Jólin hér, jólin þar, jólin allsstaðar

Ég elska jólin. Jólaljósin, jólatónlistin, jólamaturinn, jólasmákökurnar, ég elska þetta allt. Ég hef þetta frá pabba, hann er bóndi og honum nægir ekki að skreyta allt íbúðarhúsið að utan, heldur skreytir hann líka fjárhúsin og eina af dráttarvélunum. Já, það eru ekki margir eins og pabbi. En eitt af því sem ég hreinlega dýrka varðandi jólin er allt jólaföndrið og jólaundirbúningurinn. Í þessari færslu þá ætla ég að koma með nokkrar auðveldar jólahugmyndir, sem eru það auðveldar að það þarf ekki heilan pistil fyrir þær, en þær eiga samt fullt erindi á netið.

 

Við skulum bara viðurkenna það, gjafapokar eru fullkomin leið fyrir þessar gjafir sem eru erfiðar í laginu innpökkunarlega séð. En mér finnst oft vanta eitthvað á pokana, einhverja svona vá-tilfinningu. Þannig að ég sprayjaði nokkrar klemmur svartar í stíl við pokana sem ég var með og límdi svo skraut á klemmurnar. Mjög flott leið til að halda pokanum lokuðum (fyrir þessa extra forvitnu), klemmuna og pokann hægt að endurnýta og pokinn algjörlega kominn með vá-tilfinninguna.

 

Ég er algjörlega fallin fyrir þessum plast sælgætisstöfum. Ég ákvað því að leyfa þeim að vera með við afgangadagsborðhaldið. Ég klippti spottann af þeim og límdi svo 3 þeirra saman, límdi skraut á endann á þeim og bjó til miða með nöfnunum okkar. Auðveldara getur þetta ekki verið. Við erum bara 4 í heimili þannig að tæknilega séð þurfum við ekki sætavísa, en hey, þeir eru bara svo krúttlegir.

 

Ég ætla ekki að eigna mér þessa hugmynd, hún er komin af netinu. Mér aftur á móti fannst hún bara svo sæt þannig að ég ákvað að endurgera hana. 3 rammar, borði, stafirnir JÓL og smá skraut. Stafnirnir málaðir, glerið og bakið fjarl. af römunum, rammarnir og stafirnir límdir á borðann, smá skraut og málið dautt.

 

SHARE