Karlmannsleit – „Má ég sofa hjá vinkonu þinni?“

„Kvenmannsgrey í karlaleit keyrandi ofan úr sveit, ofan úr sveit í æstri karlmannsleit“

Það er ekki að undra að Ríó Tríó menn skildu syngja um karlmann í konuleit, vegna þess að ef að þeir hefðu sungið um konu i karlmannsleit hefði það verið efni í heila plötu en ekki bara einn hittara, enda eru konur víst mun erfiðara og flóknara fyrirbæri en karlmenn.

Að vera einhleyp kona á besta aldri í dag er ekkert mál, en að vera einhleyp kona sem langar að finna sér mann til að verja ævinni með er talsvert mál, hellings vinna og efni í heila ritröð. Ég er einmitt kona á besta aldri, rétt skriðin yfir fertugt og búin að vera einhleyp í rúm 4 ár. Á þeim tíma hef ég kynnst og talað við heilan haug af karlmönnum og má kannski bera fjöldann saman við lítið þorp á Íslandi, enda konan ófeimin og nóg til af einhleypum mönnum. Þá má finna allsstaðar: í gegnum vinnu, áhugamál, á djamminu eða á þeim aragrúa deitsíða sem netið býður upp á. Þeir sem að ég hef hitt hafa þó ekki náð þeim fjölda að geta stofnað fótboltalið.

Flestar vinkonur mínar eru líka einhleypar og einnig í leit af karlmanni, því hver vill eldast einn og verja ævinni einn? Viðurkenndu það: við viljum öll finna sálufélagann okkar, hinn helminginn, þennan sem elskar okkur og virðir, er besti vinurinn og allur pakkinn, þessi maður sem rauðu ástarsögurnar galdra fram á 180 bls. með litlum tilþrifum og sungið er um í fjölda vinsælla dægurlagatexta. En af hverju er þessi leit þá svona erfið?

Skyldi það vera vegna þess að þessi eini sanni bara kann ekki að spyrja til vegar, er ekki fæddur enn eða hreinlega sé bara þegar til staðar í lífi mínu? (Athuga með tíma hjá augnlækni!). Eða skyldi það vera vegna þess að ég, þessi einhleypa, er bara of kröfuhörð, erfið eða ómöguleg?

Þó að leitin hafi verið að nokkru leyti þyrnum stráð þá má alltaf brosa að öllu eftir og jafnvel skellihlæja að því, eins og t.d.

 

1) Ég fór út á lífið rétt fyrir jól með vinkonu minni. Við sátum á Dubliners og fengum okkur sitt hvorn bjórinn þegar kunningi minn sem ég hafði hitt tvisvar áður  kom til okkar, heilsaði og bar upp spurninguna: Viltu giftast mér? Ég hváði og spurði: af hverju? Jú þú lítur út fyrir að vera góður kvenkostur. Síðan kynnti hann manninn sem stóð við hliðina á honum sem föður sinn. Bónorðið var afþakkað með þökkum, enda alltaf betra að kynnast áður en maður stígur þetta skref.

2) Ég deitaði einn sem var ekki í neinum vandræðum með að losa brjóstahaldarann með annarri hendi. Þegar ég spurði hann af hverju hann væri svona flinkur þá roðnaði hann aðeins og sagðist hafa æft sig. Núnú svona margar? Nei ég var einusinni á sjó á frystitogara, ég og vinur minn æfðum okkur á kodda á frívöktunum.

3) Ég kynntist einum á Einkamál sem að ég hafði hitt nokkrum sinnum á djamminu áður. Þannig að auðvitað sagði ég bara hæ við hann næst þegar við hittumst. Spjall á facebook byrjaði og virtist áhuginn vera gagnkvæmur, virtist hann meira að segja svo áhugasamur að hann mætti einn í partí til vinkonu minnar þar sem voru eingöngu konur. Spjallaði hann þar við allar og kom svo með á ball, hvarf um leið og hann gekk inn á ballið og sást ekki af honum meira fyrr en sms kom frá honum þegar ballið var búið: „Má ég sofa hjá vinkonu þinni?“

4) Ég fór og hitti annan af Einkamál og eins og stundum gerist þá endaði kvöldið í rúminu. Átti ég í mestu vandræðum með að einbeita mér þar sem að maðurinn rumdi eins og ljón allan tímann, kannski ekki skrýtið fæddur í ljónsmerkinu. Þegar hann var búinn stóð hann á fætur og sagði stundarhátt: „Ég vil ekki að frammistaða mín sé neitt rædd!“….Ég sá enga ástæðu til að neita þeirri ósk hans, við raunar ræddumst aldrei við meira.

 

Æji ég prófa kannski bara einkamál einu sinni enn hugsa ég og skrái mig inn. Spennt sé ég að það er kominn einn póstur síðan ég kíkti síðast inn:

 

Auglýsingin þín hefur enn engan árangur borið. Eigum við að prófa að fjarlægja myndina af þér?

 

SHARE