Kynlíf eftir fæðingu

Eftir fæðinguna eiga sér stað miklar breytingar í líkama konunnar. Sum þeirra hormóna, sem hafa haft mikið að segja á meðgöngunni fara í sitt eðlilega horf, en framleiðsla annarra hormóna eykst vegna mjólkurframleiðslunnar. Legið dregst saman og blóð og slím hreinsast út. Ef spöngin hefur rifnað eða verið klippt (spangarskurður) grær hún yfirleitt fljótlega en getur verið aum dálítinn tíma eftir fæðinguna. Álagið og viðbrigðin geta valdið geðsveiflum hjá konum og jafnvel þunglyndi. Allt í einu fer mikill tími í að annast barnið, og ef einnig eru eldri systkyni getur vinnuálagið orðið býsna mikið. Allar þessar breytingar geta haft í för með sér að sumar konur verða afskaplega þreyttar eftir fæðinguna. Á sama tíma er oft ekki mjög svefnsamt hjá foreldrunum og allt þetta hefur áhrif á samband þeirra.

Til að góður andi ríki á heimilinu verðið þið að byggja samband ykkar á trausti og gagnkvæmri virðingu. Það er mikilvægt fyrir sambandið að þið gefið ykkur tíma fyrir ykkur sjálf. Til dæmis er góð hugmynd að fara reglulega út saman án barnanna. Þá gefst ykkur tækifæri til að tala saman óáreitt sem fullorðið fólk. Opin og hreinskilin samskipti auðvelda ykkur að takast á við þau verkefni sem fylgja foreldrahlutverkinu.

Hvenær getið þið haft samfarir eftir fæðingu?

Það er mjög mismunandi hvenær pör fara að hafa samfarir eftir fæðingu. Máli skiptir hvort spöngin hefur rifnað eða verið klippt eða önnur sár eða rifur myndast. Það skiptir einnig máli hve vel sárin gróa. Á meðan á hreinsuninni stendur (fyrstu 3 – 6 vikurnar eftir fæðingu) er hætta á að bakteríur berist upp í legið og valdi þar sýkingu. Ef þið ákveðið að hafa samfarir á þessu tímabili er því best að nota smokk til öryggis.

Eftir u.þ.b. 6-8 vikur hefur legið oftast dregist vel saman og er orðið nærri jafn lítið og það var áður en meðgangan hófst. Legið er þó alltaf ívið stærra eftir fæðingu en áður en fyrsta þungun varð.

Hvenær vaknar áhugi á kynlífi aftur eftir fæðingu?

Mjög misjafnt er hvenær kynlífslöngun vaknar eftir fæðingu. Það er algengt að konan hafi ekki mikinn áhuga á kynlífi fyrst eftir fæðinguna. Oftast er hún þreytt, aum í botni og brjóstum og svitnar við minnstu áreynslu. Margar konur verkjar enn fremur í grindina í nokkurn tíma eftir fæðinguna ef þær hafa verið með grindarlos. Ef fæðingin hefur auk þess verið erfið getur konan óttast að verða þunguð aftur.

Margir karlar hafa einnig lítinn áhuga á kynlífi fyrst eftir fæðingu. Þeir upplifa líka þreytu sem fylgir því að gefa sig í náin kynni við nýja einstaklinginn, vakna á nóttinni og sinna heimilisstörfum (vonandi) og ef þeir hafa horft upp á erfiða fæðingu getur hugsunin um nýja þungun virkað truflandi á kynlöngun.

Það getur liðið heilt ár áður en kynlífið er orðið eins og fyrir fæðingu.

Stundum reynir þetta mikið á samband foreldranna, en ef þið sýnið hvort öðru skilning, þolinmæði og tillitssemi er von til að kynlífið batni eftir því sem frá líður.

Hvaða tilfinningar geta vaknað hjá foreldrum?

Sumum konum líður illa eftir fæðinguna. Þær geta verið þreyttar og niðurdregnar. Oft svitna þær mikið og sumum líður illa vegna hreinsunarinnar. Brjóstin geta verið stór, aum og þrútin og mjólkin lekur við minnsta áreiti. Sumum konum gengur líka illa að losna við aukakílóin sem komu á meðgöngunni. Öðrum konum líður framúrskarandi vel. Þær eru ánægðar með stór og þrýstin brjóstin og njóta þess að gefa brjóst. Þær finna að líkaminn fer í samt lag og finnst þær vera aðlaðandi og hafa löngun í kynlíf. Feðurnir finna líka fyrir ýmsum tilfinningum. Sumum karlmönnum finnst konan ýta þeim frá sér. Þeim finnst öll athygli konunnar beinast að barninu. Þeim finnst þeim ofaukið og verða jafnvel afbrýðisamir.

Í öðrum fjölskyldum hjálpast foreldrarnir að við umönnun barnsins og hagnýt verkefni. Maðurinn styður konuna í brjóstagjöfinni og sumir karlmenn fá aukna virðingu fyrir líkama konunnar eftir að kynnast þeim breytingum sem fylgja þunguninni og fæðingunni. Þeir feður eiga auðveldara með að tjá konunni tilfinningar sínar og taka tillit til hennar.

Hvernig á að bera sig að þegar byrjað er að stunda kynlíf á ný eftir fæðingu?

Oft kemur kynlífið af sjálfu sér í framhaldi af ánægjulegri samverustund þegar báðir aðilar eru tilbúnir. Það er um að gera að fara rólega af stað. Mikilvægt er að konan fái að ráða ferðinni og að karlmaðurinn sé gætinn og tillitssamur. Það er góð hugmynd að velja þann tíma sólarhringsins þegar þið eruð minnst þreytt. Samt er ekki nóg að vera vel úthvíld, þið þurfið líka næði. Það kannast margir við að þegar foreldrarnir ætla að fara að láta vel að hvort öðru vaknar barnið. Það er eins og það skynji að athygli foreldranna beinist frá því. Þess vegna er gott að gefa barninu brjóst í ró og næði svo það sé örugglega mett og ánægt og vakni ekki alveg strax. Þá lekur heldur ekki eins mikið &uacute ;r brjóstum konunnar við atlotin. Því er nefnilega þannig varið að þegar konan verður fyrir kynferðislegri örvun losnar hormónið Oxytósín út í blóðrásina eins og við brjóstagjöf og mjólkin byrjar að streyma. Stundum eru brjóstin mjög viðkvæm meðan barnið er á brjósti og því vilja sumar konur ekki að maðurinn snerti þau. Þið verðið í sameiningu að finna hvað hentar ykkur.

Sumar konur eru fremur þurrar í leggöngunum, vegna hormónabreytinga, fyrstu 3 mánuðina. Ef þetta er vandamál er hægt að fá margar tegundir af vatnsleysanlegum smurningskremum í apótekinu eða nota smokka með smurningskremi. Það sem skiptir þó höfuðmáli er að gefa sér góðan tíma í forleik og jafnvel munngælur þar sem munnvatn er náttúrulegt sleipiefni. Fyrstu skiptin, sem þið hafið samfarir getur reynst vel að nota stellingar sem gefa konunni kost á að stýra því hversu djúpt maðurinn fer inn í hana. Henni gæti t.d. líkað vel að setjast ofan á hann. Þannig veldur þungi mannsins heldur ekki þrýstingi á brjóstin.

Kynlíf án samfara?

Margir mánuðir geta liðið áður en aftur kemst á jafnvægi í kynlífinu. Á þeim tíma getur verið ljúft að njóta annarra atlota. Til eru fjölmargar aðferðir við að sýna hvort öðru ást og hlýju. Þið getið talað innilega saman, faðmast og kysst. Þið getið líka

 

Grein frá doktor.is logo
SHARE