Ljósanótt haldin hátíðleg um helgina.

Ljósanótt í Reykjanesbæ býður gestum og gangandi upp á lifandi og skemmtilega menningar- og fjölskylduhátíð nú um helgina. Hinar ýmsu uppákomur verða frá fimmtudegi fram til sunnudags þó hápunktur hátíðarinnar verði flugeldasýning á laugardagskvöldið.

Í rokkbænum sjálfum leikur tónlistin að sjálfsögðu stórt hlutverk og má segja að um tónlistarveislu sé að ræða þar sem fjöldi íslenskra tónlistarmanna stígur á svið. Má þar einna helst nefna; Hjaltalín, KK, Björgvin Halldórsson, Ragnheiði Gröndal, Hljómsveitina Valdimar, Pollapönk ofl. 
Að ógleymdri samkeppni sem allir geta tekið þátt í um Ljósalag hátíðarinnar.

Listamenn bæjarins opna vinnustofur sínar og myndlistar- og hönnunarsýningar verða á víðsvegar um bæinn. Útisviði hefur verið komið fyrir í hjarta bæjarins með tilheyrandi skemmtiatriðum, hægt verður að skoða fornbíla og bifhjól, götuleikhús mun skemmta yngri kynslóðinnni og fyrir golfáhugafólk verður haldið púttmót. Hápunkturinn verður þó á laugardagskvöldinu þegar ljósin verða tendruð á berginu niðri við sjóinn og glæsileg flugeldasýning mun lýsa upp himininn.

Frekari upplýsingar um dagskrá ljósanætur er að finna á ljosanott.is

SHARE