð vegna bólgunnar annað hvort í fljótandi formi eða sem stílar sem gefnir eru í endaþarminn. Rétt er að fá ráðleggingar læknis eða hjúkrunarfræðings varðandi notkun þeirra.
  • Við tíðar eyrnabólgur er í sumum tilfellum sett rör í hljóðhimnuna til að hleypa vökvanum frá miðeyranu. Nefkirtlataka hjá börnum sem oft fá eyrnabólgur, dregur í sumum tilfellum úr tíðni þeirra.

 

 

Höfundur greinar:

Teitur Guðmundsson, læknir

Fleiri heilsutengdar greinar má finna á doktor.is logo

 

SHARE