Íslensk kona farin að þurfa að stela sér til matar

Þessi saga var sett inn á Facebook síðu Hagsmunasamtaka heimilanna.

Ég talaði nýlega við konu sem sagði mér að hún þyrfti að játa svolítið fyrir mér.

Þetta er kona að komast á miðjan aldur og á hún tvö stálpuð börn. Hún hefur alltaf verið mjög skynsöm í fjármálum og hef ég alltaf dáðst að henni fyrir það og oft ekki skilið hvernig hún fer að. En svo kom að hún réð ekki við að greiða af stökkbreyttum verðtryggðum lánum, réð ekki við að reka bíl sem hún átti skuldlausann og réð yfir höfuð ekki við að halda heimili.

Hún var heppin að geta selt íbúðina á sléttu og hugsaði sem svo að þetta stefndi hvort sem er í óefni og betra að fara út á núlli en í skuld. Skítt með þessi 40% sem hún átti þegar hún keypti íbúðina sína.

Þá tók leigumarkaðurinn við og henni féllust hendur en hún hugsaði sem svo að einhverstaðar þyrfti hún að búa með börnin en þau eru bæði í framhaldsskóla. Og hún væri þó laus við allan rekstrarkostnað íbúðarinnar fyrir utan að greiða hita og rafmagn.
Leiguverð á þriggja herbergja íbúð sem hún loks fann er 160 þúsund krónur. Hún sefur í stofunni en börnin fengu sitt hvort herbergið.

Útborguð laun með öllu eru í kringum 200 þúsund krónur (hún sýndi mér launaseðil, kvittun fyrir greiddum húsaleigubótum o.fl).
Hún telst búa ein þar sem börnin eru eldri en 18 ára og hún vinnur láglaunastörf þar sem hana skortir menntun til að sinna störfum sem gætu ef til vill gefið af sér hærri laun. Hún hefur því í kringum 40 þúsund til að lifa af mánuðinn en hún segir að margir hafi það verra en hún.

Börnin hennar vinna með skóla og sjá um að fjármagna tómstundir sínar sjálf og hluta af kostnaði við skóla. Þessari konu líður illa yfir því að geta ekki hjálpað þeim meira en raun ber og því miður hefur faðir þeirra heldur ekki haft tök á að hjálpa þeim eins og hann vildi.

Játning hennar er sú að hún á það til að stela sér til matar þegar hana langar að gera vel við fjölskylduna. Hún kaupir fyrir ákveðna upphæð í senn en stelur fyrir tvöfalt þá upphæð – stundum fyrir um 10 þúsund krónur í hvert skipti. Henni reiknast til að hún steli fyrir um 50 þúsund krónur á mánuði. Hún segist vera með nagandi samviskubit í hvert skipti – sér liði oft eins og stórglæpamanni.
Ég var hugsi eftir þessa játningu og spurði sjálfan mig hvort fleiri væru að stela sér til matar séu önnur úrræði ekki í boði (og jú, þessi kona hefur staðið í biðröð eftir mat með misjöfnum árangri).

Mér finnst þetta samt sem áður svolítið lýsandi dæmi um það hvernig sumir eru orðnir það örvæntingarfullir að það verði að stela – strangheiðarlegt fólk að upplagi eins og þessi kona.

Það jákvæða er að þessi kona lifir heilbrigðu lífi – fyrir utan nagandi samviskubit sem getur jú valdið andlegum heilsubresti til lengri tíma og jafnvel gæti hún átt á hættu að verða handtekin fyrir stuld og ekki bætir það andlega líðan.
Þessi kona er að festast í gildru sem eflaust margir eru fastir í nú þegar. Fólk eins og þessi kona skilur ekki að mánaðarlaun sumra skuli hækka um sem nemur rúmlega mánaðarlaunum hennar. Hún skilur að það sé nauðsynlegt að greiða góð laun fyrir hæfa stjórnendur en hún skilur ekki af hverju sumir fái launin sín nánast í áskrift.

Er heildarmyndin ekki orðin alveg rammskökk?

SHARE