Konur og þeirra hjartans mál

Ekki er víst að íslenskar konur líti á kransæðasjúkdóm sem líklegan skaðvald í lífi sínu en þó veldur hann dauða 18–19 % kvenna á ári hverju. Kransæðasjúkdómur þróast á löngum tíma og þegar kransæðar, sem bera súrefnisríkt blóð til hjartans, þrengjast gefur sjúkdómurinn einkenni.

 

Hefðbundin einkenni kransæðasjúkdóms:

  • Þyngsl eða verkur fyrir brjósti sem leiðir út í vinstri handlegg og/eða upp í háls sem kemur við áreynslu og hverfur í hvíld.

 

Önnur einkenni:

  • Þyngsl eða verkir annars staðar í efri hluta líkamans, hægri handlegg, hálsi, kjálka eða aftur í bak
  • Andþyngsli
  • Ógleði eða velgja
  • Kaldur sviti
  • Svimatilfinning

 

Einkenni kransæðastíflu

  • Sömu einkenni standa lengur og sjúklingur er meðtekinn af veikindum sínum.

 

Fyrsta greining á kransæðasjúkdómi styðst við lýsingu á einkennum, hjartalínuriti í hvíld, etv. áreynsluprófi og fleiri inngripum.

 

Kynjamunur

Kransæðasjúkdómur er einn þeirra sjúkdóma sem hafa verið í forgrunni þegar rætt er um kynjamun í heilsu út frá líffræðilegum og félagslegum þáttum. Frá líffræðinni séð er mynstur í sjúkdómatíðni eftir aldri ólíkt milli kynja. Greiningaraðferðir sem hingað til hafa verið mest notaðar eru áreiðanlegri fyrir karlmenn og eldri konur frekar en þær yngri. Nýrri rannsóknir benda til að hjá yngri konum geti þurft að greina á milli brjóstverkja sem orsakast af hefðbundnum kransæðasjúkdómi, sjúkdómi í smærri æðum hjartans eða af samdrætti í slagæðum. Horfur kvenna sem hafa einkenni án þess að vera með hefðbundinn kransæðasjúkdóm hafa reynst nokkuð góðar en bættar greiningaraðferðir munu styðja rannsóknir á þessu sviði enn frekar.

 

Við þróun lyfja og meðferðarúrræða er þátttaka kvenna nú æ oftar tryggð en áður og er það vel því að næmi aðferða, verkunarmáti og hæfilegar skammtastærðir lyfja hafa reynst breytilegar eftir kyni. Þá eru hjörtu kvenna minni og æðarnar sömuleiðis, sem gerir kransæðamyndatökur og inngrip erfiðari í framkvæmd.

 

Félagslegt hlutverk kvenna og áherslur í forvörnum hafa einnig áhrif. Til dæmis fræddu Bandaríkjamenn almenning markvisst um forvarnir og einkenni kransæðasjúkdóms hjá karlmönnum á árunum 1970–1990 og það varð til þess að konur tóku fræðsluna ekki til sín. Þær leituðu seint til læknis ef þær fengu sjálfar brjóstverki og átti þetta beinan þátt í að horfur þeirra voru verri. Nú er lögð áhersla þar í landi á að fræða konur um kransæðasjúkdóm og hvetja þær til að gæta að eigin lífsstíl.

 

Endurskoðun hjartalækninga með hliðsjón af kynjamun var mjög brýn og hafði National Institutes of Health í Bandaríkjunum þar ákveðið frumkvæði og gerði þátttöku kvenna í rannsóknum að skilyrði við styrkveitingar nema sérstök rök mætti færa fyrir öðru. Nú er því gróska í rannsóknum á þessu sviði og mun það skila sér í bættri heilsu kvenna.

 

Lilja Sigrún Jónsdóttir læknir

Fróðlegir vefir:
www.hjarta.is sem hefur tengla á erlenda vefi, t.d.
http://www.americanheart.org/ undir yfirskriftinni “Go red for women”.
www.hjerteforeningen.dk
http://ww2.heartandstroke.ca

Algengt er að vefirnir hafi sérstakar síður sem fjalla um hjartasjúkdóma kvenna.

 

Forvarnir kvenna

 

Engin ein orsök er fyrir kransæðasjúkdómi, þar koma alltaf til margir samverkandi þættir, svokallaðir áhættuþættir. Hver og ein kona getur minnkað líkurnar á kransæðasjúkdómi og bætt heilsu sína á markvissan hátt með því að:

 

  • reykja ekki og dvelja í reyklausu umhverfi
  • láta mæla blóðþrýsting reglulega
  • borða heilsusamlegt og fjölbreytt fæði
  • halda kjörþyngd
  • stunda reglulega hreyfingu

Fleiri heilsutengdar greinar má finna á doktor.is logo

SHARE