Ketó mataræði – hvað er það?

Heilsa.is sérhæfir sig í að bjóða vörur sem stuðla að heilsu og velllíðan en eru líka með heimasíðu sem er með allskonar heilsutengdum greinum.

Ketó mataræði er mjög mikið í umræðunni þessa dagana. Eitthvað sem fáir vissu hvað var fyrir 5 árum er nú orðið á allra vörum og jaðrar við tískubylgju.

En hvað er þetta?

Jú, í mjög einfölduðu máli snýst þetta um að borða þannig að líkaminn skipti úr því að nota kolvetni sem orkugjafa yfir í það að nota fitu sem orkugjafa.

Þetta felur í sér að hafa macro næringarefnin (fitu, kolvetni og prótín) í ca. þessum hlutföllum:

Kolvetni: 2-5 %

Prótín: 12-20 %

Fita: 75-80 %

Fyrir flesta er þetta gríðarlega mikil breyting á mataræði því að þetta útilokar nánast alla kolvetnaríka fæðu. Allar kornvörur, brauð, kex, pasta, sterkjuríkt grænmeti og flestir ávextir eru t.d. útilokaðir. Til þess að komast í þetta ketó-ástand (ekki rugla við ketoacidosis sem er hættulegt ástand) þarf mataræðið að vera mjög strangt og það býður í raun ekki uppá neitt „svindl“ því líkaminn er fljótur að skipta aftur yfir í kolvetnabrennslu.

Sjá einnig: Miðjarðarhafsmataræðið

Þetta mataræði var upphaflega notað sem meðferð við flogaveiki og seinna hefur það verið prófað við ýmsu öðru s.s. til að halda sykursýki og jafnvel krabbameini í skefjum. Margt bendir til þess að ketó geti haft áhrif á framgang sumra krabbameina og virkað vel samhliða lyfja- og geislameðferð. Fyrir þessu liggja þó enn engar óyggjandi rannsóknir eða sannanir en þó eru margar frumrannsóknir sem lofa góðu og auðvitað eru til ótal reynslusögur einstaklinga sem hafa notað ketó með góðum árangri.

Flestir eru þó líklega að nota þetta til að léttast, brenna fitu af líkamanum. Það virkar oft mjög vel og hratt en fólk lendir oft í vandræðum með þetta mataræði til lengri tíma litið.

Ástæðurnar geta t.d. verið:

  • Fólk fær leið á mataræðinu
  • Mataræðið verður of einhæft
  • Erfitt að viðhalda því

Þetta er frekar strangt mataræði og hættan með slíkt er alltaf sú að fólk springi á limminu einn daginn og raði í sig kolvetnum sem aldrei fyrr. Það er auðvelt að detta aftur í sama farið og kílóin koma hratt til baka þegar fólk hættir á ketó.

Mér persónulega finnst skynsamlegra að breyta mataræðinu frekar á þann hátt sem auðvelt er að viðhalda ævina á enda. Þar sem er pláss fyrir „svindl“ af og til án þess að allt fari í kerfi. Að breyta mataræði er að breyta hugarfari, ekki að fara á eitthvað ákveðið mataræði í ákveðinn tíma og halda að það breyti einhverju til frambúðar.

Sjá einnig: Einstaklingsbundið mataræði

Ég skil vel að fólk sem glímir við ákveðna sjúkdóma eða kvilla geri ketó að lífsstíl en fyrir meðal Jón og Gunnu er best að íhuga málið vel. Ertu að fara á ketó með það að hugarfari að breyta varanlega um lífsstíl? Til að bæta heilsuna til langframa? Eða ertu að fara á ketó til að missa 10 kíló fyrir sumarið?

Ég mæli með því að kynna sér málið vel og/eða fá aðstoð frá ráðgjafa ef þú ætlar að prófa.

Athugið að Ketó er ekki það sama og Paleo eða steinaldarmataræði. Paleo er mun fjölbreyttara og inniheldur meiri kolvetni þó þau séu takmörkuð mikið. Paleo kemur þér ekki í keto ástand en getur verið mjög hollt og næringarríkt ef þú gerir það rétt. Þú þarft heldur ekki að vera 100% paleo til að ná árangri og það er mun auðveldara að gera það að varanlegri lífsstílsbreytingu en ketó.

 

Heilsa á Facebook

 

SHARE