Hvað gera bólusetningar?

Tvær leiðir hafa reynst árangursríkastar til varna gegn smitsjúkdómum, annars vegar almennt hreinlæti og hins vegar svonefndar ónæmisaðgerðir eða bólusetningar.
Bólusetning er framkvæmd í því skyni að veita vörn gegn ákveðnum smitsjúkdómum. Algengast er að nota „active“ eða hvetjandi ónæmisaðgerð en þá er gefið bóluefni sem hvetur ónæmiskerfið til þess að framleiða mótefni gegn  viðkomandi sjúkdómi. Ef einstaklingur kemst svo í snertingu við sjúkdóminn mun ónæmiskerfið þekkja hann og bregðast við með því að framleiða rétt mótefni.

Börn fæðast með mótefni gegn ákveðnum sjúkdómum svo sem mislingum, hettusótt og rauðum hundum vegna þess að mótefni frá móður fara í gegnum fylgjuna yfir í þeirra eigin blóðrás. Þetta er kölluð „passive“ eða skýlandi ónæmisaðgerð. Eins er hægt að gefa mótefni í æð eða vöðva. Skýlandi ónæmisaðgerð endist mun skemur en virk ónæmisaðgerð.

Hvað er bóluefni? 

Bóluefni getur verið lifandi eða dautt. Lifandi bóluefni eru örverur (oftast bakteríur eða veirur) sem hafa verið veiklaðar á ýmsan hátt en í þeim flokki er til dæmis  bóluefni gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum.
Dautt bóluefni er unnið úr dauðum örverum eða brotum úr þeim. Í þeim flokki má nefna mænusótt, inflúensu, lifrarbólguveiru B, kóleru, taugaveiki og hundaæði. Til undirflokks dauðra bóluefna má telja afeitur (toxoid) sem unnið er úr eiturefnum baktería fremur en bakteríunum sjálfum. Í þeim flokki eru stífkrampi og barnaveiki.

Sjá einnig: Er hægt að fyrirbyggja kvef?

Enginn vafi er á því að reglubundnar bólusetningar eins og beitt er hérlendis hafa dregið verulega úr tíðni þeirra sjúkdóma sem þær eru notaðar gegn.

Hvað er mótefni? 

Mótefni eru unnin úr sermi (blóðvatni) einstaklinga sem eru með mjög mikið magn af þessum mótefnum í blóðinu. Þau eru til á markaði sem almenn mótefni (immunoglobulin) og eru einkum notuð til aðfenginna ónæmisaðgerða handa einstaklingum með ónæmisbælandi sjúkdóma. Sértæk mótefni eru til gegn ýmsum sjúkdómum svo sem lifrarbólguveiru B, hlaupabólu, hundaæði og stífkrampa. Skýlandi ónæmisaðgerðir eru einkum notaðar til að minnka hættu á að sýkill taki sér bólfestu eftir að mögulegt smit hefur átt sér stað, t.d. eftir slys þar sem sár er tætt og óhreint (stífkrampi) eða eftir kynmök við einstakling með lifrarbólgu B.

Hverja á ekki að bólusetja?

Fólk með ofnæmi fyrir eggjum ætti ekki að fá bóluefni gegn inflúensu. Það er vegna þess að influensubóluefnið er ræktað í hænueggjum. Einstaka bóluefni innihalda örlítið magn sýklalyfja. Þau geta valdið ofnæmisviðbrögðum hjá þeim sem eru með ofnæmi fyrir sýklalyfjum. Lyfjanna er getið á pakkningunni utan um bólusetningarefnið. Almennt ber að varast að gefa þunguðum konum og fólki með ónæmisbælandi sjúkdóma lifandi bóluefni. Vægir sjúkdómar eins og kvef og aðrar sýkingar í efri loftvegum ættu ekki að koma í veg fyrir bólusetningar. Sé um alvarlegri sjúkdóma að ræða, sérstaklega ef þeim fylgir hár hiti, ætti að fresta bólusetningu.

Nánar er hægt að lesa sér til á vef landlæknisembættisins

Fleiri heilsutengdar greinar eru á doktor.is logo

SHARE