Jóladagatal fyrir alla fjölskylduna

Þóra Hrund Guðbrandsdóttir og Erla Björnsdóttir eru á skrifstofu í Austurstræti 12 þar sem þær segja að ríki mikil sköpunargleði og hraði og eru allir að vinna að sýnum verkefnum og/eða fyrirtækjum. Þær stöllur eru að gefa út jóladagatal sem ber einfaldlega heitið „Jólin Okkar“.

Dagatal

„Hugmyndin af dagatalinu kom upp yfir einum góðum kaffibolla á skrifstofunni. Oft fær maður bestu hugmyndirnar í ólíklegustu aðstæðum,“ segir Þóra í spjalli við Hún.is. „Við vorum einmitt báðar að vinna að okkar eigin verkefnum þegar hugmyndin bar upp, en er ég með fyrirtæki sem heitir ReykjavikNow og annað lítið markaðsfyrirtæki sem heitir umtal. Erla var að skila doktorsritgerð sinni í sálfræði ásamt því að reka fyrirtækið Betri Svefn og vera í allskyns verkefnum og var því ekki planið að bæta við sig verkefnum.“

Hugmyndin kom frá Erlu en hún og maðurinn hennar Hálfdán eiga saman 4 stráka sem eiga það sameiginlegt að vera mikil jólabörn. „Þau eru foreldrar sem má taka til fyrirmyndar varðandi ýmsa hluti og þá sérstaklega hvað þau eru dugleg að gera allskonar sniðugt með strákunum sínum. Þau hafa síðustu ár verið að föndra jóladagatal í svipuðum anda og Jólin okkar, og hefur það alltaf slegið algjörlega í gegn og hefur verið það fyrsta sem strákarnir gera þegar þeir vakna á morgnana að kíkja hvað fjölskyldan ætlar að gera saman þann daginn. Skórinn og súkkulaðidagatalið hefur alveg fallið í skuggann á þessum skemmtilegu samverustundum,“ segir Þóra.  Eftir spjallið vorum þær sannfærðar um að Jóladagatal fjölskyldunnar væri eitthvað sem þær yrðu að fá að deila með öðrum þótt tíminn væri ansi naumur: „En stundum verður maður bara að kýla á hlutina,“ segir þessi skapandi kona.

Þetta er fyrsta árið sem þær gefa út Jólin okkar og miðað við þær viðtökur sem þær hafa fengið þá er nokkuð víst að þær munu gera þetta aftur að ári. „Við vonum að þeir sem kaupa dagatalið í ár verði ánægðir og að dagatalið verði að árlegri fjölskylduhefð sem allir geta notið saman,“ segir Þóra.

Hver dagur í dagatalinu felur í sér ákveðna samverustund sem fólk getur aðlagað svolítið eftir eigin þörfum. Það er hægt að gefa sér lengri tíma í hlutina ef aðstæður leyfa, en ef fólk er í kappi við tímann er samt sem áður hægt að eiga þessar gæða samverustundir á styttri tíma. „Við skrifuðum lista með hátt í 100 hugmyndum um samverustundir og völdum síðan úr þær sem hentuðu best með tilliti til fyrirhafnar, staðsetningar og kostnaðar,“ segir Þóra og bætir við: „Við vildum að allir ættu möguleika á að framkvæma hugmyndirnar óháð staðsetningu, aðstæðum og kostnaði. Í dagatalinu er líka talið niður til jólanna og sagt hvaða jólasveinar koma hvern dag þar sem foreldrar eru oft ekki alveg með röðina á hreinu.“

Ein blaðsíða - jóladagatal

Dæmi má nefna um dag úr dagatalinu sem kallast „Jólin í gamladaga“ en þar eru foreldrar hvattir til að segja börnum sínum frá því hvernig jólin voru þegar þau voru börn og hvað hefur breyst. Skoða síðan gamlar fjölskyldumyndir síðan á jólunum, en gaman getur verið að skoða myndir nokkur ár aftur í tímann. Jólaárbítur er líka annar dagur en miðast hann þá á helgidag þar sem fjölskyldan er hvött til að tæma ísskápinn og búa til dýrindis morgunverðastund saman. Síðan eru margar samverustundirnar eitthvað sem flestir gera á einhverjum tímapunkti fyrir jólin en málið er að gera sem mest úr þessum litlu stundum. Dagatalið er líka mjög fallegt og gaman að hafa það hangandi upp á vegg, en dagatalið er í hefðbundinni A4 stærð og er heil blaðsíða fyrir hvern dag sem maður rífur af til að sjá þann næsta.

Boðskapurinn með dagatalinu, segir Þóra, að sé að fólk setji fókusinn á rétta staði, slaki aðeins á og njóti fleiri samverustunda með ástvinum. Það getur verið auðvelt að gleyma sér í jólaösinni þar sem fólk er oft undir meira vinnuálagi. „Þó það hljómi eins og klisja þá tími og athygli það besta sem við gefum öðrum, hvort sem það eru börnunum okkar eða maka. Upphaflega ætluðum við bara að prenta þetta í litlu upplagi þar sem við fengum þessa hugmynd ansi seint og vorum við á síðustu stundu að búa það til. Við höfum þó ákveðið að prenta aðeins stærra upplag en stóð til upphaflega þar sem móttökurnar hafa vægast sagt verið frábærar og er fyrsta upplag að verða uppselt í forsölu. Greinilegt að það eru fleiri sem vilja njóta samverustunda með fjölskyldunni í desember sem er mjög ánægjulegt,“ segir Þóra og bætir við að lokum: „Okkur finnst líka frábært að geta látið gott af okkur leiða í leiðinni, en 10% af ágóða sölunnar rennur til Fjölskylduhjálpar fyrir jólin, enda miklu fleiri fjölskyldur á Íslandi en manni grunar sem eiga um sárt að binda um jólin.“

Við hjá Hún.is ásamt þeim stöllum ætlum að gefa nokkrum heppnum lesendum eintak af jóladagatalinu. Ef þú vilt eiga kost á því að fá dagatal skaltu skrifa „Jólin Okkar“ hér fyrir neðan í athugasemd. 

SHARE