Í sjúkrabíl með kviðverki – reyndist vera með hveitiofnæmi

Þórunn Eva Guðbjargar Thapa heldur úti síðunni Glútenfrítt Líf á samfélagsmiðlinum Facebook. Þórunn segist hafa greinst með ofnæmi fyrir hveiti fyrir nokkrum árum og að sárir magaverkir hafi horfið með öllu eftir að hún fjarlægði glúten úr fæðinu.

„Ég er með hveitiofnæmi, en það er ekki það sama og glútenóþol. Ég hef ekki fengið magaverk síðan að ég tók út allt hveiti,” segir Þórunn Eva sem segir að verkirnir áttu sér engar skýringar þrátt fyrir rannsóknir.

imageEndaði í sjúkrabíl vegna verkja

Þórunn Eva segist hafa verið sárþjáð um skeið af magaverkjum og að læknisheimsóknir hafi verið tíðar.

„Ég þurfti nokkrum sinnum að fara með sjúkrabíl vegna mjög mikilla magaverkja og það fannst aldrei neitt að mér. Ég var farin að halda að þetta væri eitthvað andlegt bara. En í eitt skipti fannst einhver smá sýking. Þá var ég sett á sýklalyf. Ég fékk hinsvegar bráðaofnæmi fyrir pensilíni og var sett í ofnæmispróf í kjölfarið og þá kom þetta í ljós“

Vill auka fræðslu um glútenóþol og ofnæmi

Ákveðin vitundarvakning hefur átt sér stað á Íslandi síðustu ár varðandi glútenóþol og hveitiofnæmi og hefur Þórunn Eva viljað leggja sitt að mörkum. Hún stofnaði ásamt fleirum Seliak- og Glútenóþolsamtök Íslands í september síðastliðinn.

„Fyrir ári síðan ákvað ég að stofna uppskriftasíðuna Glútenfrítt Líf á Facebook og þar hef ég verið að setja uppskriftir sem henta þeim sem eru með óþol eða ofnæmi fyrir glúteni. Þetta er ekkert endilega bara eitthvað hollt, heldur allskonar uppskriftir. Ég forðast til dæmis spelt þar sem það er ein tegund af hveiti. Þeir sem eru með óþol geta þolað það í litlu magni en þeir sem eru greindir með seliak geta sumir fengið mjög alvarlegar aukaverkanir. Dæmi eru um að ef einstaklingur með seliak innbyrðir hveiti getur hann hreinlega lent í því að missa hárið og missa niður vítamínbúskap líkamans.“

Glúten í snyrtivörum

Samkvæmt Þórunni geta glútenafurðir leynst í hefðbundnum snyrtivörum en ganga þá undir öðru heiti í innihaldslýsingunni 

„Það eru sífellt fleiri vörumerki að votta sig sérstaklega sem glútenlausar eins og til dæmis snyrtivörulínurnar Bare Minerals og Lavera.“

Nánari upplýsingar um samtökin seliak & glútenóþolssamtök Íslands má finna á vefnum Seliak.com

Hafið þið reynslu af glútenóþoli eða hveitiofnæmi? Sendu okkur sögu þína á ritstjorn@hun.is

SHARE