Hvað er magaspeglun?

  • Ef maginn er að angra þig áttu að leita læknis. Yfirleitt er hægt að meta og meðhöndla einkenni frá maga án meiriháttar rannsókna.
  • Ef grunur leikur á t.d. magasári er sennilegt að læknirinn ráðleggi rannsókn á innanverðum maganum. Það er gert með magaspeglun, annað hvort á stofu hjá sérfræðingi eða á göngudeild sjúkrahúss.
  • Algengar ástæður fyrir magaspeglun eru eftirtaldar kvartanir: Einkenni frá maga t.d. verkir,  uppþemba, ógleði, uppköst, brjóstsviði, blóðleysi, grunur um magasár eða vélindabólgur.

Hvaða not eru af magaspeglun?

  • Læknirinn getur framkvæmt nákvæma skoðun á allri slímhúð magans og fundið særindi, sár eða æxli. Þessi skoðun gefur afar góða raun og getur oft komið í stað röntgenmyndatöku. Hún gefur mjög skýra mynd af ástandi vélinda, maga og skeifugarnar.
  • Í magaspegluninni er einnig hægt að taka sýni úr slímhúðinni og taka myndir. Magasjáin er með búnað til skjámyndatöku, þannig að samtímis er hægt að fylgjast með slímhúðinni á sjónvarpsskjá og taka það upp á myndband. Það getur verið þýðingarmikið til samanburðar síðar, til dæmis eftir að meðferð er lokið.

Er annað en maginn skoðað í magaspeglun?

Magaspeglun er algeng rannsókn þar sem efri hluti meltingavegs er skoðaður. Það er vélinda, magi og skeifugörn. Á leiðinni niður í magann er slímhúðin í vélindanu skoðuð, þar sem ýmsir sjúkdómar geta gefið einkenni sem líkjast einkennum frá maga. Skoðunin kallast vélindaskoðun (oesofagoskopi), ef hún er framkvæmd sérstaklega og án þess að maginn sé einnig skoðaður (oesofagoskopi nefnist eftir latnesku læknisfræðiheiti vélindans, sem kallast oesofagus).

Hvernig er magaspeglun framkvæmd?

Magasjáin er sveigjanlegt sívalt áhald sem útbúið er ljósi og skoðunarbúnaði. Sjúklingurinn fær létta staðdeyfingu sem er spreyjað í kokið og róandi lyf í æð.  Við rannsóknina er legið á vinstri hlið. Magaspeglunarslöngu er síðan kyngt eftir fyrirmælum læknis og hún leidd gegnum munninn, niður vélindað og niður í magann, jafnvel lengra. Lofti er blásið niður til að fá góða og skýra yfirsýn og magasfi sogaður upp. Rannsóknin á að vera sársaukalaus en getur verið aðeins óþægileg og hún  tekur að jafnaði um 5-10 mínútur.

Það þarf að fasta 6 tíma fyrir rannsóknina og klukkustund eftir rannsóknina má byrja að drekka og neyta matar. Sjúklingur getur farið heim 30-60 mínútum eftir að rannsókn lýkur en vegna róandi lyfja sem eru gefin  má ekki keyra bifreið næstu 6 klst á eftir.

Magaspeglun en tiltölulega einföld og örugg rannsókn en eins og við öll  inngrip geta hins vegar  komið upp ófyrirsjáanlegir fylgikvillar eins og blæðing eftir sepatöku sem yfirleitt stoppar þó af sjálfu sér.

SHARE