Hvenær byrjar fæðingin?

Á seinustu vikum eða dögum fyrir fæðinguna finnur þungaða konan fyrir ýmsum breytingum. Í fyrsta lagi sígur legið niður. Þrýstingurinn undir bringspölum og á rifin minnkar, og konan finnur aukinn þrýsting ofan í grindina og á þvagblöðruna. Einnig eykst oft útferð og verður þykk og slímkennd.

Finna má fyrir samdrætti í legi allt frá því snemma í meðgöngunni. En þegar fæðingin nálgast verða þessir samdrættir tíðari og kröftugri. Þeir geta verið svo kröftugir að konan vaknar við þá.

Hvað bendir til þess að fæðingin sé að byrja?

Áður en fæðingin byrjar, eða í byrjun hennar, getur komið lítils háttar blæðing. Það eru háræðar í leghálsinum sem rofna þegar leghálsinn byrjar að opnast. Oft kemur þykkt slím frá leghálsopinu og stundum er það lítillega blóðblandað.

Sjá einnig: Þarf að setja fæðinguna af stað?

Sagt er að fæðingin sé byrjuð þegar hríðar fara að koma með reglulegu millibili og verða sterkari og þéttari eftir því sem líður á. Fundið er fyrir hríðunum sem samdrætti í leginu. Með því að leggja hönd á kviðinn er hægt að finna að legið lyftist fram og harðnar og síðan slaknar aftur á því eftir 40-60 sekúndur.

Í byrjun eru ef til vill 8 –10 mínútur milli hríðanna, en þær verða tíðari eftir því sem líður á fæðinguna. Þegar 4- 5 mínútur eru milli hríðanna er rétt að hafa samband við fæðingardeildina og vera tilbúin til að fara þangað.

Hvenær á að hafa samband við fæðingardeild

Við ákveðnar aðstæður á ekki að bíða eftir reglubundnum hríðum áður en haft er samband við fæðingardeild.

  • ef þig grunar að legvatnið sé farið að renna
  • ef blæðing er til staðar
  • ef sársaukafullir, viðvarandi samdrættir eða eymsli eru í legi
  • ef þér finnst fóstrið ekki hreyfa sig eins oft og kröftuglega og venjulega
  • ef þér finnst fæðing vera að hefjast en það eru meira en þrjár vikur að áætluðum fæðingartíma
  • ef gerður var keisaraskurður við fyrri fæðingu
  • ef staðfest er að barnið er í sitjandastöðu
  • ef þú átt von á tvíburum
  • ef þú hefur fætt mjög hratt við fyrri fæðingu

 

Sjá einnig: Hvað er besta líkamsræktin á meðgöngu?

Þá er gott að hringja í fæðingardeildina og ræða við ljósmóður um hvort þú eigir að koma eða hvort þú eigir að bíða átekta um stund, hvort þú eigir sjálf að fara í bíl eða hvort þú eigir að hringja á sjúkrabíl.

SHARE