Móðurástin sigraði reiðina

Á sos.is eru birtar fallegar sögur af skjólstæðingum SOS og við fengum að birta þessa hjá okkur en hún sýnir mátt móðurástarinnar.

Hann vissi aldrei heimilisfangið sitt því hann átti hvergi heima. Hann gat aldrei vænst þess að móðir hans tæki hann í fangið því hún var aldrei til staðar. Hann bjó við aðstæður sem ekkert barn ætti að búa við.

Þetta er saga hins úkraínska Misha*. Fyrri hluti sögunnar er líka saga þúsunda barna í okkar heimsálfu og hvernig þau eru rænd áhyggjulausri æsku. En seinni hlutinn er saga um það hvernig gott fólk getur umbreytt aðstæðum sem virðast óyfirstíganlegar.

Reiðin

Misha fæddist árið 1999. Móðir hans var alvarlega veik á geði og faðirinn var aldrei inni í myndinni. Misha hefur aldrei fengið að hitta hann og veit ekkert um hann. Engir nánir ættingjar treystu sér til að taka við drengnum og því var honum komið fyrir á munaðarleysingjaheimili strax eftir fæðingu.

Fyrstu sjö ár ævi sinnar bjó Misha á stofnunum og var reglulega fluttur á milli staða.

En svo gerðist kraftaverkið. Misha flutti út af stofnun í síðasta sinn og fékk heimili í SOS Barnaþorpi. Strax við komuna þangað var ljóst að drengurinn glímdi við ýmis vandamál. Hann var uppstökkur og orðljótur. Hann átti það til að fá reiðiköst sem virtust koma fyrirvaralaust og skipti þá engu máli hvar hann var staddur. Köstin voru mjög slæm og Misha hafði enga stjórn á sér.

„Hann var mjög kvíðinn. Í hvert skipti sem hann varð óöruggur tók hann að naga ermarnar og þá vissi ég að eitthvað var í vændum,“ segir SOS-móðirin Zoya.

 

tpa-picture-65565

Öryggi og ástúð

En kvíðinn og streitan leiddu ekki bara til reiðikasta. Misha átti það nefnilega til að væta rúmið og það virtist gerast sæi hann fullorðinn einstakling beita barn valdi í skólanum eða annars staðar. Einnig átti hann erfitt með nám. Margir höfðu miklar áhyggjur af drengnum.

SOS-móðir Misha taldi sig vita á hverju hann þyrfti helst að halda og ákvað að veita honum það; öryggistilfinningu, gott heimili, hughreystingu, umhyggju og ástúð.

„Þetta varð til þess að hann fór að geta slakað á og tók að líða vel hér á heimilinu. Hann varð öruggur og sýndi ótrúlegar framfarir,“ segir Zoya.

Nú eru sjö ár liðin frá því að Misha flutti í barnaþorpið og margt hefur breyst í hans fari á þeim tíma. Hann á tvo SOS-bræður og tvær –systur og öll fjölskyldan er mjög náin.

„Í dag er hann ekki með neina greiningu og þarf ekki lengur á aðstoð sálfræðinga að halda. Þetta er mjög mikilvægt fyrir hann því í framtíðinni getur hann valið sér starfsvettvang og líka fengið ökuskírteini,“ segir SOS-móðirin Zoya.

Misha hefur lært að takast á við tilfinningar sínar án þess að skaði hljótist af fyrir hann eða aðra. „Hann fær ekki lengur reiðiköst og kennararnir hans hrósa honum fyrir góða hegðun. Hann stundar hefðbundið nám og á marga vini í skólanum og í barnaþorpinu. Hann er glaðvær, félagslyndur og vel liðinn. Þá er hann líka mjög hjálpsamur. Í stuttu máli þá er hann bara venjulegur 14 ára drengur sem hvaða móðir sem er gæti verið stolt af!“ segir Zoya að lokum.

*Nöfnunum hefur verið breytt vegna persónuverndar.

 

SHARE