Ekki alls fyrir löngu fengum við á ritstjórn Hún.is sent bréf frá nafnlausri konu út í bæ sem hófst á þeim orðum: „Í gærkvöldi íhugaði ég sjálfsvíg…“. Við erum með flokk á Hún.is sem er eingöngu fyrir innsendar greinar og þangað getur fólk sent bréf og við birtum, nafnlaust, ef fólk vill það. Það var þangað sem þetta bréf átti að fara. Ég las bréfið og fékk sting í hjartað. Bréfið lýsti aðstæðum konu sem býr á Íslandi eins og það er í dag. Íslandi sem er BEST Í HEIMI, Íslandi þar sem fjármálaráðherra landsins segir það blákalt í blaðaviðtali að það sé „ekki til fátækt á Íslandi“, Íslandi sem marga dreymir um að yfirgefa þessa dagana og margir láta af því verða. Við höfum ekki bara látið henda okkur í drullupoll árið 2008, heldur er búið að draga okkur fram og aftur í þessum drullupolli allar götur síðan.

Sjá einnig: Ég átti yndislega vinkonu

Aldrei mun ég halda því fram að ég sé pólitískt þenkjandi en það er svo langt frá því. Það sem ég veit, er að Íslendingar eru þreyttir. Þreyttir á ástandinu og baráttunni. Margir hafa gefist upp og bíða þess bara að ástandið batni og vona að næstu mánaðarmót verði í lagi. Margir eru hættir að vera reiðir og tala sem minnst um ástandið, taka einn dag í einu og bíta á jaxlinn. Svo kemur það einn daginn að veruleikinn hellist yfir okkur eins og köld fata. Kvíðinn og óttinn við framtíðina kreistir mann eins og ísköld krumla.

Það er það sem ég las út úr bréfi þessarar ungu konu.

Ég hef nefnilega fram að þessum tíma, getað aflað einhverra tekna inn á heimilið, með íhlaupavinnu og sölustörfum. Eftir að ég varð, hreinlega grænmeti, hef ég ekki haft heilsu í að skeina mitt eigið rassgat, hvað þá heilsu eða sjálfsöryggi í að afla tekna. Ég hef selt allt út af heimilinu sem mögulega einhverjir peningar eru í en það dugar ekki.

Þetta er raunveruleikinn gott fólk og ég veit að margir kannast við þetta! Ég var sjálf í þeim sporum að borða Cheerios í kvöldmatinn í heila viku, þegar dóttirin var hjá pabba sínum, af því það var það ódýrasta sem ég komst í og var búin að reikna þetta út mjög gaumgæfilega.

Það var margt í þessu bréfi sem snerti við mér. Ég hugsaði þetta yfir nótt og daginn eftir tók ég þá ákvörðun að gera það, sem ég gat fyrir þessa konu. Ég talaði við fólk sem ég þekki, fólk sem þekkir og tengist inn í fyrirtæki sem gætu hjálpað til. Þetta tók ekki langan tíma og viðbrögðin sem ég fékk voru bara jákvæð. Ég var rosalega hissa á meðbyrnum og því hversu tilbúið fólk og fyrirtæki voru að leggja eitthvað að mörkum fyrir ókunnuga fjölskyldu í vanda og vildi ekkert endilega fá neitt fyrir sinn snúð.

Sjá einnig: Ég þykist ekki vera heilög…

Það endaði með því að ég hringdi í konuna, eftir að hafa reddað mér númerinu hennar, fékk heimilisfangið hennar og sendi henni föt og skóladót fyrir börnin hennar, inneign fyrir 50000 kr í Iceland til að kaupa matvörur og nokkrar inneignir í viðbót á matsölustöðum og fleira. Þegar ég sagði henni frá því sem ég ætlaði að senda henni, grét hún. Hún byrjaði á því að segja mér að hún hefði ekki verið að biðja um þetta eða ætlast til neins, hún var bara að deila reynslu sinni. Ég vissi það alveg fyrir. Mig langaði bara að gera þetta.

Ástæðan fyrir því að ég er að segja ykkur frá þessu er ekki til þess að ota mínum tota, láta ykkur dást að því að ég hafi gert þetta eða neitt í þeim dúr. Þá væri takmarkið mitt farið fyrir bí. Maður á ekki að gera góðverk til þess eins að fá hrós eða eitthvað til baka. Þá er þetta ekki góðverk heldur er maður að kitla egóið sitt. Mér var einu sinni sagt að hin sönnu góðverk væru þau sem maður gerði og segði engum frá því.

Ég er að segja ykkur frá þessu af því að ég veit að við getum gert betur fyrir hvert annað. Ég VEIT það. Við komum hvort öðru alveg við. Við verðum að geta stigið upp frá borðinu og sagt: „ég gerði það sem ég gat“. Bjóðum fólki í mat, gefum föt sem við erum hætt að nota, til þeirra sem þurfa þau og geta notað þau, stoppum hjá manninum á bilaða bílnum og athugum hvort við getum hjálpað. Bjóðumst til að hlusta og vera til staðar. Verum góð og kurteis við fólkið í kringum okkur, heilsum og kveðjum og þökkum fyrir. Ef þú getur með heilum hug sagt að þú gerir allt sem þú getur fyrir þá sem eru í kringum þig, haltu því þá áfram. Ef ekki, reyndu þá að tileinka þér það. Þú getur ekki ímyndað þér hvað það getur breytt miklu til hins betra, fyrir þig og þá sem í kringum þig eru.

 

Fylgstu með!

Kidda á Instagram

Hún.is á Instagram

Kidda á Snapchat: kiddasvarf

Hún.is á Snapchat: hun_snappar

SHARE