My Comfort Zone: Það er fjársjóði að finna á hverju heimili

„Ég hef alltaf haft áhuga á innanhússhönnun. Alveg frá því ég var lítil stelpa. Ég hef tekið til í klæðaskápum hjá vinkonum síðan ég man eftir mér og var alltaf að breyta herberginu mínu sem barn. En ég er núna fyrst að láta verða af þessu og er að hrinda draumnum í framkvæmd. Kannski til að koma sjálfri mér á framfæri um leið, en í upphafi ætlaði ég My Comfort Zone bara að vera vettvangur til að brainstorma. En dæmið vatt fljótlega upp á sig.”

.

Ingibjörg Katrín

Ingibjörg Katrín stofnaði og heldur úti My Comfort Zone á Facebook

.

Heldur úti ráðgjafasíðunni My Comfort Zone á Facebook

Ingibjörg Katrín Kristjánsdóttir, kölluð Inga, er stúlkan sem lætur þessi orð falla en hún er 21 árs gömul og heldur úti síðunni My Comfort Zone á Facebook þar sem hún deilir jafnt hugmyndum að smekklegri innanhússhönnun og tekur við beiðnum um ráðgjöf sem og endurskipulag innanhúss. Verkefnin segir Ingibjörg vera fjölmörg og skemmtilega fjölbreytt, en fátt er þessari ungu og skapandi stúlku óviðkomandi þegar að hönnun innanhúss kemur.

.

Hér hefur Inga endurskipulagt unglingaherbergi og segir sjálf: „Hér var skipulagið ekki gott. Húsgögnunum var raðað á þannig hátt að herbergið virkaði mjög lítið. Stúlkunni langaði í svona “street style” herbergi og þess vegna fannst mér gaman að draga fram það þema með að hafa fataslá og langar hillur fyrir ofan, svo þetta lúkkaði pínu eins og bás. Herbergið var þrifið frá gólfi og upp og föt flokkuð og smádót.”

 

 

Dreymir um sjónvarpsþátt þar sem hún umbyltir heimilishönnun

„Það er ekkert leyndarmál að mig dreymir um að starfa við innanhússhönnun í framtíðinni og hátindurinn væri auðvitað minn eiginn sjónvarpsþáttur þar sem ég myndi umbreyta heimilum fólks en þó það sé langsótt markmið, stefni ég þangað.”

Skemmtileg áskorun að vinna með þann efnivið sem er til staðar

Ingibjörg segir ekki mikið í boði á netinu þegar kemur að hagkvæmri endurskipulagningu á raunhæfu verði sem hinn almenni launamaður ráði við, þar sem ráðgjöf og vinna lærðra arkitektúra sé í flestum tilfellum dýrari en meðalmanneskjan hefur ráð á. „Ég starfa líka fyrir fólk sem hefur litla peninga á milli handanna og þarf á sniðugum lausnum að halda. Ég hef ótrúlega gaman að því að vinna með þann efnivið sem er til staðar og þau húsgögn sem eru inni í íbúðinni, en ég veiti þá bæði innanhússráðgjöf og ég spyr alltaf í upphafi hvort einstaklingurinn vill leggja peninga til kaupa á húsmunum eða ekki. Ef ekki, þá vinnum við með þann efnivið sem er til staðar en í öðrum tilfellum fæ ég úthlutað  fjármagni sem er fyrirfram ákveðið og það er alveg jafn gaman.”

.

Hér má sjá gesta / bókaherbergi sem Inga fékk að verkefni en hún segir: „Það hafði aldrei gefist tími í að gera þetta herbergi eins og það átti að vera. Þessi breyting tók kvöldstund og engan kostnað. Mikið fallegt og huggulegt ♥”

 

Byrjaði fyrir vini og kunningja en setti fljótlega upp síðu á netinu

Aðspurð segir Ingibjörg verkefnum stöðugt fjölga. „Ég gerði þetta í upphafi fyrir vini og fjölskyldu en núna, þar sem ég er orðin sýnilegri á Facebook og held úti eigin síðu, fer fyrirspurnum fjölgandi með hverjum degi. Ég er að vinna í portfolio þessa dagana og hef nýverið tekið skrifstofu í gegn en af ljósmyndunum má líka sjá hvað ég geri í raun og hvers er hægt að óska.”

Leyfir hugmyndum óhindrað að flæða fram og fylgir innsæinu

Sjálf segist Ingibjörg kalla starfið innblástur, hún leggi hugann í bleyti við vinnu sína og leyfi hugmyndunum að flæða fram. „Ég er að hjálpa, mitt hlutverk og mín hæfni liggur í að aðstoða við allt sem tengist heimilinu. Ég sé fljótlega út hvað þarf til að gera heimilið að „Comfort Zone” hvers og eins og þaðan er nafn síðunnar einmitt komið.”

.

Skrifstofa / Mâlaraherbergi sem Inga umbreytti fyrir skömmu: „Í þessu herbergi hafði safnast saman dót í mörg ár. Þetta var eiginlega geymsla” en eigendum langaði að gera þetta að skrifstofu/málaraherbergi. Hér fór ég gegnum allt og flokkaði. Útkoman varð alveg verulega kózý ♥

 

Heldur ekki út föstum taxta og metur hvert verkefni fyrir sig

Aðspurð um kaup og kjör segir Ingibjörg hvert verkefni einstakt. „Ég hef ekki sett upp fastan verðlista enn. Ég hef tekið nokkur verkefni að mér og taxinn er sérsamin upphæð í hvert sinn, en alltaf hóflegt og innan marka sem allir ættu að ráða við. Ég er ekki lærð í innanhússhönnun og vil ekki taka sérfræðitaxta þess vegna, en mér finnst starfið líka skemmtilegt og það er hluti af ánægjunni.”

Önnum kafin stúlka sem er full atorku og ákveðni

Ingibjörg er aðstoðarverslunarstjóri í Lindex í Kringlunni og gengir því innanhússráðgjöf samhliða dagvinnu. Það er því í mörg horn að líta hjá Ingibjörgu, sem er önnum kafin flesta daga. „Ég gæti hugsað mér að læra fagið í framtíðinni, en í augnablikinu er ég bara að njóta gleðinnar. Þetta er svo skemmtilegt að ég er í skýjunum.”

.

Barnaherbergi fyrir breytingar: Hér hefur Inga fengið það verkefni að umbreyta herbergi eins árs dömu en húsgögnin sem fyrir voru í herberginu voru öll í eigu foreldra stúlkunnar sem höfðu týnt til sitthvað smálegt og vildu umbreyta rýminu í herbergi sem hæfir sannri prinsessu. Útkomuna má sjá í myndasfni að neðan. 

 

Þrífur allt í upphafi, fjarlægir húsmuni og byrjar aftur frá grunni

Ingibjörg tekur við fyrirspurnum í gegnum Facebook síðuna My Comfort Zone og segir ekkert verk of lítið. „Það er ekkert of stórt eða smátt. Ferlið gengur þannig að þú sendir mér fyrirspurn gegnum Facebook og við mælum okkur mót á heimilinu á tíma sem hentar okkur báðum. Þar fer ég í gegnum hvaða óskir þú hefur; hvert herbergi fyrir sig. Ég byrja alltaf á því að þrífa allt og flokka – ég tek allt út úr herberginu svo ég byrji á hreinum grunni. Þegar því er lokið förum við saman gegnum herbergið – þarf að mála o.sv.frv. Ég vinn í mjög nánu samstarfi við viðskiptavininn og hjálpa við að hrinda hugmyndum í framkvæmd, eða kem jafnvel með nýjar hugmyndir. Þetta er fjölbreytt vinna og ómögulegt að segja til um hversu langan hvert verkefni tekur, það fer allt eftir umfanginu.”

.

Barnaherbergi eftir breytingar: Þetta herbergi var gestaherbergi/ungbarnaherbergi – það hafði ekki gefist tími í að klára verkið. Nú er þetta sko fyrsta flokks prinsessuherbergi ♥

 

 Brosið á andlitum þeirra sem til hennar leita besta gjöfin

Að lokum segir Ingibjörg mestu verðleikana vera fólgna í gleðinni en ekki í greiðslunni sjálfri. „Þetta er svo gaman og ég er svo full af áhuga. Að sjá andlitið á fólkinu þegar verkinu er lokið, að hjálpa öðrum að hrinda hugmyndum í framkvæmd sem því hefur lengi dreymt um en vissi ekki hvernig það ætti að gera, það er ómetanlegur fjársjóður. Það er besta tilfinning í heimi.”

 My Comfort Zone er á Facebook

Innlit inn á heimili Sophia Loren – Myndir

Retró heimili Lizette Bruzkstein

Innlit í danska dúllubúð…

SHARE