Matur sem kemur þér í vont skap

Matur getur haft áhrif á skap okkar. Ef þú ert að borða uppáhaldsmáltíðina þína getur það gert þig að hamingjusömustu manneskju á jörðinni, en ef þú borðar ekki á réttum tíma vegna annríkis getur þú orðið pirruð/aður og þá getur maður orðið það sem kallað er á ensku „hangry“, þ.e. reið/ur af hungri. Það væri nú gaman að finna flott orð fyrir þetta á íslensku.

Matur hefur áhrif á taugaboðefni í heila sem tengjast tilfinningum og geðbrigðum. Serótónín, til að mynda, hjálpar fólki að slaka á og dópamín getur aukið einbeitinguna.

Skyndibiti og bakkelsi eru þekkt fyrir að hafa neikvæð áhrif á heilann. Rannsóknir hafa sýnt að unnin matvara gæti stuðlað að þunglyndi, árásargirni, kvíða og öðrum andlegum veikindum.

Það eru til matvæli sem fólk neytir gjarnan sem hafa áhrif á skap þeirra án þess að þau geri sér grein fyrir því.

Matur sem kemur þér í vont skap:

Sykraður matur

Mörgum finnst matur með gervisætu og viðbættum sykri æðislegur. Maturinn lítur vel út og bragðast vel og það gerir matinn aðlaðandi.

Hinsvegar getur mikil neysla á sykruðum mat valdið kvíða, pirring og þunglyndi. Mikill sykur í líkamanum getur valdið því að þú átt erfitt með að takast á við stress samkvæmt DrAxe.com.

Rannsóknir hafa einnig sýnt að gervisæta hefur tengst höfuðverkjum, skapsveiflum, svima og mígreni.

Alkóhól

Margir líta á föstudag sem hápunkt vikunnar því þá á að fá sér í tána. Það er hinsvegar gott fyrir alla að vita að þegar þú drekkur áfengi, gerir þú heilanum erfiðara fyrir að framleiða hormón sem minnka stress og kvíða. Það getur líka minnkað serótónín framleiðsluna, sem vitaskuld hefur áhrif á skapið.

Agave sýróp

Margir nota agave sýróp á pönnukökur og í allskonar eftirrétti. Það er sætara en hvítur sykur og þess vegna þarf minna af því í mat til að fá sama sæta bragðið. Agave sýróp er mjög unnin matvara sem tekur næringargildið úr henni. Eftir framleiðsluferlið verður sætuefnið fullt af frúktósa sem eykur líkur á efnaskiptaheilkenni.

Smjörlíki

Smjörlíki og aðrar vörur sem koma í stað smjörs geta innihaldið slæma fitu sem eykur bólgumyndun. Einnig innheldur það mikið magn af omega 6 fitusýrum sem getur ruglað í skapi þínu vegna þess að það truflar upptöku á omega 3 fitusýrunum.

Kaffi

Of mikið af kaffi á daginn getur valdið því að þú fáir alltof mikið af koffeini í líkamann. Það getur haft áhrif á taugaboðefnin og hormónajafnvægi. Kaffi getur því haft áhrif á skap og valdið kvíða.

Heimildir: Medical Daily

SHARE