Hversdagsleg gleymska – hvað er til ráða?

“Hvar setti ég nú bílalyklana ? …. hvað heitir hún aftur ? ….. hvar lagði ég bílnum ?’”

höfum við ekki öll spurt slíkra spurninga??

Að gleyma er eðlilegt ….

… allavega að vissu marki. Allir gleyma fjölmörgu á hverjum degi. Ef við myndum eftir öllu sem við upplifðum, heyrðum og sæjum, myndum við fljótlega þjást af andlegri ofhleðslu. Það getur samt verið óþægilegt ef við gleymum nafni kunningja, afmælisdegi vinar, tímabókun hjá lækni, eða hvar við lögðum bíllyklana frá okkur í morgun. Það sem meira er, neikvæð viðhorf almennings gagnvart kognitívri (kognitívt“ segir til um hugsunargetu. Oft er einnig notað „hugrænt“ í umgangsmáli.) skerðingu kemur gjarnan í veg fyrir að við ræðum slíka gleymsku opinskátt okkar á milli og að við leitum hjálpar eða úrræða.

Gleymska sem hér er fjallað um, er vægt hversdagslegt minnisvandamál sem stafar ekki af heilasjúkdómi heldur þáttum í hversdagslegu lífi okkar sem við höfum stjórn á að vissu marki.

Hvaða þættir í lífi okkar hafa áhrif á minnið? Margir þættir í lífi okkar hafa áhrif á gæði minnis og sýna jafnframt hversu mikilvægt en líka hversu berskjaldað minnið er. Hér að neðan eru nefnd nokkur dæmi.

Aldur: Þegar við eldumst eiga sér stað líffræðilegar breytingar í heilanum. Blóðflæði, magn taugafruma, boðefni, þyngd og rúmmál heilans minnka. Það er fylgni á milli aldurs og heilasjúkdóma eins og Alzheimers, en sem betur fer þá fá fæstir þennan sjúkdóm. Það er heldur ekki algilt að minnið versni yfir höfuð þegar við eldumst. Margir kognitívir þættir geta haldist svo til óbreyttir langt fram á elliár og má nefna hér meðal annars persónulega og almenna þekkingu, forntímaminni (til dæmis minni úr barnæsku okkar), þekkingu á orðum og merkingu þeirra, minni á þekkt andlit, málskilning, og hæfileikann að lesa og skrifa. Hinsvegar er rétt að geta þess að eldra fólk á oft erfiðara með að læra nýja hluti (eins og tölvutækni), að framkvæma hluti undir tímapressu, að muna eftir nöfnum og heitum þegar mikið liggur við, að halda einbeitingu í langan tíma og að geta skipt athygli á milli tveggja verkefna.

Lyf: Sum lyf geta haft áhrif á minni annaðhvort óbeint í gegnum syfju, eða beint í gegnum áhrif á heilaboðefni og -stöðvar sem hafa með minnisgeymd að gera. Nýjar rannsóknir benda líka á samband á milli efna- og geislameðferðar og kognitíva getu/ minniserfiðleika.

Röskun á hormónum: Þegar við eldumst eiga sér stað hormónabreytingar, bæði hjá konum og körlum. Niðurstöður nýrra fræðilegra rannsókna benda til fylgni á milli hormónaröskunar og kognitívrar getu, svo og fylgni á milli hormónagjafar og minnis.

Lífsstíll: Streita, svefntruflanir og örmögnun geta haft áhrif á einbeitingu sem leiðir til erfiðleika við að festa sér í minni allskyns flæði uppýsinga sem beinist að okkur á degi hverjum.

Áfengi: Langvarandi ofdrykkja veldur minnistapi, vegna þess að skemmdir verða í þeim hlutum miðtaugakerfis sem stjórna meðal annars getu til að læra nýja hluti og varðveita upplýsingar.

Geðheilsa: Það er auðvelt að lenda í vítahring minnisskerðingar og kvíða. Minnstu merki um gleymsku eru oft túlkuð sem vísbending um yfirvofandi Alzheimers sjúkdóm. Aukinn kvíði getur þá minnkað einbeitingu okkar, sem truflar síðan getu okkar til að læra og muna, og svo koll af kolli.

Sjúkdómar/líkamleg heilsa: Sjúkdómar, sérstaklega langvarandi sjúkdómar og verkir, geta haft áhrif á minni okkar og þá líklegast vegna skertrar athygli og einbeitingar. Margir sjúkdómar hafa líka bein áhrif á minnisgetu okkar. Í því sambandi má nefna heilablóðfall, efnaskiptasjúkdóma, ofnæmi, eiturvirkni, hrörnunarsjúkdóma, vímu-efnamisnotkun, höfuðáverka, heilaæxli, sykursýki, blóðrásartruflanir og margt fleira. Mismunandi sjúkdómar hafa áhrif á mismunandi þætti minnisferlis. Skert varðveisla minnis er til dæmis þekkt afleiðing Alzheimers sjúkdóms. Gleymska eða minnistap ?

Þegar fólk kvartar undan lélegu minni, leiðir taugasálfæðilegt mat oft í ljós að ekki sé um verulega skerðingu minnis er að ræða heldur eðlilega gleymsku. Gleymska er heiti yfir algeng og saklaus minnisglöp (þó oft pirrandi), en minnistap getur hins vegar verið alvarlegt og bent til alvarlegs sjúkdóms.

Til að átta okkur betur á hvort um gleymsku eða alvarlegt minnistap sé að ræða, hjálpar að gera sér grein fyrir hvers eðlis minnisglöpin eru. Oft er alls ekki um minnisglöp að ræða en fr ekar erfiðleika við að beita og halda athygli. Dæmi er þegar við getum ekki fundið gleraugun okkar sem við höfum verið með fyrir 5 mínútum – upplýsingar um staðsetningu þeirra hefur sennilega aldrei náð í minnisgeymslu okkar vegna þess að við töluðum í síma og vorum annarshugar þegar við létum þau frá okkur. Léleg skipulagning getur einnig verið ástæðan fyrir minnisglöpum: Ef við höfum ekki tileinkað lyklunum okkar ákveðinn stað, kemur ekki á óvart að leita þurfi að þeim í hvert skipti þegar við erum að fara út úr húsi. Hins vegar gildir annað um tap, skort eða röskun á minni: Þegar við getum ekki munað eftir að hafa borðað með vini okkar í gærkvöldi er líklegt að um verulegt minnistap sé að ræða. Margt annað getur komið við sögu við hversdagsleg minnisglöp og úrskurðurinn um eðli þeirra er alltaf háður ýtarlegu mati af taugasálfræðingi.

Hvað er til ráða við gleymsku ?

Eins og áður hefur verið útskýrt, er gleymska eðlilegur hluti daglegs lífs, allavega að einhverju leyti. Líklega höfum við öll upplifað tímabil þar sem minni okkar var ekki eins skarpt og áður. Slíkt gerist gjarnan þegar við erum undir miklu álagi í vinnu eða skóla eða þjáumst af einhverju af áðurnefndum atriðum sem geta haft áhrif á minni. Þegar dregur úr vinnuálagi, þegar prófin eru búin, þegar við fáum betri svefn, betri eða önnur lyf, eða ráð við kvíða, þá batnar minni oft aftur. Ekki er þó alltaf augljóst samband á milli gleymsku og áhrifaþátta. Í slíkum tilvikum er ráðlagt að fara til heimilislæknis sem mun ráðleggja um framhaldið.

Taugasálfræðilegt mat er einn af mögulegum kostum til að leiða í ljós undirliggjandi þætti gleymsku. Taugasálfræðilegt mat er prófun á hugrænni getu, þar sem lögð eru fyrir allskyns verkefni sem hvert um sig mælir ákveðna heilastarfsemi eins og til dæmis minni, einbeitingu, mál og tal eða dómgreind. Verkefnin eru fjölbreytileg og þykja skjólstæðingum þau yfirleitt skemmtileg. Taugasálfræðilegt mat er tímafrekt vegna þess að heildarútkoma ákvarðast alltaf af mörgum undirþáttum. Til að mynda eru til mörg mismunandi minnispróf eftir því hvaða undirþætti minnis er verið að prófa.

Ef við viljum takast á við gleymskuna er gott ráð að kortleggja kognitíva styrkleika og veikleika til að geta skipulagt taugasálfræðilega endurhæfingu. Minnisaðferðir hjálpa til við að efni verði skráð í varanlega minnisgeymslu með því að koma skipulagi á minnið, hugtengja það við annað efni og ljá því skilning og merkingu.

Margir sjúklingar hafa látið í ljós að þeir hreinlega vissu ekki að sérstakar minnisaðferðir væru til og hvaða aðferðum þeir gætu beitt til að styrkja minni og auðvelda lærdóm. Þegar þeir höfðu lært ákveðnar minnisaðferðir varð um greinilegar framfarir að ræða.

Vísindalegar rannsóknir hafa sýnt að endurhæfing á minni bætir minnisgetu fólks. Niðurstöður rannsóknanna benda til betri frammistöðu fólks á minnisprófum svo og aukins sjálfstrausts varðandi eigin minnisgetu, og minni kvíða. Minnismeðferð getur farið fram sem einstaklings eða hópmeðferð. Hópmeðferð skilar oft víðtækari árangri. Í hópvinnu nýtur fólk þess að deila reynslu sinni af daglegum minnisglöpum með öðrum og hefur gaman af því að vinna saman til að finna lausnir. Þannig lærir fólk hvert af öðru, veitir hvert öðru stuðning og losnar við fordóma gagnvart gleymsku.

Claudia Ósk H. Georgsdóttir, sérfræðingur í klínískri taugasálfræði, hún hlaut sálfræðimenntun sína á Íslandi (BA) og í Ástralíu (Masters og Phd). Hún flutti heim árið 2005 frá vestur Ástralíu, þar sem hún starfaði við tauga/greinigardeild á vegum Heilbrigðisstofnunarinnar í Perth. Claudia Ósk hefur sérhæft sig í 15 ár í taugasálfræðilegu mati/ greiningu á sjúkdómum miðtaugakerfis og heilaskaða, svo og taugasálfræðilegri endurhæfingu. Hún hefur skrifað handbók um endurhæfingu á minni sem notuð hefur verið fyrir einstaklinga og hópa. Claudia Ósk starfar nú á Landspítala við endurhæfingardeild Grensás, svo og á einkastofu við taugasálfræðilegt mat og endurhæfingu fullorðinna

Tengdar greinar:

Heilsa og próf

ADHD og ómega fitusýrur

Álagstímabil í samböndum – þriðja árs krísa

Screen Shot 2014-11-26 at 18.53.23

SHARE