Langar okkur ekki alltaf að verða heilli?

Það eru ótal leiðir til að lifa betra og innihaldsríkara lífi og við erum mörg hver stöðugt í sjálfsvinnu.
Það sem hefur kennt mér hvað mest um sjálfa mig, og vonandi nýtist það ykkur líka sem eruð tilbúin að skoða ykkur sjálf er þetta:
AÐ SKOÐA SJÁLFA MIG alltaf…skoða það hvort ég hef komið fallega fram, við sjálfa mig og aðra. Ekkert síður mig sjálfa en aðra, það er mikilvægt. Við gerum öll mistök, það er í mannlegu eðli að segja eitthvað eða gera eitthvað sem er ekki í takt við það sem við viljum. Þar á eftir kemur fyrirgefningin gagnvart sjálfri/um þér. Ég veit það allavega að þar sem mér er um munað að koma fallega fram, þá er líðanin ekkert sérstök ef mér verður á.

Hinsvegar hefur mér fundist virkilega gott að skoða það þá, skoða sjálfa mig, viðbrögð mín og framkomu og bæta fyrir brotin og ekki síst, gera betur næst. Og enn og aftur sama hvort það er gagnvart öðrum eða sjálfri mér. Að hafa kjark í að skoða sig á þennan hátt, er viljinn til að gera betur. Og við getum það öll. Ekkert er fallegra en það að einhver biðji einlæglega afsökunar, biðjist fyrirgefningar, það sýnir heilindi í mínum huga og að biðja sjálfa/n sig afsökunar er góð heilun líka.
Og sannarlega hef ég þurft að gera það, síðast ekki fyrir svo all löngu síðan, þar sem mér varð á gagnvart einu af börnunum mínum. Þá var að skoða mig, samþykkja orðinn hlut og tjá mig svo við barnið, ekki hundsa það.


Eins og vinkona okkar allra Sigga Kling segir, ORÐ ERU ÁLÖG! Og við berum mikla ábyrgð með þeim, hvort heldur sem er til að lyfta upp eða draga niður…okkur sjálf eða aðra.
Hvor manneskjan vilt þú vera?


Elskaðu í dag, allt það sem þú ert, þú ert manneskja í stöðugum vexti og þroska.

SHARE