Ískonfekt – Glúteinlaust

Jahérna hvað þetta er girnilegt. Þessi uppskrift kemur úr smiðju CafeSigrún. Hún er með svo margar æðislegar uppskriftir inni á síðunni sinni.

Ískonfekt

Gerir um 25-30 mola

Innihald

  • 125 g cashewhnetur, lagðar í bleyti
  • 60 g döðlur, saxaðar gróft
  • 60 ml appelsínusafi (eða mangosafi)
  • 1 banani, vel þroskaður
  • 2 msk agavesíróp
  • 2 msk kókosolía
  • 100 g dökkt, lífrænt framleitt súkkulaði með hrásykri

Aðferð

  1. Leggið cashewhnetur í bleyti í nokkrar klukkustundir (eða yfir nótt).
  2. Saxið döðlurnar og leggið þær í bleyti í appelsínusafanum.
  3. Hellið vatninu af cashewhnetunum og setjið þær í matvinnsluvél. Blandið á fullum krafti í a.m.k. 1 mínútu.
  4. Skafið hliðar matvinnsluvélarinnar og blandið áfram í 30 sekúndur. Bætið kókosolíunni og agavesírópinu út í og haldið áfram að mala í nokkrar sekúndur.
  5. Skafið hliðarnar aftur og blandið í 30 sekúndur.
  6. Hellið appelsínusafanum út í, ásamt döðlunum og blandið áfram í um 1 mínútu eða þangað til cashewblandan er orðin mjúk.
  7. Bætið banananum út í og blandið áfram í um 10 sekúndur eða þangað til blandan er silkimjúk.
  8. Hellið ísnum í konfektmót úr sílikoni ef þið eigið svoleiðis (svo að þið fáið litla bita). Frystið í um 3-4 tíma
  9. Ef þið eigið ekki sílíkonmót, færið ísinn þá yfir í ísvél í 30 mínútur. Setjið svo ísinn í plastbox og inn í frysti.
  10. Ef ekki er notuð ísvél eða sílikonmót má frysta ísinn í plastboxi og hræra í ísnum á um 30 mínútna fresti í um 3-4 tíma. Áður en ísinn harðnar alveg er best að skafa litlar kúlur með melónuskeið. Setjið kúlurnar í box og frystið helst yfir nótt eða þangað til kúlurnar eru grjótharðar.
  11. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði. (Setjið svolítið vatn í lítinn pott. Setjið skál ofan á pott þannig að skálin sitji á brúnunum. Setjið súkkulaðið ofan í skálina og bræðið yfir vægum hita). Gætið þess að ofhita ekki súkkulaðið og það má alls ekki fara dropi af vatni ofan í skálina.
  12. Takið súkkulaðið af hitanum og látið það kólna í 5 mínútur.
  13. Takið ískúlurnar/ískonfektið úr frystinum (eina í einu) og dýfið með skeið í súkkulaðið eða þekið hverja kúlu með súkkulaði (hellið með teskeið yfir).
  14. Látið storkna á bökunarpappír í nokkrar mínútur og setjið svo aftur inn í frysti.
  15. Áður en ískonfektið er borðað þarf að láta það þiðna í um 5-10 mínútur.

Gott að hafa í huga

  • Það má dýfa kúlunum t.d. í kókosmjöl eða smátt saxaðar hnetur áður en súkkulaðið harðnar alveg.
  • Nota má hvaða ís sem er inn í konfektið en mikilvægt er að hann sé gaddfrosinn áður en súkkulaðið fer utan um hann.
  • Nota má carob eða hvítt súkkulaði í staðinn fyrir súkkulaði.
  • Nota má hlynsíróp í stað agavesíróps.
  • Nota má macadamia hnetur í staðinn fyrir cashewhnetur.

Endilega splæsið í like á Facebook síðu CafeSigrúnar

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here