Lagði sig í 40 mínútur og missti sjón á öðru auga

Mike Krumholz(21) frá Flórída missti sjón á öðru auga sínu eftir að hafa sofnað með augnlinsurnar í augunum. Það var samt ekki bara út af linsunum sem hann missti sjónina, en það kom meira til. Mike sagði frá reynslu sinni í Daily Star en hann sagðist hafa fengið sér 40 mínútna blund þann 19. desember síðastliðnum og þegar hann vaknaði hafi auga hans verið rautt og bólgið.

„Linsurnar voru að pirra mig og var eins og þær væru fljótandi ofan á augunum mínum. Ég tók þær úr mér og hélt að ekkert myndi gerast meira,“ sagði Mike.

Mike áttaði sig fljótlega á því að óþægindin voru ekki að fara neitt. Hann fór til augnlæknis daginn eftir og var ranglega greindur með Herpes 1. Hann hafði notað linsur í mörg ár og oft sofnað með þær í sér svo hann var ekki að hafa of miklar áhyggjur af þessu.

Ástand hans versnaði hinsvegar bara og í um það bil mánuð þurfti hann að þola að vera með pirring í augunum og sjá allt í móðu. Það kom svo að því að hann dreif sig á spítala. Þar var hann greindur með hornhimnubólgu, sýkingu að völdum Acanthamoeba. Sýkinguna má oftast finna í andrúmslofti, jarðvegi, ryki og vatni og eru flestir með mótefni í öndunarveginum.

Ef sýkingin fer í augun veldur það allskonar einkennum, eins og sársauka í augum og þau verða rauð og bólgin. Augun verða viðkvæm fyrir ljósi, mikil táramyndun og tilfinningu um að alltaf sé eitthvað uppi í auganu. Samkvæmt CDC er meiri hætta á að fólk fái þessa sýkingu ef það notar linsur. Linsurnar eru góður staður fyrir sýkilinn, sérstaklega ef þær eru geymdar og meðhöndlaðar á rangan hátt. Einnig er lélegt hreinlæti og sundlaugarferðir með linsurnar ekki það besta fyrir augun.

Mike varð að fara í aðgerð til að reyna að bjarga auganu en í hans tilfelli var það of seint. Hann sér enga liti með auganu og sér bara gráar og svartar skellur, eða eins og hann kallar það „eins og truflað sjónvarp“.

„Ég get ekki lýst sársaukanum en þetta er versti sársauki í lífi mínu. Stanslaus sársauki. Ég er nokkuð stoltur af sársaukaþoli mínu en ég hef á stundum öskrað úr sársauka. Ég vildi óska að ég væri að ýkja,“ sagði Mike.

Mike getur ekki fengið augnígræðslu og hefur þurft að gera hlé á námi sínu í þessum veikindum. Hann hefur notað þessa reynslu sína og sagt frá þessu á TikTok til þess að fólk, sem notar linsur, sé meðvitað um hættuna sem fylgir því að sofa með þær í augunum.

Heimildir: Medical Daily


SHARE