Lífsleiðin

Stundum, þá upplifi ég lífið eins og veg eða leið, og á þessari leið eru mörg sæti, sófar, stólar, púðar og jafnvel bara á jörðin. Ég hef margoft upplifað, á lífsleiðinni, að ég fái mér sæti, ég hef fengið mér sæti á hinum ýmsu stöðum, bæði þægileg og óþægileg sæti. 

Stundum hef ég tekið meðvitaða ákvöðun um að fá mér sæti, en stundum hefur það verið ómeðvitað. Í meðvituðu ákvörðunum mínum um að fá mér sæti, alveg sama hvar eða í hverju, þá hefur yfirleitt verið mun auðveldara að standa upp aftur og halda áfram á lífsleiðinni, vegna þess að ég ákvað að fá mér sæti þá geri ég mér grein fyrir því að ég sit. Það er hinsvegar þegar ég hef sest ómeðvitað sem það getur orðið vandamál, því þá oftar en ekki, gerði ég mér ekki grein fyrir að ég settist og því síður á hvað ég settist. Það kannski sleppur alveg til ef ég settist á þægilegan stól eða í mjúkan sófa, því þá, þegar ég átta mig á því að ég sit, þá er ég búin að hafa það svo gott að ég áttaði mig ekki á að ég sat. það getur hinsvegar verið öllu verra ef ég settist ómeðvitað í óþægilegt sæti eða jafnvel bara á jörðina því þá, oftar en ekki, þegar ég loks átta mig á að ég sit, er mig farið að verkja allstaðar og það er mun erfiðara að standa upp. 

Eins og ég sagði þá er ég búin að setjast í allskonar sæti á lífsleiðinni og erfiðasti parturinn við að uppgvöta að ég hafi ómeðvitað sest niður í óþægilegt sæti, er ekki líkamlegu verkirnir við að reyna að standa upp, heldur tilfinningaumrótið sem fylgir því að fara yfir hversvegna í ósköpunum ég settist í þetta óþægilega sæti, og jafnvel sjálfsásökun yfir því að hafa sest þar og setið í óþægindum á þess að átta mig á því. 

En ég minni mig stanslaust á, á þessari lífsleið minni, að sætin sem ég hef setið í eru það, sem hefur hjálpað mér að verða ég, bæði þau þægilegu sem og þau óþægilegu. Ég minni mig á að öll sæti sem ég hef sest í á lífsleiðinni minni eru til að kenna mér eitthvað og ég á ekki þessi sæti ein, því allir eiga sæti á sínum lífsleiðum og eru það oft svipuð sæti og mín. Ég minni mig stöðugt á að lífsleiðin mín er mín og með mínum vilja tek ég ákvörðun um hvort, hvernig og hvenær ég stend uppúr hverju sæti fyrir sig. Stundum þarf ég bara að taka ákvörðun um að standa upp en stundum þarf ég hreinlega aðstoð, sérstaklega ef ég er búin að sitja í óþægilegu sæti lengi þá viðurkenni ég að ég geti ekki staðið upp ein og óstudd. Og það er það góða við lífsleiðina, ég labba hana ekki ein. Það eru allir hinir sem labba hana með mér sem skipta svo miklu máli. Það er mun auðveldara að standa upp úr óþægilegu sæti og færa sig, þó það sé ekki nema örlítið, í þægilegra sæti með einhvern sér til stuðnings, þangað til ég er tilbúin til að halda áfram með lífsleiðina mína.

Það sem mér finnst gott að hafa ávallt í huga á lífsleiðinni minni er að ef einhverjar aðstæður, eitthvað inní mér eða bara eitthvað sem ég er að upplifa virkar ekki rétt, eða einhver vanlíðan inní mér sem ég næ ekki að skilgreina, þá fylgir mér þessi sætasamlíking og þá get ég skoðað innra með mér hvort ég hafi kannski bara sest í eitthvert óþægilegt sæti og þurfi mögulega bara að standa upp.

Höf. Jóhanna Ingólfsdóttir Nlp-markþjálfi

SHARE