Hvítlaukskjúklingur

Láttu ekki magnið af hvítlauk skelfa þig. Hér gefur hvítlaukurinn ómótstæðilegt bragð og er ekki yfirgnæfandi, bragðið er sætt og gott og passar vel með timian og sítrónunni. Þessi uppskrift kemur frá Allskonar.is.

Hvítlaukskjúklingur

  • 1 kjúklingur, heill
  • ólífu olía
  • 4 greinar timian
  • 1 sítróna, í sneiðum
  • 1 lime, í sneiðum
  • 4 hvítlaukar, um 40 rif
  • 1 laukur, í sneiðum
  • 3 dl vatn
  • salt og pipar

Undirbúningur: 10 mínútur

Eldunartími: 90 mínútur

Hvíld: 15 mínútur

Byrjaðu á að hita ofninn í 190°C.

Taktu hvítlaukana í sundur, losaðu rifin hvert frá öðru. Ekki flysja þau. Þú getur líka skorið hvert hvítlaukshöfuð í tvennt lárétt í stað þess að plokka öll rifin í sundur. Mestu gildir að opna á allt góða bragðið .

Nuddaðu kjúklinginn vel að innan sem utan með olíu og salti og pipar. Settu timian greinarnar, hálfa sítrónu og hálft lime ásamt nokkrum hvítlauksrifjum inn í kjúklinginn. Raðaðu nú afgangnum af sítrónunni og limeinu í botninn á eldföstu móti eða ofnpotti, skerðu laukinn í sneiðar og  leggðu í botninn á mótinu líka ásamt hvítlaukrifjunum öllum.
Leggðu kjúklinginn ofan á.
Helltu vatninu í kringum kjúklinginn.
Steiktu í ofninum í 90 mínútur. Það er ágætt að líta á fuglinn og mæla með kjöthitamæli eftir 70 mínútur ef hann er smár. 90 mínútur eiga að vera passlegur tími fyrir stóran kjúkling.

Þegar steikartíma er lokið þá tekurðu kjúklinginn út, smellir yfir hann ábreiðu úr álpappír og leyfir að hvíla í 15 mínútur. Þannig komum við í veg fyrir að missa safann úr kjötinu þegar við skerum í það.

Berðu fram með góðu salati, kartöflum eins og parmesan kartöflum og einfaldri sósu.

SHARE