Hvernig verður þetta eiginlega?

Ég verð að viðurkenna að ég er með nettan kvíða fyrir næstkomandi föstudegi og ekki að ástæðulausu skal ég segja ykkur. Við unnusti minn ákváðum að gleðja stelpurnar okkar svakalega um seinustu jól og gefa þeim miða á tónleika með Justin Bieber. Þær görguðu af gleði og auðvitað var keyptur einn miði fyrir mig svo ég gæti farið með og passað upp á stelpurnar á þessari samkomu ofurspenntra og móðursjúkra stúlkna (já ég tel að stelpur verði í meirihluta) á öllum aldri.

Kvíði minn stafar af því að ég, sem fullorðin manneskja, hef lítið sem ekkert að gera í svona margmenni, þar sem ég sé ekki neitt. Ég er 156,5 sentimetrar á hæð og eini möguleikinn fyrir mig að sjá eitthvað er að vera fremst eða aftast. Við skulum vera alveg raunsæ. Ef ég ætla að freista þess að vera fremst þá þurfum við væntanlega að tjalda fyrir utan tónleikastaðinn og vera þar allan daginn. Það er ekki alveg í boði þegar stelpurnar þurfa að mæta í skóla og ef ég á að vera alveg hreinskilin er ég ekki alveg til í að leggja það á mig. Fyrir utan það að þegar ég tróð mér seinast fremst á tónleika var ég næstum troðin til bana og endaði það með því að ég var dregin, lífvana upp úr þvögunni og ég þurfti bara að gjöra svo vel að fara aftast. (Gerðist fyrir MÖRGUM árum á Blur tónleikum….. góðar stundir.)

Sjá einnig: Ég átti yndislega vinkonu

Ef ég ætla að sætta mig við að vera aftast þá erum við ekki að tala um aftast, fyrir aftan aftasta mann, heldur töluvert fyrir aftan aftasta mann. Ef ég er nálægt öðru fólki sé ég bara bök og axlir og þegar maður er komin svona aftarlega gæti hver sem er, annar en Justin, verið að koma fram á sviðinu en maður sæi ekki muninn.  Já já, ég fékk margar fallegar og fínar vöggugjafir en hæðina fékk ég ekki. Stelpurnar verða vonandi ekki fyrir vonbrigðum með þessa reynslu. Ég mun finna leiðir til þess að við getum allar séð eitthvað. Má maður ekki koma með koll, stultur eða eitthvað til að standa á, á svona tónleika.

Sjáumst á föstudaginn!

Fylgstu með!

Kidda á Instagram

Hún.is á Instagram

Hún.is á Snapchat: hun_snappar

SHARE