„Maður þarf að fórna kúlinu fyrir heilsuna“

Íris Ösp Heiðrúnardóttir er 22 ára listakona sem býr á Grænlandi. Við spjölluðum aðeins við Írisi á dögunum og vildum endilega fá að heyra hvernig er að vera ung íslensk kona sem býr í þessu landi sem er okkur flestum mjög framandi, þrátt fyrir nálægðina.

„Ég hef verið með annan fótinn á Grænlandi síðan 2009,“ segir Íris en foreldrar hennar fluttu til Grænlands þegar kreppan byrjaði. Fyrst bjó hún í Nanortalik sem er lítið þorp á syðsta odda Grænlands og í Qaqortoq sem er höfuðstaður Suður-Grænlands. Hún flutti svo til Nuuk í maí 2013.

„Hlutirnir ganga
hægar fyrir sig
en á Íslandi svo
maður er voða
mikið bara í fyrsta gír“

Ástfangin á Grænlandi

Íris á grænlenskan kærasta sem heitir Kaali. „Við kynntumst í byrjun árs 2012 og urðum kærustupar eitthvað upp úr því en hann var að vinna í túristabúðinni í bænum og mamma mín var yfirmaðurinn hans. Ég var að koma heim úr fatahönnunarlýðháskóla og hann var nýkominn frá Aalborg úr háskóla.“

„Grænland er snilld – öðruvísi, en samt ekki. Hlutirnir ganga hægar fyrir sig en á Íslandi svo maður er voða mikið bara í fyrsta gír. Flestir mæta 5 mínútum of seint og stress er næstum ekki til. Það hentar mér einstaklega vel,“ segir Íris. „Fólkið hér er það fallegasta sem ég hef hitt að innan sem og að utan og hér heilsast allir úti á götu og svo er kvatt með knúsi. Ég kann að segja, ,,já, nei, hvernig hefur þú það og ég hef það gott” – allt með mismunandi andlitsgrettum en það er ekki óalgengt þegar maður þarf að heilsa í flýti.“
Íris er með stórkostlegt útsýni en hún er með náttúruna og fjöllin í bakgarðinum sínum þrátt fyrir að búa í miðborginni og segir hún eldhúsgluggann sinn vera síbreytilegt málverk: „Í morgun horfði ég til dæmis á þúsund ísmola fljóta inn Nuuk-fjörðinn.“ Íris er dugleg að taka myndir sem hún setur inn á Instagram reikning sinn.

601769_10201032730272693_1715302794_n

Grænlendingar ekki tannlausar fyllibyttur

Íris segir að það hafi margt komið henni mikið á óvart þegar hún flutti til Grænlands og henni finnast Grænlendingar frábært fólk: „Það var náttúrulega stimplað inní hausinn á mér – eins og svo mörgum öðrum, að Grænlendingar væru bara tannlausar fyllibyttur, en svo kom bara allt annað í ljós. Þau eru öll svo falleg og dugleg. Grænland kemur mér á óvart á hverjum degi. Þau halda mikið í gamlar hefðir og eru langt frá skandinavískri og evrópskri menningu, þrátt fyrir að vera enn undir stjórn Danmerkur.“

„Ég hef upplifað
32 gráður bæði 
í plús og mínus.“

 

Veðrið á Grænlandi er óútreiknanlegt og Íris segir veðrið vera ýktara en á Íslandi. „Ég vakna í sól og góðu veðri svo rölti ég í skólann í brjáluðu roki og snjókomu,“ segir Íris og bætir við að sumrin séu samt líka mjög heit. „Ég hef upplifað 32 gráður bæði í plús og mínus.“

Fimm fataverslanir í verslunarmiðstöðinni

Um þessar mundir er Íris í myndlistaskóla í Nuuk en hún segir að það sé mjög sterk listamenning í landinu og Grænlendingar séu duglegir í að styrkja sitt fólk. „Í kúltúrhúsinu, Katuaq eru reglulega listaverkasýningar og ég á einmitt bókaða sýningu í júní segir Íris en verk hennar má sjá hér.
Aðspurð um tísku og fatakaup segir Íris okkur að það sé verslunarmiðstöð í Nuuk sem er með 5 fataverslunum og síðan veit hún um einn fatahönnuð í Nuuk sem starfar undir merkinu Nuuk Coture og svo er Bibi Chemnitz einnig frá Grænlandi en hún selur sín föt í tískuvöruversluninni Nønne sem er í mollinu. „Torrak Fashion er síðan fatakeðja sem er, held ég, í flestum bæjum á Grænlandi en þau selja Only, Vila og fleiri merki, en „torrak“ þýðir „geggjað“. Ég var sjálf með í að opna Sisters Point búð í nóvemeber 2013 og var verslunarstjóri þar. Það gekk ekki vel að reka búð með aðeins einu vörumerki svo á endanum sameinaðist búðin annarri sem seldi fleiri merki og ég send heim,“ segir Íris en hún segir að það sé líka vinsælt að panta saman af netinu. Á Facebook er afar virk grúppa sem heitir Køb-salg-bytte Nuuk (kaupa-selja-skipta Nuuk) þar selur fólk fötin sín á einhverskonar uppboði eða skiptir.

Það er líka erfitt
að vera töff á hverjum
degi þar sem maður
þarf að klæða sig eftir veðri

„Það eru nokkrar hýbýlaverslanir í Nuuk, en Omaggio er ekki nærri jafn vinsæll hér og á Íslandi. Hér eru þó nokkrir vasar til. Ég myndi sóma mig vel í svartamarkaðs braski og selt Omaggio til Íslands,“ segir Íris.

Góð útiföt til að lifa af veturinn

Við erum líka forvitnar að vita hvort einhverjir tískubloggarar séu á Grænlandi: „Ekki svo ég viti til. Ég fylgist takmarkað með samt. Hér leynast töffarar inn á milli en ég held þau haldi sínum stíl bara fyrir sig en pósta kannski eins og einni „selfie“ á Instagram öðru hvoru. Það er líka erfitt að vera töff á hverjum degi þar sem maður þarf að klæða sig eftir veðri en hér ríkir samt mikil útifata-tíska. Reyndar þarf maður að eiga góð útiföt til að komast heill í gegnum veturinn. Veturinn í ár hefur verið óvenju harður. Staðalbúnaður í 7 mínútna göngu minni í skólann eru selskinnsskór, snjóbuxur, lopapeysa, góð úlpa selskinnshanskar og 66°húfa. Maður þarf að fórna kúlinu fyrir heilsuna,“ segir þessi flotta stelpa að lokum. 
SHARE