Hátíð meðal álfa og manna haldin í Hafnarfirði á sumarsólstöðum

Litla álfahátíðin verður haldin hátíðleg meðal álfa og manna niðri við gosbrunninn í Hellisgerði, sem er lystigarður Hafnarfjarðar, nk. sunnudag. Þangað eru allir velkomnir og það kostar ekkert inn nema lítið hjartabros.

Ragnhildur Jónsdóttir og fjölskylda hennar, sem reka Álfagarðinn í Hellisgerði, byrjuðu að standa fyrir þessari hátíð í lystigarðinum fyrir nokkrum árum síðan.  Ragnhildur sem er sjáandi hefur undanfarin ár farið með fólk í álfagöngur um garðinn og að hennar sögn er þar heilmikil álfabyggð þar sem stórar og smáar verur búa í sátt og samlyndi við móður jörð.

Á sumarsólstöðum nú um helgina þegar sólin skín sem bjartast á norðurhveli jarðar halda Álfheimar aðra af sínum tveimur aðalhátíðum, sem að sögn Ragnhildar, þeir kalla “Hátíð lífsins” og kemst engin hátíð álfa nálægt þessari í glæsileika. Hin er jólahátíðin þeirra sem haldin er á Vetrarsólstöðum þegar sólin er hvað lægst á lofti.

Margt verður um að vera á Litlu álfahátíðinni, sem verður sett við álfakirkjuna hjá gosbrunninum stundvíslega kl 14:00 á sunnudaginn. Bergljót Arndals mun m.a. flytja frumsamið lag við bænatexta Tamínu álfkonu, en bæn­in er þakk­ar­bæn og tilgangur hennar er að sam­ein­a alla heima; mann­heima, álf­heima og guðheima. Ragnhildur Jónsdóttir segir stuttar álfasögur og hugleiðingar, unglingarnir og Grímuhafarnir Arnór og Óli verða með fullorðinsfræðslu og hláturtaugaþjálfun og að lokum mun hljómsveitin Auður Auðuns spila og skemmta gestum. Álfagarðurinn verður líka opinn þar sem gestir geta gætt sér á huldufólkskaffi og álfate ásamt lífrænu gosi og nasli.

Ekki missa af þessari einstöku upplifun meðal álfa og manna í hinu himneska Hellisgerði.

Hvar: Lystigarðurinn Hellisgerði í Hafnarfirði
Hvenær: Kl 14:00 sunnudaginn 22 júní

 

 

 

 

 

SHARE