Ljúffengar flatkökur

Á heimasíðunni Allskonar er að finna mjög margar góðar uppskriftir og við rákumst á þessa þarna inni.

Mér finnst alveg nauðsynlegt að gera flatkökur með indverskum eða afrískum mat, eða með súpum og baunaréttum.

Þær eru frábærar með fersku grænmeti skornu í stykki til að dýfa í hummus, góðar með osti eða grænmeti, sem vefjur, sem hádegismatur, meðlæti með kvöldmat eins og baunapottrétti og áfram mætti telja.

Hér er uppskrift af mjög seðjandi flatkökum, þessar eru frekar stórar, eins stórar og pannan þín leyfir og er reiknað með einni köku á mann. Það tekur tæpar 2 klst að gera þessar kökur frá byrjun til enda því deigið hefast í tvennu lagi en það tekur enga stund að grilla kökurnar.

 

Flatkökur f. 4

  • 1 msk kóríanderfræ
  • 1/2 dl vatn
  • 1 1/2 dl hrein jógúrt
  • 1 1/2 tsk þurrger
  • 300 gr hveiti (þú getur notað hvaða mjöl sem þú vilt)
  • 1 msk salt
  • 2-4 msk olía

Ristaðu kóríanderfræin á þurri pönnu við góðan hita í 1-2 mínútur, þar til þau verða gullinbrún. Malaðu þau og settu í pott, í pottinn seturðu vatnið og lætur suðuna koma upp. Slökktu strax undir og taktu pottinn af hellunni.

Settu jógúrtina í skál og bættu gerinu út í. Hrærðu vel saman

Bættu nú kóríandernum og vatninu út í jógúrtið og hrærðu hratt og vel saman.

Því næst seturðu 100gr af hveiti út í jógúrtblönduna og hrærir vel saman, hér getur verið gott að nota hendurnar.
Legðu nú viskustykki yfir skálina og settu hana á hlýjan stað og láttu þetta hefast í 25 mínútur

Eftir 25 mínútur tekurðu deigið og bætir salti, 2 msk af olíu og 200gr af hveitinu saman við og hnoðar vel svo að blandist vel saman. Þetta er sett í skál undir stykki og látið hefast í 1 klst.

Taktu nú deigið úr skálinni og hnoðaðu það létt í 1 mínútu.

Skiptu deiginu í fjóra jafna hluta. Taktu hvern hluta og flettu út í hringlaga köku, jafnstóra og pannan sem þú ætlar að nota til að steikja kökurnar á.

Hitaðu pönnuna við meðalhita og penslaðu þá hlið á kökunni,  sem þú ætlar að láta snúa niður í pönnunni, með olíu. Steiktu kökuna á pönnunni í hálfa til 1 mínútu á hvorri hlið, mundu að pensla kökuna áður en þú snýrð henni. Hér dugar best að nota augun, þú vilt ekki brenna kökurnar en heldur ekki hafa þær hráar. Horfðu eftir fallega brúnum lit á kökunum.

 

_MG_1058

Endilega smellið einu like-i á

SHARE