Hvernig smitast kynfæravörtur?

Kynfæravörtur, öðru nafni kondylóma, orsakast af veirum (Human Papilloma Virus – HPV). Margar tegundir af vörtuveirum eru til og valda sumar þeirra m.a. vörtum á höndum og fótum. Kynfæravörturnar eru hins vegar kynsjúkdómur sem smitar við samfarir. Hundruð einstaklinga leita lækninga vegna kynfæravartna á ári hverju. Áberandi er að tíðni þessarar vörtur fer vaxandi í aldurshópnum 15-18 ára.

Smitleiðir

Vörtusmit berst við snertingu slímhúða við samfarir.

Einkenni

Veiran veldur ljósbleikum eða húðlitum vörtum á og við kynfærin og endaþarmsopið. Venjulega er yfirborð vartnanna flipótt og þær vaxa í klösum sem orðið geta frekar stórir. Þegar vörturnar hafa þetta útlit er auðvelt að sjá þær en þegar þær eru sléttar getur það verið mjög erfitt. Stundum myndast einungis húðlitar hrufur eða bólgur, og e.t.v. fylgir þeim örlítill kláði, sem eru þá einu einkenni sjúkdómsins. Hjá konum er oft erfitt að uppgötva vörturnar ef þær eru í leggöngum eða á leghálsinum. Vörturnar birtast yfirleitt 1-3 mánuðum eftir smit en allt að 12 mánuðir geta þó liðið. Hinn langi meðgöngutími smitsins gerir það að verkum að erfitt getur verið að rekja slóðina til rekkjunautanna sem nauðsynlegt er að gera til að geta skoðað þá og meðhöndlað.

Sjá einnig: 6 ótrúlegar goðsagnir um kynfæri kvenna

Fylgikvillar

Af þeim u.þ.b. 60 veirutegundum sem þekktar eru af gerðinni HPV hafa fáeinar verið tengdar aukinni hættu á frumubreytingum og jafnvel krabbameini í leghálsi kvenna. Af þessum ástæðum er mikilvægt að taka frumustrok reglulega frá leghálsi þeirra kvenna sem hafa fengið kynfæravörtur.

Greining

Þegar grunur leikur á að um vörtusmit sé að ræða þarf að framkvæma nákvæma skoðun á kynfærum karla og kvenna, jafnvel með stækkunarsjá. Til að auðvelda þetta er borið á edik sem gerir vörturnar auðsýnilegri. Ef grunur er um vörtusmit eru einnig tekin sýni til að athuga hvort um aðra kynsjúkdóma geti verið að ræða.

Meðferð

Algengast er að meðferð sé hafin með því að pensla podophyllíni á vörturnar. Þetta er mjög sterkur vökvi sem brennir húðina ef hann er ekki þveginn af eftir fáeinar klukkustundir. Læknirinn útskýrir þetta nánar. Hægt er að endurtaka þetta í nokkur skipti en ef það dugar ekki verður að grípa til annarra ráða, t.d. að brenna vörturnar eða frysta og í vissum tilvikum er gripið til leysigeisla.

Lestu fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo

SHARE