Ofbeldi á heimilum í einhverri mynd er tiltölulega algengt fyrirbæri, því miður. Ofbeldið getur tekið á sig margvíslegar myndir bæði andlegar og líkamlegar, og er ekki einskorðað við ákveðna þjóðfélagshópa eða stéttir. Þeir sem búa við ofbeldi af einhverju tagi reyna oftast að fela það út á við. Ofbeldið verður þannig gjarnan best varðveitta leyndarmál fjölskyldunnar. Það er því erfitt að meta umfang þess nákvæmlega eða hversu margir einstaklingar það eru, börn og fullorðnir, sem búa við ofbeldi. Einu marktæku ábendingarnar um fjölda fórnarlamba heimilisofbeldis, eru þær sem fást frá samtökum er reyna að aðstoða þau sem fyrir ofbeldinu verða. Þó er þar aðeins um toppinn á ísjakanum að ræða því allt of margir láta ofbeldið yfir sig ganga án þess að leita sér hjálpar og geta margar ástæður legið þar að baki. Gjarnan tengist ofbeldi innan fjölskyldunnar áfengismisnotkun eða misnotkun á vímuefnum af einhverju tagi. Það þarf þó alls ekki að fara saman þó oft valdi langvarandi misnotkun áfengis og vímuefna ofbeldishneigð. Margir nota vímuna sem afsökun fyrir ofbeldishneigð sinni, en sú afsökun er í raun marklaus. Víman kallar aðeins fram ofbeldis tilhneigingar sem búa undir niðri.

 

Sjá einnig: Svört doppa í lófanum – Þolendur heimilisofbeldis

Ofbeldi í hjónabandi eða sambúð fylgir oft ákveðnu ferli. Áður en ofbeldið brýst fram á sér stað einskonar spennuhleðsla. Parið veit að brátt verður gripið til ofbeldisins, hver svo sem ástæðan er. Konan, sem oftast er fórnarlambið ásamt börnunum, gerir allt sem hún getur til þess að blíðka manninn og koma í veg fyrir árás á sig eða börnin. Maðurinn svarar með auknum yfirgangi sem endar með ofbeldi. Eftir að ofbeldið hefur átt sér stað segist maðurinn sjá eftir öllu saman og gerir allt sem hann getur til þess að sannfæra konuna um að þetta muni aldrei gerast aftur. Konan reynir þá gjarnan að gleyma því sem gerðist en eftir ákveðinn tíma endurtekur allt þetta ferli sig. Ef áfengis og vímuefnanotkun eru með í spilinu hjá öðrum eða báðum aðilunum, fórnarlambinu og ofsækjandanum, er afneitun gjarnan fylgisfiskur ofbeldisins.

 

Eitt af því sem einkennir þann sem beitir ofbeldi innan veggja heimilisins er, að hann kemur fram sem tvær gersamlega óskyldar mannverur. Á það við bæði um karla og konur, þó oftast séu það karlar sem beita ofbeldi eins og fyrr segir. Utan veggja heimilisins kemur sá er fyrir ofbeldinu stendur fram eins og hinn fullkomni heimilisfaðir en um leið og heim er komið vill hann öllu ráða og kúgar heimilisfólkið. Allir verða að lúta vilja hans. Með öðrum, t.d. á vinnustað, er hann gjarnan elskulegur og viðfeldinn en innst inni þráir hann vald í einhverri óljósri mynd. Sá er beitir ofbeldi á heimili sínu þjáist gjarnan af einhverkonar minnimáttarkennd sem aftur verður kveikja ofbeldisins t.d. þegar áfengi er haft um hönd. Fórnarlambinu er þá kennt um allt í lífinu sem ekki hefur gengið eins og ofbeldismaðurinn vildi, jafnvel það að hann skuli beita ofbeldi.

 

Sjá einnig: „Ofbeldi er ekki svarið“ – 26 ára kona sem hefur búið við heimilisofbeldi

Reynslan sýnir því miður að litlar líkur eru á því að sá sem beitir maka sinn og börn ofbeldi bæti ráð sitt eða taki upp nýja lifnaðarhætti. Þvert á móti eru meiri líkur á því að ofbeldið aukist með tímanum. Ofbeldismaðurinn leitar sér líka ógjarnan hjálpar að fyrra bragði. Öll þau sem búa við slíkt ofbeldi innan heimilisins í einni eða annarri mynd ættu því að leita sér aðstoðar til að losna úr sambandinu. Mörg samtök bjóða upp á hjálp þegar í slíkt óefni er komið. Og þó erfitt geti verið að horfast í augu við sjálfan sig og viðurkenna að sambúðin er komin í óefni, þá er sú viðurkenning gjarnan fyrsta skrefið burt úr aðstæðum sem til lengdar brjóta einstaklinginn niður.

 

Fleiri áhugaverðar greinar eru á doktor.is logo

SHARE