Jólaminningar – úr ömmuhorni

Amma, hvernig voru jólin hjá ykkur þegar þú varst stelpa?

Hvar á ég nú að byrja? Á ég að byrja á hreingerningunni fyrir jólin eða segja frá því hvernig mamma sat við að sauma á okkur jólakjólana? Eða viltu heyra frá því hvernig við tókum  öll þátt í að baka fyrir jólin og hvað var bakað?

Það gæti verið gaman að heyra frá þessu öllu. Stundum finnst mér að þú sért aftan úr miðöldum! Það er svo margt öðruvísi sem þú segir mér frá en það sem er í dag.

Satt segirðu. Ég held ég byrji bara á að segja þér frá jólaskipinu. Það  kom nefnilega með jólaeplin og ilmurinn barst út um miðbæinn kringum höfnina. Pabbi vann við höfnina svo að við fylgdumst vel með hvenær skipið  var lagst að bryggju og þá fengum við að fara niður að höfn til að finna lyktina.   Við stóðum og störðum á mennina sem unnu við að hífa kassana í netum upp úr lestinni og koma þeim fyrir á vörubílum sem svo óku með þennan dýrðarfarm í verslanirnar. Stundum gáfu karlarnir okkur epli- hvílík hamingja!

Á sumum eplunum var gullmiði sem stóð á delicious- Washington. Pabbi sagði mér að þessi epli væru frá Ameríku og þau væru best. Þá þegar var ég ákveðin í að fara til þessa lands þar sem svona góð epli uxu. Seinna koma svo reyndar fleira til sem olli því að ég fór þangað til langdvalar!

Og nú, mín kæra eru epli í boði allan ársins hring. En ég finn ekki  lengur þessa dýrlegu eplalykt sem ég var að segja þér af.

Og þá er komið að jólafötunum á okkur krakkana, kjólum og jólaskó á okkur systurnar og föt á bróður minn. Annað hvort saumuðu konur sjálfar á börnin sín eða þær fengu saumakonur til þess. Í nóvember byrjaði  mamma að leita að efni  í sparikjólana. Ég veit að þú og fólk á þínum aldri hafið engar forsendur til að skilja hvað það gat verið erfitt að finna þó ekki væri nema efni í sparikjól. Vörurnar voru einfaldlega ekki til í landinu. En alltaf tókst þetta einhvern veginn og ég man eftir ýmsum kjólum sem ég fékk. Sérstaklega man ég eftir grænköflóttum kjól úr tafti (silkiefni) sem mamma saumaði á mig með hringskornu pilsi og flauelsbandi  sem var bundið um mittið. Ég gat varla gengið, mér fannst ég svo fín. Og einhvern veginn tókst pabba að fá á okkur svarta lakkskó með bandi um ökklann.  Þetta voru alvöru spariföt!

Á þessum árum voru svokölluð matrósuföt það alfínasta sem hægt var að klæða unga drengi í. Við höfðum eindregna skoðun á því  að bróðir okkar ætti endilega að fá matrósuföt og það var af tveim ástæðum. Okkur langaði til að bróðir okkar væri mjög fínn og svo voru þessi föt saumuð hjá fyrirtæki sem hét Nonni (á Vesturgötu) og bróðir minn heitir Jón, kallaður Nonni og við héldum að fötin hétu í höfuðið á honum. Nema hann fékk matrósuföt og var farið með hann til ljósmyndara til að taka af honum mynd, svona fínum og fallegum.

Amma mun segja okkur frá ýmsum hlutum sem voru öðruvísi í gamla daga. Við munum fá að heyra ýmislegt áhugavert úr ömmuhorni í desember.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here