Í sambúð með ofbeldismanni og alka

Góðan dag

Ég er 28 ára gömul, tveggja barna móðir og er í sambandi með manni sem er ekki barnsfaðir minn. Við eigum ekkert barn saman. Þessi maður er einn af ljúfustu mönnum sem ég hef kynnst, hann er fyndinn, hress og góður við börnin mín. Hann á samt sína galla. Galla sem ég segi engum frá og skammast mín fyrir að sætta mig við. Ég gleymi því aldrei þegar við vorum nýflutt í íbúðina okkar sem við bjuggum fyrst í og ég fékk þessa nagandi tilfinningu um að ég hafi verið að gera stærstu mistök í lífi mínu hingað til. Við höfðum bara verið saman í nokkra mánuði og ég hélt að þetta væri engin spurning, ég vildi búa með honum.

Galli mannsins er að hann er alkóhólisti. Hann drekkur mjög oft og þegar hann drekkur er hann vondur maður. Ég sá þetta mjög fljótt. En ég vonaði alltaf að þetta væri einangrað tilfelli og þetta væri ég bara að skemma fyrir mér þegar allt væri að ganga vel.

Sjá einnig: Þjóðarsál: ,,Þau gerðu grín að andláti föður míns”

Þegar við erum barnlaus um helgi, er ég komin með hnút í magann á miðvikudegi. Ég er farin að finna upp á hlutum til að gera um helgar, annað en að fara á djammið. Ég reyni að selja honum hugmyndina um að það sé gaman að fara í sumarbústað bara tvö, eða að hafa kósýkvöld heima. Það gengur ekki upp. Hann vill það ekki og vill alltaf fara út á lífið.

Fyrst um sinn fór ég með honum og djammaði meira en ég hef gert hingað til í lífi mínu. Hann byrjaði fljótlega að vera vondur við mig þegar hann var fullur. Fór allt í einu í fýlu og skildi mig eftir. Hætti að svara í símann og ég fór heim ein. Yfirleitt endaði þetta á rifrildi heima því ég beið eftir að hann kæmi heim. Ég hætti að vaka eftir honum. Ég fór að sofa og stundum leyfði hann mér að sofa ef ég náði á annað borð að sofa. Stundum þóttist ég sofa og vonaði að hann myndi láta mig í friði. Yfirleitt leyfði hann mér ekki að sofa. Kveikti ljósið og sagði nafnið mitt. Hækkaði róminn ef ég opnaði ekki augun. Ef ég „vaknaði“ ekki reif hann af mér sængina. Stundum vill hann bara segja mér hvað ég sé ömurleg kærasta. Hversu óhamingjusamur hann sé með mér. Hann vill segja mér að hann vilji losna við mig, hætta sambandinu.

Ég hætti að drekka. Ég lét eins og ÉG ætti kannski ekki að drekka áfengi. Ég þoldi það ekki. Hélt kannski að hann myndi fara minna á djammið ef ég væri ekki með. Það var alls ekki raunin. Hann hélt áfram og ég fór stundum með, alltaf edrú. Ég fór heim og ef ég sofnaði vaknaði ég um leið og hann setti lykilinn í skrána. Hann hefur beitt mig andlegu ofbeldi. Byrjaði að elda mat um miðja nótt og lét mig koma fram í eldhús og átti að BORÐA. Gargaði á mig að ég kynni ekki að meta neitt þegar ég reyndi að segja honum að ég væri ekki svöng kl 6 um morgun. Hann rauk inn í stofu og sofnaði í sófanum. Ég sat lömuð við borðið þangað til ég fór að heyra hrotur. Þá loksins gat ég slakað á. Alltaf þegar hann er sofnaður, leysist hnúturinn í maganum aðeins.

Sjá einnig: Misnotkun á áfengi og alkóhólismi

Hann hefur beitt mig líkamlegt ofbeldi. Hrint mér svoleiðis að ég dett, því hann er miklu stærri en ég. Hann hefur lyft mér á hálsmálinu á kjólnum mínum upp að vegg og haldið mér uppi á hálsinum. Kjóllinn rifnaði og ég henti honum í ruslið. Hann hefur hrætt mig þannig að ég hef læst mig inni á baði. Þá kýldi hann með hnefanum í hurðina svo hún brotnaði. Daginn eftir hjálpaði ég honum að skipta hurðinni út svo börnin sæju ekki gatið á hurðinni. Við settum hurðina á herbergi annars barnsins og límdum bara plaköt yfir götin.

Ég hefði aldrei trúað því að ég myndi sætta mig við þetta. ALDREI! Ég er svo ákveðin og sterk. En ég er það ekki lengur. Ég hef engan til að ræða þetta við, ég skammast mín svo fyrir að vera svona undirgefin og vitlaus.

Núna erum við að „reyna“ að eignast barn. Hann langar í sitt eigið barn. Mig langar ekki að eiga barn með honum. Hann veit það ekki. Hann heldur að við séum að reyna að eignast barn saman. Ég bara get ekki hugsað mér það og hef verið að taka pilluna án hans vitundar. „Daginn eftir“ pilluna líka. Ég veit ekki hversu lengi ég get gert þetta…. Ég er háð honum fjárhagslega og allar skuldir skráðar á mig. Ég er hrædd við hann og þori ekki að fara frá honum. Börnin mín kalla hann pabba og ég er með samviskubit yfir því að vera að hugsa um að fara frá honum.

Það er svakalega gott að koma þessu frá mér. Ég er orðin svo einangruð og leið.

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is. Ef þú hefur áhuga á að deila þinni reynslu, skoðun eða upplifun máttu senda hana á thjodarsalin@hun.is.

 

 

 

SHARE