„Mörg efni í mat krabbameinsvaldandi“

Una Emilsdóttir er uppalin í Garðabænum en býr núna í Danmörku. Hún hefur nýlokið við að læra læknisfræði úti í Kaupmannahöfn og segist alltaf hafa haft mikinn áhuga á heilsu og hollu mataræði.

„Það er er sennilega frá móður minni komið, en hún kenndi mér snemma að meta mátt náttúrunnar,“ segir Una. Eftir 2 ár í heilbrigðisverkfræði í HR leiddi þessi áhugi hana í læknisfræði við Kaupmannahafnarháskólann í Danmörku. Eftir annað árið í læknisfræðinni, og þá sérstaklega eftir áfanga um m.a. meltingarkerfið og eiturefnafræði, fór áhuginn vaxandi.

„Síðan þá hef ég lesið fjölda bóka og hlustað á óteljandi vefvörp (podcast-þætti) með viðtölum við lækna eða önnur heilsutengd vefvörp. Þegar ég svo heyrði mjög áhugavert viðtal víkkaði sjóndeildarhringur minn svo um munaði, og áhuginn fór á algjört flug. Viðtalið var við mann sem lagðist fyrir nokkrum árum í rannsóknir og heimildaleit um krabbamein í samvinnu við lífefnafræðinga, ónæmisfræðinga og fleiri lækna, þó svo að hann sé nú arkítekt sjálfur að mennt. Í kjölfarið sendi ég viðkomandi tölvupóst, því hann nefndi Íslandsför fyrir algjöra tilviljun í viðtalinu,“ segir Una og bætir við að þetta hafi allt endað með því að hún fékk að vera með honum og samferðamönnum í 2 vikur, ásamt fleiri Íslendingum sem hann kom til að hitta.

Fyrirlestur í dag á Gló

Í kjölfarið segist Una hafa farið að endurskoða líf sitt og lífsvenjur töluvert. „Það er svo mikið af skaðlegum efnum í neysluvörum og nærumhverfi okkar sem við sem neytendur höfum ekki hugmynd um. Framleiðendur spara sér mikla peninga með vinnsluaðferðum og notkun aukaefna, á kostnað heilsu neytenda sem algjörlega er haldið í skugganum í þessum málum. Mörg þessara efna eru ýmist krabbameinsvaldandi eða hormónaraskandi, en þar að auki eru yfir 100 þúsund efni á markaðnum sem hafa aldrei verið áhættumetin og langtímaáhrif á menn og náttúru því óþekkt. Meðal maður í samfélaginu getur ekki með nokkru móti fengið upplýsingar af þessu tagi nema með mikilli rannsóknarvinnu. Mér fannst ég ekki geta haldið aftur af mér, fannst ég einfaldlega knúin til að koma þessum upplýsingum áfram til vina og vandamanna,“ segir Una.  Það varð svo kveikjan að fyrirlestri í Lifandi Markaði, og síðar á Gló, en fyrirlestrarnir hafa vakið mikinn áhuga og alltaf troðfullt út úr dyrum. „Ég hef því gert það að vana mínum að halda alltaf einn fyrirlestur þegar ég kem til Íslands, en síðast komu um 140 manns og var aðsóknin það mikil, að halda þurfti auka fyrirlestur daginn eftir.“ 

„Fyrir utan upplýsingar um skaðleg efni lærðum við líka ótal margt um hvað ber að gera til að verjast langvinnum sjúkdómum, t.d. með því að borða ákveðna sjúkdómshamlandi fæðu og passa að manni vanti ekki ákveðin lykilefni í líkamann. Alveg ótrúlega dýrmætar upplýsingar sem er erfitt að komast í. Ég ætla því að halda minn fimmta fyrirlestur á Gló í kvöld kl.17:15 – til að dreifa boðskapnum og kenna vinum, fjölskyldu og áhugasömum það mikilvægasta sem ég lærði. Mig langar að opna augu fólks, víkka sjóndeildarhringinn og breyta hugarfari varðandi samhengi milli mataræðis og nærumhverfis á heilsu og hreysti. Það er svo dýrmætt að vera hraustur og þegar maður er mikið að vinna á spítala fær maður stanslaust áminningu um það, að maður á að vera þakklátur fyrir lífið og passa upp á líkama og sál eins og maður mögulega getur,“ segir Una að lokum. 

SHARE