Mánudagskjúklingur

Þessi uppskrift er svo góð og kemur frá Allskonar.is.

Það er svo spennandi að leika sér með samspil krydds og ávaxta í kjötréttum. Þessi kjúklingaréttur er sætur en samt kryddaður og alveg frábær á mánudagskvöldi í byrjun nýrrar vinnuviku.

Ég notaði kjúklingaleggi í þennan rétt og hamfletti þá. Þú getur notað hvaða kjúklingabita sem þú vilt, til dæmis læri með beini eða bringur. Þá áætlarðu um 1 bringu á mann eða 1-2 læri.

Þú þarft stóra djúpa pönnu eða stóran pott til að elda þennan rétt.

Mánudagskjúlli fyrir 4

 • 3 msk olía
 • 8-10 kjúklingaleggir
 • salt
 • nýmalaður svartur pipar
 • 1/4 tsk kanill
 • 1/2 tsk cumin, malað
 • 1/4 tsk turmerik
 • 3 hvítlauksrif, fínsöxuð
 • 1 laukur, í sneiðum
 • 5 tómatar, grófsaxaðir
 • 1/2 græn paprika, grófsöxuð
 • 2 msk tómatpúrra
 • 1 appelsína, safi og börkur
 • 3 dl vatn
 • 1/2 teningur kjúklingakraftur
 • 8 þurrkaðar döðlur, grófsaxaðar
 • 6 þurrkaðar apríkósur, grófsaxaðar
 • 3 gráfíkjur, grófsaxaðar
 • 1 lárviðarlauf
 • fersk steinselja eða kóríander

Undirbúningur: 20 mínútur

Eldunartími: 60 mínútur

Byrjaðu á að saxa hvítlauksrifin. Það er stórmunur á bragðinu af hvítlauk eftir því hvort hann er marinn, saxaður eða sneiddur. Hér gefur hann léttan tón með því að vera saxaður. Settu í skál.

Skerðu laukinn í sneiðar; skerðu hann í tvennt og skerðu þunnar sneiðar. Settu í skálina með hvítlauknum.

Skerðu tómatana í bita, settu í stóra skál. Saxaðu paprikuna og þurrkuðu ávextina og settu með tómötunum í skál.

Rífðu börkinn af appelsínunni með fínu rifjárni og settu á disk eða í skál.

Hitaðu olíuna í pönnu við meðalhita. Kryddaðu kjúklinginn með salti, pipar, kanil, cumin og turmerik. Steiktu kjúklinginn í 5 mínútur á hvorri hlið. Taktu úr pönnunni og leggðu á disk til hliðar.

Sjá einnig: Chettinad kjúklingur

Bættu meiri olíu í pönnuna og steiktu nú laukinn og hvítlaukinn í 2-3 mínútur eða þar til laukurinn verður glær. Bættu þá tómötunum, paprikunni, tómatpúrrunni, safanum úr appelsínunni, vatninu, kjúklingakraftinum, þurrkuðu ávöxtunum og lárviðarlaufi út í pönnuna. Láttu suðuna koma upp og láttu malla í 2-3 mínútur.
Settu nú kjúklinginn út í sósuna, láttu sósuna þekja hann vel. Settu lok á pönnuna og láttu malla rólega í 40 mínútur, eða þar til kjúklingurinn er lungamjúkur og eldaður í gegn.
Taktu af hitanum og láttu standa í 10 mínútur áður en þú berð fram.

Frábært með smá kúskúsi eða hrísgrjónum, og handfylli af ferskri steinselju eða kóríander yfir.

SHARE