Minningarsjóður Sigrúnar Mjallar – umsóknarfrestur til 19. desember.

Minningarsjóður Sigrúnar Mjallar var stofnaður í minningu Sigrúnar Mjallar Jóhannesdóttur sem lést þann 3. júní 2010 af völdum fíkniefna. Tilgangur minningarsjóðsins er að styrkja skapandi verkefni ungmenna á aldrinum 12-18 ára sem eru í áfengis- og/eða vímuefnameðferð á meðferðarheimilum á Íslandi.

Þann 22. desember nk., en þann dag hefði Sigrún Mjöll orðið 21 árs gömul,  verður úthlutað úr sjóðnum í annað sinn, að þessu sinni 1 milljón króna. Árið 2012 voru fjögur verkefni styrkt um samtals 900 þúsund krónur, en þá styrkti Aron Pálmarsson landsliðsmaður í handbolta sjóðinn um 450 þúsund krónur. Í ár leggja tvær vinafjölskyldur föður Sigrúnar Mjallar, Jóhannesar Kr. Kristjánssonar, til féð sem er til úthlutunar.

Í stjórn Minningarsjóðsins situr fólk sem kom að meðferð Sigrúnar Mjallar og hún bar mikla virðingu fyrir. Í stjórninni sitja; Grétar Hostert Halldórsson, forstöðumaður meðferðardeildar Stuðla, Stella Guðmundsdóttir fyrrverandi skólastjóri Digranesskóla, Guðbjörg Erlingsdóttir starfsmaður Foreldrahúss. Í varastjórn situr Pétur Broddason forstöðumaður meðferðarheimilisins að Laugalandi og faðir Sigrúnar Mjallar, Jóhannes Kr. Kristjánsson.

Opið er fyrir umsóknir í sjóðinn til 19. desember nk. og úthlutun fer fram 22. desember nk.

1509837_10201931176512528_261351108_n

 

Þeir sem vilja leggja sjóðnum lið geta lagt inn á reikning 596-26-2, kennitala: 550113-1120

Aron Pálmarsson styður menningarsjóðinn aftur í ár  en með öðrum hætti. Hann gefur handboltatreyju sem verður boðin upp til styrktar sjóðnum. Uppboðinu lýkur á miðnætti fimmtudag og geta einstaklingar og fyrirtæki boðið í treyjuna. Hægt er að gera tilboð í treyjuna með því að senda tölvupóst á netfangið  uppbod@minningsissu.is og svo verður hægt að fylgjast með uppboðinu á þessari fésbókarsíðu. 

SHARE