Lofaði litlu systur buxum

Berglind Ómarsdóttir kom, sá og sigraði í íslensku útgáfu Minute to Win it sem sýnd er á SkjáEinum á fimmtudagskvöldum.  Þátturinn, sem Ingó Veðurguð stýrir af mikilli innlifun, þykir afar skemmtilegur og spennandi og fjölmargir sátu límdir við skjána í síðustu viku og sáu þessa ungu Kópavogsmær rúlla upp sjö þrautum eins og ekkert væri einfaldara og hljóta að launum ýmsan varning að verðmæti 800.000 kr. 

MTWIvinningshafiBerglind fékk varninginn afhentan á dögunum, meðal annars forláta 48” flatskjá frá Heimilistækjum.  Í meðfylgjandi myndbroti má sjá hana klára þrautina sem færði henni skjáinn.  Okkur langaði að vita aðeins meira um þátttöku hennar í þættinum og upplifunina af þátttökunni.

Af hverju ákvaðstu að skrá þig í Minute to win it:

Ég ákvað það eiginlega ekkert. Vinkona mín skráði sig og aðra vinkonu sína sem síðan komst ekki þannig að hún hringdi í mig og ég fór í hennar stað og með henni til að prufa. Við fórum í prufur og það gekk svo vel að ég ákvað að fara í bootcampið/æfingabúðirnar. Vinkona mín hætti svo við þannig að ég endaði ein í þessu. Þær eru ábyggilega ekki alveg sáttar og sjá eftir að hafa hætt við eftir að hafa séð hvað mér gekk vel enda var þetta alveg hrikalega gaman og ég er mjög fegin að hafa tekið þátt.

Hvernig undirbjóstu þig fyrir þáttinn, varstu búin að prófa allar þrautirnar?

Ég var búin að prófa mjög lítið af þeim. Var búin að prófa eitthvað í æfingabúðunum en aðalega æfði ég mig á upptökudeginum en við fengum 4 klst til að prófa þrautir og æfa okkur. Lærði t.d. spilabrúnna bara 30 mín fyrir upptöku áður en ég fór á svið. Var búin að prófa flest eða eitthvað svipað eins og  naglaþrautina og blýantana og var mjög fegin að fá blýantana, enda var ég mjög góð í þeim og vissi að mér myndi ganga vel með þá þraut. Á æfingum var ég búin að ná að grípa mest 24 blýanta en þurfti að gera 16 í þættinum, enda fagnaði ég þegar ég fékk þá þraut.

Var einhver þraut sem kom ekki og þú hefðir viljað fá?

Nei það kom flest sem ég vonaði að kæmi og ég var best í eins og að raða upp í fyrstu þrautinni. Ég var reyndar búin að ná góðum tökum á lyklaþraut sem ekki kom en annar keppandi fékk. Annars voru það bara blýantarnir sem ég vissi að ég var góð í.

Var einhver þraut erfiðari en önnur af þeim sem þú tókst?

Naglarnir voru erfiðir enda var ég mjög stressuð fyrir þá þraut. Maður þarf mikla einbeitingu í naglana og finna út hvað þarf að gera til að það virki og gangi upp. En auðvitað var seinasta þrautin sem ég kláraði ekki erfiðust og datt út vegna. Sumar þrautirnar eru líka spurning um ákveðna heppni eins og t.d. með að kasta borðtenniskúlunum í skálina, ég var bara heppin að mér tókst að klára hana.

Hvaða þraut fannst þér einföldust?

Fyrir mig voru það blýantarnir, fyrstu tvær líka og síðan hoppuþrautin þar sem ég þurfti að hrista boltana út úr kassanum á bakinu á mér. Ef maður þorði að gera sig að fífli og hoppa og hrista sig var hún ekkert mál en kanski ekki allir reiðubúnir að hoppa og láta eins og kjáni með að hrista sig. Mér var bara alveg sama og kláraði hana bara.

Hvernig var að vera upp á sviði fyrir framan fullt af áhorfendum, myndatökuvélar, ljós og vera í sjónvarpi?

Ég var svo stressuð enda aldrei komið í sjónvarp áður. Fengum reyndar prufu og gerðum þraut og töluðum við Ingó, en ég vissi ekkert hvað ég var að segja þegar hann tók viðtal við mig og bullaði bara eitthvað. Fannst mjög skrýtið að sjá mig í sjónvarpinu. Það er mikið stökk að fara í upptöku með allri umgjörðinni frá því að vera bara í rólegheitum að æfa sig í einrúmi.

Hafði salurinn áhrif og fannstu fyrir stuðningi?

Aðalega á milli þrauta og þegar manni mistókst, þá var verið að hvetja á fullu og það var gaman að heyra það. En þegar maður var að einbeita sér að þrautunum heyrði maður ekkert í þeim enda blokkaði maður það bara út líka út af einbeitingu og stressi. Það var líka gott hvað Ingó var að peppa mann upp og hvetja, bæði í þrautunum og á milli þrauta.

Varstu búin að ákveða fyrirfram að hætta á einhverju stigi?

Upprunalega var ég búin að ákveða að hætta ef ég kæmist í Playstation tölvuna. Svo bara getur maður ekki hætt, það var bara ekki valmöguleiki. Mér gekk vel og átti tvö líf eftir og sjónvarp í boði, en svo kemur keppniskapið inn og allir vilja að maður haldi áfram, maður er í sjónvarpi og ég sé ekki eftir því að hafa haldið áfram enda fékk ég sjónvarp að launum.

Á staðnum í öllu stressinu varstu þá meðvituð um hvað þú varst búin að vinna mikið?

Maður fattaði það bara eftir á enda var maður bara að einbeita sér í þrautunum. Þegar þetta var búið og ég komin niður af sviðinu þá kom smá spennufall og maður áttaði sig á því að þetta var ekkert smá mikið. Bensínúttekt frá N1, Hagkaupsúttekt, Smáralindarúttekt, Berlínarferð með WOW, Playstation 4, fartölvu og sjónvarp.

Þarftu ekki að standa við loforðið og kaupa buxur fyrir litlu systur?

Já hún ætlar að láta mig standa við það og lét mig vita strax af því þannig að ég þarf að gera það.

Hvernig var svo að sjá sig í sjónvarpinu og geta loksins sagt fólki hvernig þér gekk?

Það var mjög skrýtið að sjá sig í sjónvarpinu, ég var næstum jafn stressuð og þegar ég var uppi á sviði. Við hittumst öll fjölskyldan og vinir til að horfa. Það var líka léttir að þau sáu loksins hvernig mér gekk enda máttum við ekkert segja og allir búnir að vera að spyrja alltaf hvernig mér hefði gengið en við máttum ekkert segja. Það var líka gaman að sjá viðbrögðin, vinir að senda mér skilaboð allt kvöldið og skrýtið að hafa fókusinn á mér alveg í heilt kvöld enda fullt af fólki að horfa og allir að fylgjast með þættinum.

Myndir þú mæla með því að fólk tæki þátt og myndir þú sjálf gera það aftur?

Já ekki spurning. Þetta var hrikalega gaman og ég er nokkuð viss um að margir sem ég þekki myndu vilja prófa og taka þátt eftir að hafa séð hvað mér gekk vel. Bestu vinirnir einmitt búnir að segja, afhverju fór ég ekki með þér bara. Mæli klárlega með því að fólk mæti og prófi ef þetta verður gert aftur.

SHARE