Krækiberjakrásir – saft, hlaup, líkjör

Nú fer að halla að hausti og tími uppskerunnar genginn í garð. Hringrásin heldur áfram þrátt fyrir derring í náttúruöflunum og berjaspretta er góð víðs vegar um landið. Uppskriftirnar af saftinni og hlaupinu koma úr mínum fórum en líkkjörinn fann ég á Veraldarvefnum HÉR.  Góð hugmynd er að frysta hluta af afrakstri berjatínslunnar og skipta niður í litla frystipoka til að eiga í morgunhristinginn.

Krækiberjasaft

1 lítri krækiberjasafi
1 sítróna kreist
150-200 gr hrásykur má líka nota hvítan sykur

Byrjað er á að hreinsa krækiberin og skola áður en þau eru pressuð annað hvort í hakkavél eða safapressu. Við þessa meðhöndlun fáið þið ljómandi hrásaft sem er stútfull að vítamínum og andoxunarefnum.

 Mér finnst ágætt að frysta hrásaftina í ½ l plastflöskum sérstaklega ef um mikið magn er að ræða og eiga til góða yfir veturinn. Þegar grípa á til saftarinnar úr frystinum er annaðhvort hægt að blanda saman við hana sítrónu og sykri eða sleppa því, en þá geymist flaskan líka skemur en það kemur ekki að sök ef um ½ l er að ræða.

Annars er sítrónusafa og sykri blandað saman við hrásaftina og hitað að suðu, eða þar til sykurinn leysist upp. Látið kólna aðeins áður en sett er á sótthreinsaðar flöskur. Ef ykkur blöskrar sykurmagnið þá getið þið minnkað það en þá minnkar líka geymsluþolið. Best er saftin óblönduð en tilbreyting getur verið að blanda henni saman við sódavatn. Tappað á sótthreinsaðar glerflöskur.

*NB
Til að fullnýta krækiberin er sniðugt að þurrka hratið og nota í te sem virkar stemmandi við magakveisu. Eða sjóða hratið í vatni og sía síðan frá og búa þannig til enn meiri saft í samræmi við áðurnefnda uppskrift.

Krækiberjahlaup

1 lítri hrár krækiberjasafi
600 gr hrásykur eða hvítur sykur
1 sítróna
1 bréf melatin í gulum pakkningum

Byrjað er á að hreinsa krækiberin og skola áður en þau eru pressuð annað hvort í hakkavél eða safapressu. Hellið safanum í pott ásamt sykri og sítrónusafa. Bætið melatini útí og hitið að suðu eða alveg þangað til sykurinn hefur leyst upp. Mmikilvægt er að hræra vel í á meðan til að forðast kekki. Tappað á sótthreinsaðar krukkur og loka strax.

Krækiberjalíkjör
Tvær 750 ml flöskur

500 gr krækiber
2 dl hlynsíróp
2-3 dl hrásykur  eða hvítur sykur
1 flaska vodki (730 ml)

Byrjað er á að hreinsa krækiberin og skola áður en þau eru hökkuð annaðhvort í matvinnsluvél eða hakkara. Öll hráefni nema vodkinn eru sett í pott og hituð varlega eða þangað til sykurinn hefur leyst alveg upp. Potturinn tekinn af hellunni og vodkanum hellt út í. Að lokum er lögurinn sigtaður, helltur á sótthreinsaðar flöskur og látinn standa í 2-3 mánuði áður en hann er borinn fram.

Geymsluþol 1 ár.

SHARE