Klara fékk flogakast vegna neyslu á orkudrykkjum

Klara Guðmundsdóttir er 38 ára gömul, einstæð móðir, sem starfar á hárgreiðslustofu í Kópavogi. Klara hefur í mörgu að snúast dagsdaglega eins og flestar einstæður mæður. Hún vaknar á morgnana og græjar morgunmat fyrir sig og son sinn sem er 3 ára, kemur sér í vinnuna og litla drengnum á leikskóla. Það sem Klara gerði mikið af, var að drekka orkudrykki. Hún hætti að drekka áfengi í janúar 2019 og eftir það fór hún að drekka meira af orkudrykkjum Hún segist hafa tekið einn á morgnana, tvo yfir daginn og jafnvel einn að kvöldi, allt að 4-5 drykki á dag.

Þann 22. júní síðastliðinn vöknuðu mæðginin eins og vant var. Þau borðuðu morgunmat og svo sagði Klara við son sinn að nú skildu þau fara í þvottahúsið að þvo leikskólafötin hans. „Ég fann fyrir svona einhverskonar sælutilfinningu, sem mér var seinna sagt að væri fyrirboði þess að flog væri í vændum og dett svo út. Ég man ekkert meira fyrr en ég vakna við að sonur minn grætur og er að reyna að vekja mig þar sem ég ligg á gólfinu. Þegar ég stend upp finn ég að ég er rennandi blaut á milli fótanna en þá hef ég misst þvag, sem er algengt þegar fólk fær flog,“ segir Klara í samtali við Hún.is. „Ég var svakalega vönkuð og ofsalega hrædd. Bróðir minn kom og skutlaði mér á bráðamótttökuna og ég var lögð inn.“

Klara segist hafa verið frekar mikið ringluð og segist ekki einu sinni hafa haft rænu á að skipta um buxur heldur hafi farið beint á spítalann. Þegar hún hafði verið lögð inn var hún send í allskonar rannsóknir, þar á meðal heilaskanna og ómskoðun á hjartanu. Hún lá inni á spítala í sólarhring til að hægt væri að athuga hvað gæti valdið þessu. Það var niðurstaðan að Klara hefði fengið flogakast vegna orkudrykkjaneyslu.

Sjá einnig: Hann drakk ORKUDRYKK á hverjum degi og þetta gerðist!

„Ég má ekki keyra í hálft ár, má ekki baða strákinn og helst ekki fara í sturtu ein. Mér var ráðlagt að trappa niður neyslu á orkudrykkjunum en ég hætti bara alveg þarna. Ég fékk fráhvörf sem lýstu sér þannig að ég fékk brjálaðan hausverk og svo drakk ég endalaust mikið vatn. Þessi tiltekni orkudrykkur er vatnslosandi svo það var eins og ég væri að drekka vökva fyrir allan þann tíma sem ég hafði verið að nota drykkinn,“ segir Klara. Hún segir okkur líka að ráðlagður hámarksskammtur af koffeini á dag sé um 200 mg en ein dós af þessum drykk sem hún var að drekka hafi innihaldið um 180 mg.

Við vinnslu þessa viðtals fórum við á stúfana og fundum meðal annars þessa síðu þar sem er reiknivél sem mælir út hversu mikið koffein þú ættir að fá miðað við þyngd þína. Einnig eru góðar upplýsingar um koffein og koffeininntöku.

Klara hefur ekki mátt keyra bíl eftir flogakastið og þarf að ganga um 6 km á dag til að fara með son sinn á leikskólann og fara í vinnuna og til baka aftur. Hún má ekki baða son sinn ein, eða fara í sturtu ein, svo þetta hefur auðvitað haft afleiðingar á daglegt líf. Hún sá umfjöllun í Kastljósi á dögunum og ákvað þá að hún vildi deila reynslu sinni með öðrum. „Það er alltof mikið af krökkum að nota orkudrykki og þeir vita ekki hvað þeir eru að setja ofan í sig. Mér finnst í rauninni að orkudrykkir ættu að vera seldir í ríkinu ásamt áfenginu og ekki vera jafn aðgengilegt fyrir unga krakka og það er í dag. Ég vil bara að saga mín verði til þess að hjálpa öðrum og vonandi til að koma í veg fyrir að fleiri lendi í þessu sama.“

SHARE